Bændablaðið - 25.03.2021, Síða 24

Bændablaðið - 25.03.2021, Síða 24
Bændablaðið | Fimmtudagur 25. mars 202124 LÍF&STARF Eins og kom fram í síðasta blaði þó hóf Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta, nýlega dokt­ orsnám í hestavísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Helga útskrifaðist frá Dýralækna­ skólanum í Hannover í Þýskalandi árið 2002 og lauk þriggja ára sérfræðinámi í skurðlækningum stórra dýra frá Háskólanum í Ghent í Belgíu árið 2012. Helga hefur alls um 20 ára starfs­ reynslu við hestalækningar, bæði hér heima og erlendis. Til að kynnast Helgu betur og fá betra innsýn inn í hennar líf og starf þá settist blaða­ maður niður með henni og spurði hana nokkurra spurninga. Fædd og uppalin í Breiðholtinu í Reykjavík – Fyrsta spurningin er einföld, hver er Helga Gunnarsdóttir? „Ég er fædd í Reykjavík og uppalin í Breiðholtinu. Ég gekk í Breiðholtsskóla og útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Ég lauk almennu dýralæknanámi frá Dýralæknaháskólanum í Hannover í Þýskalandi og flutti heim til Íslands eftir nám. Ég er gift Baldvini Esra Einars­ syni og við eigum tvo syni, Styrkár, 14 ára og Flóka, 6 ára. Við búum á Akureyri og ég rek þar Dýra­ læknaþjónustu Eyjafjarðar, „Dýrey“, ásamt tveimur öðrum dýra læknum, Aðalbjörgu Jónsdóttur og Helgu Ragnarsdóttur. Við þjónustum allt Eyjafjarðarsvæðið, erum með þjón­ ustusamning í Þingeyjarsýslu og erum með alla þjónustu sem bænd­ ur, hestamenn og gæludýraeigend­ ur þurfa. Við bjóðum í tengslum við það upp á sólarhringsþjónustu alla daga, allt árið um kring. Ég fer einnig um allt land og þjónusta hestamenn og býð upp á sérhæfða þjónustu í tengslum við mína sér­ hæfingu sem hestadýralæknir.“ Með áhuga á hestum alla tíð – Hefur þú alltaf haft áhuga á hestum og landbúnaði og ertu sjálf í hestum og með marga hesta? „Já, ég hef alltaf haft áhuga á hestum frá því ég man eftir mér. Fjölskylda mín stundaði reyndar ekki hestamennsku þannig að ég þurfti að bera mig eftir björginni. Ég var farin að þvælast mjög ung niðri í Neðri­Fák svokallaðan, sem voru gömlu hesthúsin sem standa enn við Bústaðaveg í Reykjavík. Þar gat ég umgengist hesta og feng­ ið að fara á bak. Ég var líka í sveit sem barn og unglingur. Ég fór líka út sem hesta au­pa­ ir til Sviss í tvö sumur og svo var ég í vinnu hjá Benedikt Líndal og Sigríði Ævarsdóttur í tvö sumur að Staðarhúsum í Borgarfirði. Ég eignaðist minn fyrsta hest um fermingu, hann var keyptur þriggja vetra og átti ég hann þar til hann var felldur í hárri elli. Í dag á ég þrjú hross en ég vildi að ég hefði meiri tíma til að stunda hestamennskuna en oft víkur hún fyrir löngum vinnu­ degi.“ Ætlað mér að verða dýralæknir – Hvað kom til á sínum tíma að þú ákvaðst að verða dýralæknir og dreifst þig í það nám? „Ég hef alltaf ætlað mér að verða dýralæknir, man ekki eftir að hafa velt öðru starfi fyrir mér. Í þá daga sem ég var að sækja um skólavist var erfitt að komast inn í skóla og ég hafði þá hugsað mér til vara að komast inn á Hóla í reiðmennsku­ nám. Ég komst inn á Hóla og var að pakka niður í þann skóla þegar svar kemur frá Dýralæknaháskólanum að ég hefði fengið inngöngu þar líka. Ég þurfti þarna að velja á milli,“ segir Helga og hlær. – Þú bættir við þig þriggja ára sérfræðinámi í skurðlækningum stórra dýra frá Háskólanum í Ghent í Belgíu árið 2012. Af hverju ákvaðstu að gera það og hvað fannst þér mest heillandi við skurðlækningar? „Fyrst vil ég segja að eftir almenna dýralæknanámið kom ég heim og stundaði dýralækningar á Norðausturlandi, nánar tiltekið á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er fjöl­ breytt svæði fyrir dýralækna að vinna á, blómlegur landbúnaður, mikil hestamennska og svo líka fjöldi smádýraeigenda. Á þessum tíma stundaði ég blandaða vinnu en fann strax að hugur minn var í „stóru dýrunum“ og snemma fór mig að langa að mennta mig meira á því sviði, sérstaklega hestalækningum. Þessi hugsun festi sig enn meiri í sessi eftir að ég eignaðist eldri son minn og ég fór markvisst að leita að möguleikum til frekari menntunar. Kollegi minn hafði verið í starfs­ námi við Dýralæknaháskólann í Ghent í Belgíu og kom heim og sagði mér frá því hvað honum hafði fundist hestaspítalinn við háskólann áhugaverður. Ég kynnti mér spítal­ ann og möguleikum á framhalds­ námi. Við þann spítala voru í boði þrjár stöður á ári fyrir svokallaða „intern“ lækna. Það eru útskrifaðir dýralæknar sem vinna innanhúss á háskólasjúkrahúsinu, hafa umsjón með inniliggjandi sjúklingum, skipuleggja þá dýra læknanema sem þurfa að taka vaktir á spítalanum og eru í rauninni milliliðir fyrir þá dýralækna sem eru fastráðnir við háskólann. Ég fór út og kynnti mig og sótti um stöðu sem ég og fékk. Þetta var mjög lærdómsríkt ár, botnlaus vinna, lítið sofið. Hestaspítalinn við Dýralæknaháskólann í Ghent er með þeim stærri í Evrópu, þar eru um 120 stíur fyrir inniliggjandi sjúklinga og mikil umferð. Þegar ég lauk þessu „intern“ ári þá þyrsti mig í meira nám.“ Erfiðasti tími sem ég hef upplifað – Þú varst ekki hætt að læra núna, eða hvað? „Nei, nei, því á tveggja ára fresti var í boði ein staða til að sækja um sem skurðlæknanemi. Ég hafði svo sem engar væntingar um að fá þessa stöðu enda margir um hituna. Ég sótti um og fékk þessa stöðu og við tók þriggja ára sérnám við spítalann. Þetta var erfiðasti tími sem ég hef upplifað, ég átti barn og mann sem ég sá varla og ég gekk mjög nærri mér í vinnu. En ég kynntist mörgu, kynntist mörgum af þeim bestu í þessu fagi og ég hefði aldrei viljað missa af þessu. Ég fékk mjög mikla klíníska reynslu, ég lærði vísinda­ lega hugsun og nálgun á fagið og fékk að kenna dýralæknanemum á lokaári þeirra sem mér fannst mjög gaman.“ Vinna mín snýst jöfnum höndum um að eiga við neyðartilvik – Hvað er það helsta sem er að hrjá íslenska hestinn og kallar á hjálp frá dýralækni? „Það er erfitt að nefna það í stuttu máli hvað það helsta er sem hrjáir íslenska hestinn. Íslenski hesturinn er hraustur og heilbrigður í grunninn og við hér á Íslandi erum það heppin að geta í flestum tilfellum haldið hesta á sem náttúrulegastan máta. Vinna mín snýst jöfnum hönd­ um um að eiga við neyðartilvik, þ.e. hluti sem geta ekki beðið, eins og sár sem þarf að sauma eða veikindi af völdum hrossasóttar og svo hinn hlutinn, sem eru kannski ekki bráða­ einkenni sem þarfnast tafarlausrar athygli, það getur verið allt frá því að vera einföld heilbrigðisskoðun sem er oft framkvæmd á hverju ári, ráðgjöf um atferli og fóðrun eða að vera flókin skoðun vegna óljósra einkenna sem erfitt er að henda reiður á.“ Dýralækningar eru í grunninn erfitt starf – Hvað er erfiðast við starfið og hvað er skemmtilegast? „Dýralækningar eru í grunninn erfitt starf. Hugurinn er, allavega hjá mér, nánast alltaf við sjúklinga og tilfelli og það eru ófá kvöldin þar sem ég hef verið að velta vöng­ um yfir hinum ýmsu tilfellum sem ég mæti. Nálgun á tilfellin eru allt önnur en í mannalækningum, tilfelli sem er óljóst þarf að púsla saman og setja í samhengi. Það er ekki hægt að spyrja dýrin eða fá þeirra álit á bata eða afturför. Öll smáatriði skipta máli í dýra­ lækningum og upplýsingar sem virð­ ast í fljótu bragði ómerkilegar geta skipt höfuðmáli. Kostnaður skiptir líka alltaf máli í þessu starfi, þar sem dýrin eru ekki partur af almanna­ tryggingum og eigandi þarf að bera þann kostnað sjálfur sem þarf ef eitthvað hendir. Það felst í því mikil ábyrgð að eiga dýr og þetta er þáttur sem fólk gerir sér oft ekki grein fyrir. Það er oft erfitt að þurfa að viðurkenna það að það er ekki alltaf fjárhagslegt bolmagn til að gera vissa hluti og hendur manns eru bundnar. Ég vil í þessu samhengi hvetja alla dýra­ eigendur til að kynna sér tryggingar fyrir dýrin sín og íhuga þann þátt dýraeignar vel. Skemmtilegast við starfið er þessi gríðarlega fjölbreytni, enginn dagur eins og auðvitað samskiptin við dýr og menn,“ segir Helga og brosir út í annað. Við getum verið afskaplega stolt af hestinum okkar – Ef þú horfir yfir sviðið á hestana á Íslandi, eru þeir almennt ekki mjög hraustir og flottir, hestakyn, sem við getum verið stolt af? „Í sérnáminu mínu kynntist ég auðvitað alls kyns hestakynjum. Við hérna á Íslandi erum bara vön okkar hesti og höfum í rauninni engan samanburð. En hestamennska er svo gríðarlega fjölbreytt og hest­ arnir mjög svo mismunandi. Sama daginn gat ég verið að vinna með 60 kg falabella smáhest yfir í að skoða belgískan dráttarhest sem vegur yfir 900 kg. Það var alveg hreint frábært að fá að kynnast öllum þessum fjöl­ breytileika og ég bý gríðarlega að því í dag. Við getum verið afskap­ lega stolt af hestinum okkar. Hann er auðlind og í rauninni alveg ótrúlegt að eyþjóð norður í Atlantshafi geti státað sig af sínu eigin hestakyni. Íslenski hesturinn er líka einstak­ ur að því leyti að hann er svo fjöl­ breyttur og mikill félagi. Hann spannar svo mikið, hann er seigur ferðahestur, úthaldssamur gangna­ hestur, grimmur keppnishestur á hringvelli og svo bara besti vinur­ inn í sunnudagsreiðtúrnum. Einn og sami hesturinn getur jafnvel inni­ haldið allt þetta.“ Hugmyndin að doktorsverkefninu byrjaði að mótast árið 2018 – Þú ert fyrsti nemandinn til að hefja doktorsnám í hestavísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hvernig varð sú ákvörðun til og hvernig sérð þú námið fyrir þér og hvað viltu fá út úr því? „Hugmyndin að doktors verk­ efninu byrjaði að mótast árið 2018 þegar ég fékk tækifæri til að aðstoða alþjóðlegan rannsóknarhóp sem Falleg mynd af Helgu Gunnarsdóttur og hryssu sem hún var að lækna, en góður vinur hennar, sem er atvinnuljósmyndari og heitir Brynjar Gunnarsson, tók myndina. Hann fylgdi henni í einn dag og tók myndir af henni í vinnunni. Þessi hryssa hafði slasast á auga og þurfti Helga að fjarlægja það. Hryssan var hjá Helgu á meðan hún var að jafna sig og þarna eru þær að tala aðeins við hvor aðra. Myndir / Úr einkasafni Helga, sem er fyrsti doktorsneminn á sviði dýralækninga við íslenskan háskóla. Ef fólk hefur fyrirspurnir eða hugsanlega hest eða hesta sem það langar til að láta skoða, þá er hægt að hafa samband við Helgu í gegnum Facebook-síðuna hennar, Helga Gunnarsdóttir - Dýralæknir hesta.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.