Morgunblaðið - 22.07.2021, Síða 32

Morgunblaðið - 22.07.2021, Síða 32
32 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. JÚLÍ 2021 Samkvæmt 1. gr. nú- gildandi laga um Rík- isútvarpið, fjölmiðil í al- mannaþágu, skal stofnunin m.a. leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menn- ingararfleifð. Í mínum huga og líklega í huga margra annarra er eng- in regla útvarpslaganna mikilvægari en þessi og hana má rekja efnislega óbreytta, a.m.k. aftur til 3. gr. útvarpslaganna frá 1971. Er ekki að efa að þetta sjónarmið var einnig ofarlega í huga þeirra sem beittu sér fyrir stofnun útvarpsins í upphafi. Fátt var mönnum þá mik- ilvægara en að halda við tungu og menningararfleifð þjóðarinnar og gætti þessa lengst af í starfi stofn- unarinnar sem lagði metnað sinn í að vanda málfar og efni. Þannig var hver dagur í útvarpinu „Dagur ís- lenskrar tungu“ eins og góður maður hefur komist að orði. Þeir sem muna þessa daga eða hlusta á gamalt út- varpsefni endurflutt skynja að málfar í Ríkisútvarpinu hefur breyst á undanförnum áratugum. Við öðru er ekki að búast enda munu það vera ör- lög tungumála að breytast með tím- anum þótt það gerist mishratt. Ís- lensk tunga hefur varðveist furðulega lítið breytt frá því hún varð fullmótað ritmál á 12. öld og lengst af hefur það verið metnaðarmál flestra að halda tungunni sem minnst breyttri. Menn hafa líka þóst skilja að tungan og óslitinn bókmenntaarfurinn gera landsmenn að þjóð, þjóð sem að sumu öðru leyti er tilfinnanlega arflaus. Nú er sótt að íslensku úr mörgum áttum eins og kunnugt er. Kemur þar margt til, þó einkum það að börn fá ófullnægjandi máluppeldi, bæði á heimilum og í leikskólum. Hellt er yf- ir þau firnum af fjölmiðlunar- og tölvuefni þar sem enskan ríkir nærri einráð. Þessi aðsókn er í sjálfu sér markmiðslaus og ekki öðru um að kenna en vanrækslu þeirra sem ábyrgð eiga að bera á máluppeldi barnanna. Á síðustu árum hefur hins vegar risið upp hreyfing sem hefur það beinlínis að markmiði að breyta íslenskri tungu „með handafli“ og munu hugsjónaástæður búa þar að baki. Fylg- ismenn þessarar hand- stýringarstefnu halda því fram að íslenska sé „karllægt“ tungumál og komi það m.a. fram í kynjakerfi málsins enda sé karlkynið „ráðandi“ kyn í henni. Því er reynt að fá fólk til þess að temja sér það sem nefnt hefur verið „kynhlut- laust“ málfar eða „mál- far beggja/allra kynja“ og felst í því að hvorugkyn er látið vera almennt, hlutlaust kyn. Þetta á þó einungis við um fleirtöluna þar eð hreyfingin virðist eftirláta þeim sem álíta sig vera hvorugkyns (en þeir munu einhverjir vera) að nota eintölu þess kyns um „sjálf sig“. Á það hefur margsinnis verið bent, sem ætti reyndar að vera óþarfi, að hugsjón þessarar hreyfingar er byggð á mis- skilningi og rekst hún á hefðbundna málnotkun og þar með máltilfinningu almennings. Að baki henni liggur sú hugmynd að málfræðikyn og lífkyn séu nánast eitt og hið sama en það er alrangt og er um leið fallin um sjálfa sig jafnréttishugsunin sem hreyf- ingin byggir á. Allir sem hafa óbrenglað málskyn vita að dauðir hlutir eins t.d. hamar (kk.) og sleggja (kvk.) hafa ekki sérstaka kyneig- inleika. Þá vita þeir að sum orð um lifandi kynverur hafa málfræðikyn sem stangast á við náttúrulegt kyn þeirra eins og t.d. fljóð, svanni, fress, kapall og svarkur. Einnig eiga sum hvorugkynsorð við lifandi verur af báðum kynjum eins og t.d. grey, man og tryppi og jafnvel eru til orð um lík- amshluta sem einkenna gagnstætt lífkyn. Loks má rifja það upp að karl- mannsnöfn eins og Sturla, Órækja og Skúta beygjast eins og algeng kven- kynsorð. Vert er að hafa í huga í sam- bandi við þennan fjölbreytileika og stöðu karlkynsins sem almenns og hlutlauss kyns í íslensku að í indóevr- ópsku móðurtungunni (formóður germanskra, rómanskra, slavneskra og fleiri mála) munu upphaflega hafa verið tvö málfræðikyn, annars vegar „kyn“ orða um það sem lifandi er en hins vegar „kyn“ dauðra hluta og hugtaka. Þriðja kynið, kvenkynið, mun hafa komið síðar til sögunnar og þá þegið orð úr báðum deildunum sem fyrir voru. Veit ég ekki til þess að hvarflað hafi að nokkrum manni, fyrr en nú á allra síðustu tímum, að jafn- eða misrétti kynja og skapnaður fólks hafi nokkuð haft með þá nýjung að gera. Beygingarkerfi íslenskra fallorða og sagnorða er flókið miðað við það sem gerist í mörgum öðrum tungu- málum. Málið gerir því strangar kröf- ur um samræmi með tölu og falli nafnorða, lýsingarorða og fornafna sem standa saman í setningum og um sagnmyndirnar sem eru hornsteinar setninganna. Einhver kynni að spyrja: Af hverju ættum við að burðast með svo flókið kerfi? Er ekki oftast „útlátalaust að tala mál beggja kynja?“ eins og pistlahöfundur einn úr Árnastofnun hélt fram hér í blaðinu á dögunum (vonandi þó í hálf- kæringi). Svarið hlýtur að vera nei. Útlátin eru einmitt þau að þetta mál- far gerir tunguna að ónákvæmara tjáningartæki og veiklar jafnframt innri stýringu eða samræmi í henni. Tilbúið dæmi um hið síðartalda eru setningar eins og þessar: „Krakk- arnir eiga frí í skólanum. Þau fóru út að leika sér.“ Af sama meiði er orða- lag eins og: „Komið þið sæl og bless- uð, hlustendur góðir“, sem heyra má í upphafi útvarpsþátta. Önnur veiklun, sem aðeins hefur orðið vart við og kann að stafa af þessu málfari, er ósamræmi milli málfræðitölu og sanntölu eins og í orðasambandinu „21 menn“. Þá hefur einnig mátt heyra í fréttum og umræðuþáttum rask eins og það að nota hvorugkyn fleirtölu þar sem hefð er fyrir að hafa karlkyn fleirtölu í hlutlausri merk- ingu, t.d. „fjögur særðust, slösuðust, voru handtekin“ í stað „fjórir særð- ust, slösuðust, voru handteknir“, þeg- ar aðeins tala, en ekki kyn, skiptir máli eða þegar ekkert er áður komið fram um kyn þeirra sem sagt er frá. Viðleitni sumra til að breyta málfari sínu á þá leið að nota hvorugkyn fleir- tölu í stað karlkyns fleirtölu í hlut- lausri merkingu leiðir stundum til kostulegra mistaka eins og þessara sem heyra mátti fyrir skömmu í sjón- varpsfréttum Ríkisútvarpsins: „Spennan var hreint æsileg fyrir lokaumferð b-riðils á Evrópumóti karlalandsliða í fótbolta í kvöld: Rússar, Finnar og Danir gátu öll endað með jafnmörg stig …“ Loks má minnast á þá baráttu sem sama hreyfing heyr gegn orðinu maður í merkingunni „manneskja“ en einnig í hlutverki þess sem óákveðins for- nafns. Þar sem orðið merkir oft „karlmaður“ þykir varhugavert að nota það jafnt um karla sem konur, þ.e. um mannfólk án kyngreiningar. Hefur þó verið bent á ýmis vandamál sem skapast ef hróflað verður við notkun þess, einkum í lögum og op- inberum textum (sjá greinina „Mað- ur í ógöngum“ í Morgunblaðinu 4.7.2021). Enginn getur séð fyrir til hvers þetta glórulausa fikt við mál- kerfið leiðir. Kannski hrynur beyg- ingakerfi tungunnar á tiltölulega stuttum tíma. Hver veit? Annað eins mun hafa gerst í skyldum málum. Málstýringarhreyfingin áðurnefnd hefur komist til áhrifa í Ríkisútvarp- inu eins og núorðið má heyra í út- sendingum útvarps og sjónvarps og lesa á heimasíðu þess. Mörgum hlust- endum, bæði málfræðingum og leik- um mönnum, hefur blöskrað þessi „nýlenska“ í útvarpi allra lands- manna og hafa kvartað yfir henni við starfsmenn og málfarsráðunaut. Þær umkvartanir hafa yfirleitt verið huns- aðar, að mér hefur heyrst. Rík- isútvarpið setti sér málstefnu 1985. Þar sagði í upphafi: „Allt málfar í Ríkisútvarpinu á að vera til fyrir- myndar, og allt sem frá stofnuninni kemur, á vandaðri íslensku, flutt með góðum framburði.“ Nánar er slíkt málfar þar skilgreint svo: „Vandað mál er markvisst og felst í góðu orða- vali, réttum beygingum, eðlilegri orð- skipan, skýrri hljóðmótun, réttum áherslum og eðlilegu hljómfalli sam- fellds máls.“ Augljóslega er hér um að ræða málverndarstefnu sem byggð er á eðlilegum skilningi á 15. gr. þágildandi útvarpslaga nr. 68 frá 1985 sem, eins og fyrr sagði, er efn- islega óbreytt í núgildandi lögum um Ríkisútvarpið. Nú hefur stofnuninni verið sett ný málstefna, reyndar ódagsett en líklega hefur það verið árið 2019. Í henni segir að hjá stofn- uninni starfi „málfarsráðunautur“ og „málfarsráðgjafar“ sem „[upplýsi] starfsfólk um málstefnu RÚV og [fylgi] henni eftir. Á grundvelli mál- stefnunnar [setji] þeir fram viðmið sem starfsfólk RÚV [fari] eftir um málsnið, orðaval, málnotkun og fram- setningu á töluðu og rituðu máli.“ Ætla verður að núverandi málfars- ráðunautur stofnunarinnar hafi sam- ið málstefnuna, a.m.k. er hann þar sagður bera ábyrgð á henni. Í inn- gangi hennar segir svo um Ríkis- útvarpið: „Það hefur ríkar skyldur við íslenskt mál og því ber, sam- kvæmt lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013, að leggja rækt við íslenska tungu.“ Þá segir í skjalinu að stofn- unin hafi „fyrst og fremst málrækt að leiðarljósi í málstefnu sinni en mál- pólitík [sé] þó samofin henni.“ Þá sé fylgt þessari skilgreiningu á mál- rækt: „Undir málrækt fellur öll með- vituð og skipuleg viðleitni til að laga tungumál að nýjum aðstæðum með því að mynda ný orð af innlendum stofni eða laga erlend orð að beyg- ingum og hljóðkerfi þess. Málrækt getur líka náð til annarra tilrauna til þess að gera málið hæfara til að þjóna hlutverki sínu í samfélaginu.“ Þá seg- ir enn fremur: „Þessi skilgreining er ekki að öllu leyti í samræmi við fyrri skoðanir á því hvað málrækt felur í sér,“ þ.e.a.s „allt það sem kallað hefði verið málhreinsun, málvernd og mál- vöndun.“ Loks er þess að geta að í 1. gr. málstefnunnar er vísað til samn- ings mennta- og menningarmála- ráðherra og Ríkisútvarpsins um fjöl- miðlaþjónustu í almannaþágu 2016-2019. Í þessum samningi segir svo m.a.: Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu. Kappkostað skal að málfar í Ríkisútvarpinu sé til fyrirmyndar og allt innlent efni sem miðlað er sé á vandaðri íslensku.“ Hér má heyra greinilegan enduróm af orðalagi málstefnunnar frá 1985. Útvarpsstjóri hefur með skír- skotun til upplýsingalaga verið spurður um ýmis atriði varðandi mál- far í útvarpinu, þ. á m. um það hvort starfsmenn stofnunarinnar hafi feng- ið leiðbeiningar eða fyrirmæli frá málfarsráðunaut eða málfars- ráðgjöfum um almennt, hlutlaust málfræðikyn í íslensku eða um grunnreglu íslenskrar setningafræði um samræmi í tölu og kyni og hvort útvarpið hafi mótað sér stefnu í því efni. Svör hans við þeim atriðum eru þessi: „Engin bein eða óbein, skrifleg eða munnleg fyrirmæli hafa verið gefin út um að nota skuli eitt tiltekið málfræðilegt kyn til að gefa til kynna kynhlutleysi. Starfsfólki er oft bent á mikilvægi þess að gæta samræmis í kyni, tölu og falli við beygingu fall- orða og persónu, tölu, hætti og tíð við beygingu sagnorða og í margvíslegu samhengi.“ Enn fremur segir hann: „Ríkisútvarpið hefur hvorki mótað stefnu né gefið fyrirmæli um að halda skuli í málvenju um að nota karlkyn í umfjöllun þar sem tilefni getur verið til að nota hvorugkyn eða jafnvel kvenkyn í staðinn né heldur um að nota hvorugkyn eða kvenkyn í stað karlkyns.“ Ekki þarf frekar vitnanna við. Við blasir að formlegri málstefnu út- varpsins hefur verið breytt að und- irlagi hugsjónahreyfingar. Horfið hefur verið frá varðveislu- og mál- verndarstefnunni frá 1985 en í henn- ar stað tekin upp málbreyting- arstefna eins og reyndar segir berum orðum í hinni nýju málstefnu. Ekki verður séð að sú stefna samrýmist lögunum um Ríkisútvarpið heldur virðist hún beinlínis fara gegn því ákvæði 1. gr. þeirra „að leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð“. Er heldur ekki annað að sjá en að hún brjóti gegn þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðherra við stofnunina. Þá hefur verið gerð grein fyrir því hvernig hreyfingin hefur leitast við að breyta málfari í útvarpinu á síðustu árum í það sem kallað hefur verið „kynhlutlaust“ málfar eða „málfar beggja/allra kynja“ og loks því hvernig sú viðleitni er fallin til þess að valda usla og skaða á íslenskri tungu. Öruggar heimildir eru fyrir því, andstætt því sem segir í svörum útvarpsstjóra, að málfarsráðunautur útvarpsins, sem virðist fara fyrir hreyfingunni þar á bæ, hefur um árabil lagt að starfs- fólki þess að viðhafa þetta tilbúna málfar þegar það talar í útvarpi eða sjónvarpi. Svör útvarpsstjóra stað- festa það jafnframt að stofnunin hef- ur stórlega vanrækt lögboðna skyldu að leggja rækt við íslenska tungu þótt ætla megi af svörunum að því valdi hirðuleysi en ekki ásetningur. Loks er ekki annað að sjá en að út- varpsstjóri hafi fengið rangar upplýs- ingar um þessi atriði þegar hann svaraði fyrirspurninni. Er nokkur furða þótt margur spyrji sig og aðra: Hvernig geta þessi firn hafa fengið að viðgangast? Nýlenska Ríkisútvarpsins Eftir Pétur Guðgeirsson »Við blasir að formlegri málstefnu útvarpsins hef- ur verið breytt að undirlagi hugsjónahreyfingar. Horfið hefur verið frá varðveislu- og málverndar- stefnunni frá 1985 en í hennar stað tekin upp mál- breytingarstefna eins og reyndar segir berum orð- um í hinni nýju málstefnu. Ekki verður séð að sú stefna samrýmist lögunum um Ríkisútvarpið heldur virðist hún beinlínis fara gegn því ákvæði 1. gr. þeirra „að leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð“.Pétur Guðgeirsson Höfundur er fyrrverandi héraðsdómari. petrus@visir.is

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.