Náttúrufræðingurinn - 2009, Side 34
Náttúrufræðingurinn
34
að þeir skriðu úr eggi, eins og brátt
verður greint frá.
Þegar á krítartímabilið leið
varð höfuðbúnaður horneðlnanna
fyrirferðarmeiri. Frumhyrnan (Proto-
ceratops, 12. mynd) var uppi fyrir
86–70 milljón árum, nærri lokum
krítartímabils, á sömu slóðum og
páeðla. Hún var með svipaðan gogg,
hornlaus þrátt fyrir nafnið en með
áberandi kraga á hálsi, gildvaxin
með stuttan hala og gekk á fjórum
stuttum fótum. Frumhyrnan var
1,8–2,5 m löng, metri á hæð og um
400 kg. Af steingervingum ætla
menn að frumhyrnur hafi verið
hjarðdýr og fundist hafa hreiður
með 12 eða fleiri eggjum. Kragarnir
eru misstórir og þykir það benda til
munar á útliti kynjanna.
Um sama leyti, fyrir 77–70 milljón
árum, reikuðu íguleðlur (Styraco-
saurus, 13. mynd), sennilega í hjörð-
um, um Norður-Ameríku þar sem
nú eru Bandaríkin og Kanada. Ígul-
eðlan var með gadda aftur og upp
úr kraganum og auk þess með langt
horn á snoppunni og tvö minni
fyrir ofan og aftan augun, stærri
en frumhyrna eða um 5 metra löng,
nærri 2 m á hæð og vó líklega ein
3000 kg.
Síðast á krít, fyrir 70–65 milljón
árum, eða þar til risaeðlurnar dóu út,
lifði í Norður-Ameríku enn stærri og
stórfenglegri horneðla en íguleðlan,
þríhyrna eða nashyrningseðla (Tri-
ceratops, 14. mynd). Hún var um
9 m löng, 3 m á hæð og hefur
vegið 6–12 lestir, með tvö stór horn
ofan við augun og eitt minna á
snoppu. Hauskúpan mældist allt
að þriggja metra löng frá snoppu
aftur á tennta afturbrún kragans, og
þekkist ekki voldugri hauskúpa á
öðru landdýri (þótt lengri höfuðbein
af öðrum horneðlum hafi raunar
fundist). Fátt er vitað um lífshætti
eða félagshegðun þessara dýra, en
menn þykjast hafa fundið brot úr
beinum þeirra í steingerðum saur
grameðlu.
Fuglsfetar
Fuglsfetar (Ornithopoda) voru lausir
við brynju og gadda. Fremst á
kjálkunum var tannlaus goggur úr
hyrni en aftan við gogginn voru
kjálkarnir tenntir. Af sporum eftir
fuglsfeta, sem víða hafa fundist, má
ráða að margir hafi verið tvífættir
og sumir fráir á fæti. Aðrir voru öllu
þyngri á sér og gengu á fjórum fótum.
Fuglsfetum er skipt í tvo megin-
hópa, skeglur og andarnefjur. Ýmsar
frumstæðar og fornar risaeðlur, til
dæmis lesótóeðlan (Lesothosaurus, sjá
5. mynd í fyrri hluta greinarinnar),
eru oft flokkaðar með fuglsfetum.
Skeglueðlur (Iguanodontia)c lifðu
snemma á krítartíma, fyrir um
135–125 milljón árum. Þetta voru all-
stórar skepnur, með þunnan, háan
hyrnis-gogg. Ólíkt öðrum risaeðlum
gátu skegl-urnar tuggið fæðuna og hafa
unnið á grófum trjákenndum gróðri
þeirra tíma, svo sem burknatrjám og
fræburknum. Afturlimir voru lengri en
framlimir og á þeim þrjár tær með hóf-
um, en á fimm fingra höndum var þum-
allinn ummyndaður í stóran beingadd.
Margar Iguanodon-tegundir og
áþekkar skeglur af öðrum ættkvísl-
um hafa fundist steingerðar í öllum
heimsálfum, þar með Antarktíku,
allt að 10 m löng dýr, 3–5 m á hæð og
einar 5 lestir (15. mynd). Beinafundir
benda til þess að skeglurnar hafi
verið hjarðdýr.
Andarnefjueðlur (Hadrosaurida)
urðu fullvaxnar 7–12 metra langar.
Höfuðið var langt og lágt, og aftan
við breiðan, tannlausan gogg, sem
líktist andarnefi, voru í kjálkunum
margar og sérkennilegar tennur sem
við er stuðst þegar þessi dýr eru
flokkuð.
Andarnefjur hafa verið meir og
betur rannsakaðar en nokkrar aðrar
risaeðlur. þær eru taldar hafa þróast
af skeglum og komu ekki fram fyrr
en seint á krítartímabili en náðu sér
vel á strik og voru undir lok risaeðlu-
tímans algengustu og fjölbreyttustu
stóru landdýrin í Lárasíu, auk þess
sem leifar þeirra hafa fundist í Suður-
Ameríku.
Af steingervingum er ljóst að dýr-
in urpu eggjum í hreiður og margt
bendir til þess að foreldrarnir eða
mæðurnar hafi varið hreiðrin og
sinnt ungunum. Víða hafa bein af
feiknamörgum andarnefjum fundist
saman, svo þetta virðast hafa verið
hjarðdýr sem trúlega ferðuðust all-
langar leiðir með árstíðum.
Glöggar leifar af hlasseðlu
(Hadrosaurus foulkii) hafa fundist í
New Jersey við austurströnd Banda-
ríkjanna (16. mynd). Árið 1858
fundust hjá bænum Haddonfield
17. mynd. Freyjueðla, Maiasaura.11
16. mynd. Hlasseðlan, Hadrosaurus foulkii,
var með fyrstu risaeðlum heims sem stein-
gervingur fannst af. Á fundarstaðnum, í
Haddonfield, stendur þessi bronsstytta af
hlasseðlu, sem tilnefnd hefur verið fylkis-
risaeðla í New Jersey.14
15. mynd. Skeglueðla, Iguanodon.11
c Þessar skepnur hafa verið kallaðar grænskeglur á íslensku, en nafnið Iguanodon mun vísa til þess að tennur dýranna líkjast tönnum Iguana-eðlna, sem lifa nú
í Mið- og Suður-Ameríku og kallast á íslensku græneðlur. Þar sem engin merki hafa geymst í rúmar hundrað ármilljónir um litarfar þessara dýra legg ég til að
íslenskt heiti þeirra verði stytt í skeglur.