Þjóðmál - 01.09.2017, Page 44
42 ÞJÓÐMÁL Hausthefti 2017
Síðar í þessum mánuði fara fram kosningar til
alþingis. Þó svo að aðdragandi kosninganna
sé að mörgu leyti, eða réttar sagt að nær
öllu leyti, undarlegur er ekki þar með sagt
að kosningarnar sjálfar séu það. Öllum mátti
vera ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir þrír störfuðu
saman í ástlausu hjónabandi; það var e.t.v.
aðeins tímaspursmál hvenær annar litlu
flokkanna guggnaði á því að sýna festu og
ábyrgð í því samstarfi. Það væri þó að bera í
bakkafullan lækinn að rekja ríkisstjórnarsam-
starfið eða aðdragandann að stjórnarslitunum
hér. Þess í stað verður horft til framtíðar.
Í byrjun þessa mánaðar eru liðin níu ár frá hinu
svokallaða hruni. Það er ekki langur tími en sá
árangur sem við höfum náð sem þjóð er að
mörgu leyti ótrúlegur, í það minnsta efna-
hagslega. Enn situr eftir reiði og vantraust og
það mun taka lengri tíma fyrir þau sár að gróa
– sérstaklega í ljósi þess að til eru aðilar sem
gera út á það að viðhalda reiði og vantrausti.
Við búum við mikla hagsæld hér á landi.
Efnahagslegar aðstæður eru að flestu leyti
hagfelldar; hagvöxtur var í fyrra 7,2% (sá
mesti í áratug) og er um 6% á þessu ári.
Atvinnuleysi er lítið sem ekkert, kaupmáttur
hefur aukist (um 5,3% sl. 12 mánuði), við
skorum hátt í lífshamingjuvísitölum og
þannig mætti áfram telja.
Þó eru blikur á lofti. Fram undan eru erfiðar
kjarasamningalotur og óvíst er hvaða
afleiðingar þær hafa. Miklar launa-
hækkanir síðustu ára eru farnar að þrengja
að fyrirtækjum og við bætast háir raun-
vextir og styrking krónunnar (þó að hún hafi
gefið lítillega eftir upp á síðkastið). Óvissan í
stjórnmálunum er ekki til þess fallin að valda
hugarró og það sést t.a.m. á mörkuðum
síðustu daga og vikur. Full ástæða er því til að
hafa augun opin.
Gísli Freyr Valdórsson
Kæfandi faðmur ríkisins
Stjórnmál