Studia Islandica - 01.06.1986, Blaðsíða 187
185
Einar snerist ekki til þeirrar biblíuföstu bókstafstrúar,
sem rígbatt hugsun fólks á uppvaxtarárum hans. Viðhorf
hans áttu miklu fremur skylt við kenningar nýguðfræðinnar
sem, eins og komið hefur fram, ruddi sér til rúms á sein-
ustu áratugum aldarinnar. Þegar leið á nýja öld varð hann
og eindreginn talsmaður spíritisma. Undirstöður lífs-
skoðunar hans urðu hugtök eins og sannleikur, kærleikur,
fyrirgefning, sjálfsafneitun og bræðralag.
í þessari grein verða könnuð tvö verk eftir Einar, sem
sýna gjörla samfelluna í skáldskap hans. Annað þeirra,
Örðugasti hjallinn, kom út árið 1901, en hitt, Sögur Rann-
veigar, tæpum tveimur áratugum síðar. Báðum svipar all-
mjög til skáldsögu Guðmundar Friðjónssonar, Ólafar íÁsi
(1907), hvað ytra snið snertir, og hefur hið fyrra án efa haft
áhrif á gerð hennar. Öldruð kona segir frá í fyrstu persónu
og rifjar upp afdrifaríkustu atburðina á þroskabraut sinni.
Bæði fjalla verkin um ást og hjónaband með ekki ósvipuð-
um hætti. Stefnt er saman mótstæðum lífsgildum: ást og
skyldu, ástríðu og sjálfsafneitun, sjálfsku og meðaumkun.
Með nokkrum rétti má líta á þessi verk sem andsvar eða
rökræðu við aðrar bókmenntir. Höfundurinn tekur upp
mál, sem mjög voru til umræðu í sögum raunsæisskálda, en
kemst að gagnólíkum niðurstöðum. Þetta er ákaflega
glöggt í Sögum Rannveigar, þar sem söguþrjóturinn er
málsvari þeirra hugmynda, sem raunsæismenn höfðu hit-
ann úr.
Þorgils gjallandi áleit að réttur ástarinnar væri óskoraður
fæli hún sig ekki að baki lygi og launung. Hann gerði þá
kröfu til manna, að þeir þvinguðu ekki eðlilega ásthneigð
sína með óeðlilegum félagshöftum eins og hjónabandi,
sem oft væri ekki annað en lygasamfélag. í sögum hans
reynir á þessa hugmynd. Sigríður í Gömlu og nýju og Gróa
í Upp við fossa velja hvor sína leið. Sú fyrrnefnda gerir
uppreisn gegn kúgandi skyldu og slítur ástlausu hjóna-
bandi. Sú síðarnefnda beygir sig hins vegar og kýs lygasam-
búðina. Þórdís í Örðugasta hjallanum velur leið Gróu þótt