Morgunblaðið - 25.02.2021, Side 20
VIÐTAL
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Framleiðni hefur aukist mjög í
mjólkuriðnaði eftir að afurðastöðvar
fengu heimild til sameiningar og
verkaskiptingar. Framleiðnin hefur
vaxið tvöfalt hraðar frá árinu 2000
en algengt er í atvinnuvegum hér á
landi. Árlegur ávinningur er nú
tveir til þrír milljarðar og núvirði
hans er 50 til 70
milljarðar króna.
Þetta er meðal
niðurstaðna at-
hugunar Ragnars
Árnasonar, hag-
fræðings og pró-
fessors, á þróun
framleiðni í
mjólkuriðnaði.
Ragnar gerði
skýrslu um at-
hugun sína fyrir eigendur Mjólk-
ursamsölunnar. Hún tekur til ár-
anna 2000 til 2018 og grundvallast á
gögnum frá samvinnufélaginu Auð-
humlu sem er meirihlutaeigandi
Mjólkursamsölunnar, en bændur
með um 90% mjólkurframleiðsl-
unnar standa að samvinnufélaginu.
2-3 milljarða kr. ábati á ári
Ragnar kemst að þeirri niður-
stöðu að framleiðnivöxtur í mjólk-
uriðnaði á tímabilinu 2000 til 2018
hafi verið 2,2% á ári að jafnaði.
Hann segir að þessi vöxtur yfir jafn
langt tímabil sé mjög mikill miðað
við annan atvinnurekstur á Íslandi
og í nágrannalöndunum. „Það vant-
ar fleiri mælingar á heild-
arþáttaframleiðni hér á landi en
þær sem til eru sýna að jafnaði
tæplega 1% framleiðnivöxt á ári.
Erlendis þykir gott að ná 0,5 til
0,7% framleiðnivexti á ári að með-
altali og sjaldgæft að hlutfallið fari
yfir 1% í lengri tíma,“ segir Ragn-
ar.
Sjálfur hefur hann metið fram-
leiðni í sjávarútvegi á árunum 1974
til 1997. „Þar kom fram mikil fram-
leiðniaukning eftir útfærslu land-
helginnar og síðan upptöku kvóta-
kerfisins. Í fiskveiðum reyndist
framleiðnivöxturinn vera um 3% að
meðaltali á ári á þessu tímabili,“
segir Ragnar.
Framleiðnivöxtur í mjólkur-
vinnslu frá árinu 2000 skilar nú um
tveggja milljarða króna virðisauka
á ári, miðað við verðlag á árinu
2020. Með 4% ávöxtunarkröfu er
núvirði þessa ábata um 50 millj-
arðar króna.
Þessu til viðbótar getur Ragnar
þess í skýrslu sinni að verðið sem
bændur fá greitt fyrir mjólkina hafi
hækkað meira en verð á seldum af-
urðum frá Mjólkursamsölunni.
Þessi hlutfallslega verðhækkun á
mjólk til bænda sé auðvitað ekki
hluti af tekjum mjólkurvinnslunnar
og því ekki talin með í framleiðni-
aukningu hennar. Verðhækkunin á
hrámjólk samsvari á hinn bóginn
um 0,6% árlegri aukningu á fram-
leiðni mjólkurvinnslunnar. „Því er
hægt að segja að framleiðniaukn-
ingin í mjólkurvinnslunni sé í raun
2,8% á ári. Sú aukning nemi hátt í
þremur milljörðum króna á ári og
sá núvirti tekjustraumur sé um 70
milljarðar króna,“ segir Ragnar.
Undanþágan er lykillinn
Framleiðni getur vaxið af mörg-
um ástæðum. „Stærsti orsakavald-
urinn í hinum mikla framleiðnivexti
í mjólkurvinnslunni er að því er
virðist sú heimild til samhæfingar,
verkaskiptingar og sameiningar í
mjólkuriðnaðinum sem veitt var
með undanþágu frá vissum ákvæð-
um samkeppnislaga á árinu 2004,“
segir Ragnar þegar hann er spurð-
ur um ástæður þeirrar óvenjulega
miklu framleiðniaukningar sem orð-
ið hefur í mjólkuriðnaðinum. Hann
nefnir að vinnslustöðvum hafi fækk-
að úr tíu í fimm á þessum tíma.
Verkaskipting hafi aukist sem þýði
að betri nýting hafi fengist á vinnu-
afli og fjármagni og verulega meiri
stærðarhagkvæmni náðst í vinnsl-
unni. Þá telur hann einsýnt að með
sameiningu fyrirtækja hafi náðst
betri tök á stjórnun.
Vekur Ragnar athygli á því að
engin framleiðniaukning hafi orðið
á fyrsta hluta athugunartímabils
hans. Eftir að heimild var veitt til
sameiningar og verkaskiptingar
hafi vöxtur framleiðni tekið mikinn
kipp og verið um 4% að meðaltali á
árunum 2006 til 2018.
„Sá mikli ávinningur sem náðst
hefur í mjólkuriðnaðinum hefur
leitt til mun betri afkomu bænda en
áður var. Framleiðslukostnaður
hefur lækkað og færst nær fram-
leiðslukostnaði í mjólkurvinnslu
annars staðar, til dæmis í Evrópu.
Nokkuð vantar að vísu enn upp á að
bilið hafi verið brúað en það hefur
þrengst,“ segir Ragnar.
En hverjir hafa notið aukinnar
framleiðni? Ragnar segir að með
verðhækkunum á hrámjólk umfram
verðlagsþróun hafi vinnslan skilað
bændum allt að 1,3 milljörðum í
auknar tekjur á ári. Þessi ávinn-
ingur bænda hafi hins vegar verið
ríflega tekinn til baka með lækk-
uðum beingreiðslum frá hinu opin-
bera. Frá því að beingreiðslur til
bænda náðu hámarki, á árinu 2004,
hafi þær lækkað um nærri tvo millj-
arða á ári, reiknað á föstu verðlagi
ársins 2020. Bændur hafi mætt
þessum tekjumissi með aukinni
hagræðingu og þar með framleiðni í
mjólkurbúskap. Þessi sparnaður
hins opinbera vegna lægri bein-
greiðslna til kúabænda segir Ragn-
ar að hafi væntanlega skilað sér til
neytenda í samsvarandi lægri skött-
um eða aukinni opinberri þjónustu.
Ragnar segir að verð á söluvör-
um mjólkuriðnaðarins hafi þróast í
takti við almennt verðlag. Hins veg-
ar hafi vöruúrval mjólkurafurða
aukist mjög og það megi meta til
ábata fyrir neytendur.
Hluti hinnar auknu framleiðni
hefur að sögn Ragnars staðið undir
þeim miklu raunlaunahækkunum
sem orðið hafa í þessum iðnaði, eins
og öðrum atvinnugreinum lands-
manna, frá árinu 2000.
Hins vegar virðist ljóst að lítill
hluti hinnar auknu framleiðni hafi
orðið eftir hjá Mjólkursamsölunni.
Þar eru ekki digrir sjóðir. Það sem
í hlut fyrirtækisins hefur komið hef-
ur að sögn Ragnars farið í fjárfest-
ingar í vélum og búnaði og til
hækkunar á afurðaverði til bænda.
Aukin framleiðni skilar milljörðum
Vöxtur framleiðni í mjólkurvinnslu er tvöfalt meiri en algengt er Sérstök heimild til hagræðingar hefur
skilað tveggja til þriggja milljarða ávinningi á ári Afraksturinn runnið til bænda, neytenda og starfsfólks
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. FEBRÚAR 2021
Ragnar Árnason segir mik-
ilvægt að við mat hans á fram-
leiðni mjólkurvinnslu sé miðað
við heildarþáttaframleiðni.
Þannig sé metinn aukinn virð-
isauki af bæði vinnuafli og fjár-
magni en ekki aðeins öðrum
þættinum. Heildarþáttafram-
leiðni sé hin fræðilega rétta að-
ferð því einsþáttarframleiðni
geti hæglega gefið ranga mynd
af þróun framleiðninnar.
En hvað er framleiðni? Ragn-
ar svarar því til að öll fram-
leiðsla stefni að því að skapa
virðisauka, að fá sem mest út úr
því sem unnið er með. Fram-
leiðni sé mælikvarði á það
hversu mikinn virðisauka vinnu-
aflið og fjármagnið skapi.
Summan af öllum virðisauka
sem skapaður er í landinu
myndi í aðalatriðum lands-
framleiðsluna.
Framleiðniaukning er aukinn
virðisauki úr sama magni fram-
leiðsluþátta. Það er stærðin
sem Ragnar leitast við að finna í
skýrslu sinni um mjólkuriðn-
aðinn.
Framleiðslan
skili sem mestu
FRAMLEIÐNI
Ragnar
Árnason
Framleiðni í mjólkurvinnslu
Framleiðnivísitala (heildarþáttaframleiðni) 2000-2018
25
20
15
10
5
0
1,5
1,4
1,3
1,2
1,1
1,0
0,9
Framleiðsla á hvert mjólkursamlag (milljónir lítra)
Fjöldi mjólkurstöðva
1970 1975 1980 1985 1990 1995 2000 2010 2015 2018
2000 2002 2004 2006 2008 2010 2012 2014 2016 2018
5,8 6,6 6,3 6,8 6,7
7,3
10,4
17,6
24,3
26,2
6610
19
1,0
1,05
0,93
1,48
1,29
1,33
17 16
Heimild: Skýrsla um framleiðni
í íslenskri mjólkurvinnslu
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Ostapakkning Starfsmenn Mjólkursamsölunnar á Bitruhálsi undirbúa niðurskurð og pakkningu osta. Vöruúrval
hefur aukist mjög á undanförnum árum. Þannig hefur söluvörum MS fjölgað úr 70 í 120 frá árinu 2000.
Ragnar Árnason telur að hægt sé að lækka verulega fram-
leiðslukostnað í slátrun og kjötvinnslu hér á landi með því
að veita kjötiðnaðinum hliðstæða undanþágu frá ákvæðum
samkeppnislaga og mjólkuriðnaðurinn hefur notið frá árinu
2004 og hefur skilað þeim mikla ávinningi sem raun ber
vitni.
Kjötiðnaðurinn hér á landi á í miklum erfiðleikum, ekki
síst vegna aukins innflutnings á kjöti. Tillögur hafa komið
fram um að veita kjötvinnslunni hliðstæða undanþágu frá
ákvæðum samkeppnislaga og mjólkurvinnslan hefur, til
þess að hún geti lækkað vinnslukostnað með samvinnu og
verkaskiptingu eða sameiningu afurðastöðva. Samkeppnis-
eftirlitið leggst eindregið gegn því.
Myndi bæta samkeppnishæfni
„Ég tel andstöðu Samkeppniseftirlitsins vanhugsaða. Með
því að fá heimild til sameiningar og verkaskiptingar er
hægt að lækka framleiðslukostnað í kjötvinnslu mjög mikið.
Ástæða er til að ætla að ef þessi heimild fæst yrði svipuð
framleiðniaukning í kjötiðnaði og hefur orðið í mjólkuriðn-
aði. Kjötiðnaðurinn gæti þá færst á braut aukinnar hagræð-
ingar og yrði miklu samkeppnishæfari í framtíðinni,“ segir
Ragnar.
Hann getur þess til viðbótar að miklu víðtækari heimildir
til samvinnu, sameiningar og verkaskiptingar eða samein-
ingar í greinum landbúnaðar séu nú þegar til staðar í
í Evrópusambandinu og hafi verið frá stofnun þess. „Það
skýtur skökku við að Samkeppniseftirlitið skuli berjast fyr-
ir því að samkeppnisstaða kjötvinnslu á Íslandi sé miklu
lakari hvað þetta snertir en sambærileg fyrirtæki njóta í
Evrópu,“ segir Ragnar og bætir við: „Væntanlega er það
hlutverk Samkeppniseftirlitsins að jafna samkeppnisstöðu
mismunandi aðila á markaðnum en ekki stuðla að því að
hún sé ójöfn.“
Hægt að lækka framleiðslukostnað á kjöti
Morgunblaðið/Eggert
Kjötvinnsla Erfiðleikar eru í rekstri margra afurðastöðva í
kjötiðnaði vegna sölusamdráttar og birgðasöfnunar.