Náttúrufræðingurinn - 2009, Blaðsíða 56
Náttúrufræðingurinn
56
átti sér stað vorið 2001. Sex mítlar
fundust í feldi þessa hunds og voru
tveir þeirra sendir til greiningar
að Keldum. Voru þar í báðum til-
vikum fullorðin kvendýr á ferðinni (3.
mynd). Annað þeirra verpti hundr-
uðum eggja fljótlega eftir komuna
að Keldum en kvendýrin verpa allt
upp í 7200 eggjum.1 Hinn hund-
urinn kom til landsins í apríl 1998,
líka frá Bandaríkjunum. Á honum
fundust þrír mítlar. Einn þeirra var
sendur að Keldum til greiningar
og reyndist það vera fullorðinn
kvenmítill. Báðir hundarnir voru
meðhöndlaðir og smitið upprætt.
Ameríski hundamítillinn
Í byrjun júní 2004 fannst 4,5 mm
langur blóðsjúgandi mítill í hárs-
verði húsfreyju á sveitaheimili á
Vesturlandi og var mítillinn sendur
að Keldum til greiningar. Þarna
var á ferðinni Dermacentor variabilis,
mítill sem er algengur á hundum
í Norður-Ameríku og gengur yfir-
leitt undir nafninu ameríski hunda-
mítill (5. mynd). Um var að ræða
fullorðið kvendýr. Þegar það
fannst og var fjarlægt hafði mítill-
inn náð að sjúga nokkuð af blóði.
Full af blóði eru kvendýrin samt
margfalt stærri, allt að 13 mm löng
og 10 mm breið.2
Ameríski hundamítillinn hefur
ekki áður verið staðfestur á Íslandi
eftir því sem best er vitað.
Líklegt er að mítillinn hafi borist
til landsins í föggum heimafólks
á bænum, sem hafði vikuna áður
verið á tjaldferðalagi í Wisconsin í
Bandaríkjunum.
Lífsferill hundamítla
Báðar tegundirnar hafa áþekkan
þriggja hýsla lífsferil.1,2 Egg mítl-
anna eru dökkbrún að lit og kúlu-
laga. Lirfurnar sem úr þeim klekjast
eru um hálfur millimetri að lengd
og þekkjast á því að þær eru ein-
ungis með þrjú fótapör. Lirfa þarf
að sjúga blóð til að geta haft ham-
skipti og þroskast í gyðlu (nymph)
sem er næsta þroskastigið í lífs-
ferlinum. Gyðlur eru með fjögur
fótapör og líkjast fullorðinsstiginu
í útliti, nema hvað þær eru smá-
vaxnari (1,1–1,3 mm langar). Eins
og lirfurnar þurfa gyðlurnar einnig
að sjúga blóð til að geta skipt
um ham og þroskast í fullorðna,
sérkynja mítla sem makast í feldi
hundanna. Karldýrin verða ekki
nema 2–3 mm löng og er stærð
þeirra svipuð kvendýrunum, áður
en þau sjúga blóð og þenjast út
(1. mynd). Þegar kvendýrin hafa
náð að fylla sig og eru orðin um
12 mm löng, láta þau sig falla til
jarðar, ýmist ofan í bæli hundsins
eða þar sem gengið er með hunda
eða þeim sleppt lausum. Stuttu
síðar verpa kvendýrin þúsundum
eggja. Það tekur nokkra daga og
drepast þau að varpinu loknu.
Lífsferill brúna hundamítilsins
krefst hitastigs sem er yfir 20°C.
Best þrífst hann þar sem hitinn er
milli 20 og 30°C og loftraki mik-
ill. Vegna þess að lirfur og gyðlur
tegundarinnar þroskast eðlilega á
hundablóði einu saman, fjölgar teg-
undin sér auðveldlega inni í upp-
hituðum húsum og viðhelst þar
sem einungis einn hundur er til
staðar. Skemmst tekur lífsferill-inn
um tvo mánuði en dýrið getur lifað
í 3–5 mánuði á hverju þroska-stigi
án þess að fá næringu.1 Lífs-ferill
ameríska hundamítilsins fer aft-
ur á móti fram við mun kaldari
aðstæður utanhúss og tekur yfir-
leitt mun lengri tíma, jafnvel 2–3
ár. Iðulega þrífast lirfur og gyðlur
þessarar tegundar á villtum nag-
dýrum. Þótt fullorðinsstigið sé al-
gengast á hundum, getur það einnig
þrifist á mörgum öðrum tegund-
um spendýra.2
Verum á varðbergi
Blóðsjúgandi mítlar nota greini-
lega ólíkar leiðir til að viðhalda
útbreiðslu sinni og til þess að
dreifa sér til nýrra staða. Eitt af
tilfellunum fjórum þar sem hunda-
mítlar bárust til landsins með
öðru móti en að halda til í feldi
hýsilsins, leiddi til tímabundins
landnáms brúna hundamítilsins
hér á landi. Rétt viðbrögð dýra-
lækna og heilbrigðisyfirvalda náðu
að hindra frekari útbreiðslu og
uppræta óværuna. Líklegt er að
svipað hefði getað gerst hefði staki
kvenmítillinn sem hingað barst
frá Flórída verið búinn að makast
og fengið að lifa áfram óáreittur á
hundinum.
Hér er sleppt umfjöllun um
sjúkdómsvalda sem blóðsjúgandi
mítlar geta stundum borið milli
hryggdýra, þar með talið sjúkdóms-
valda sem geta lagst á fólk. Slíkt
kallar á sérstaka umfjöllun. Rétt er
samt að benda á að skráðar eru
16 tegundir sjúkdómsvalda (veirur,
bakteríur og sníkjudýr) sem stað-
fest hefur verið að brúni hunda-
mítillinn getur borið.1 Það er því að
nokkru að keppa að hindra land-
nám blóðsjúgandi mítla hér á landi.
5. mynd. Fullorðið kvendýr ameríska hunda-
mítilsins Dermacentor variabilis. Dýrið
er 4,5 mm langt og hafði náð að sjúga
nokkuð af mannablóði, áður en það fannst.
Mítillinn er talinn hafa borist til land-
sins með viðlegubúnaði frá Wisconsin í
Bandaríkjunum. – An adult American dog
tick Dermacentor variabilis female prob-
ably brought to Iceland with camping lug-
gage from Wisconsin, USA. Ljósm./Photo:
Karl Skírnisson.