Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.2007, Blaðsíða 7
í kapphlaupi við tímann
Tíminn líður hratt. Tuttugasta og fyrsta öldin hefur nú þegar lagt barnahosunum
og eignast fyrstu skóna. Þegar ég lít til baka finnst mér eins og sú tuttugasta hafí
kvatt okkur í gær.
Þegar ég flutti til Austurlands fyrir rúmum 40 árum var eins og ég kæmi í
aðra veröld, það var svo mikil ró yfir samfélaginu. A fyrstu árum mínum hér
eystra voru harðir vetur og oft dögum saman ófært út í sveitir og um þorpið.
Vinnufélagar mínir í Mjólkurstöðinni á Egilsstöðum létu alveg vera að æsa sig
þó seint gengi að flytja mjólkina til og frá vinnustaðnum. Þeir helltu bara upp á
meira kaffi og biðu þess með stóískri ró að mjólkurbíll með brúsa á palli skilaði
sér á staðinn. Mér datt á stundum í hug dátinn dauðadæmdi í ævintýrinu
Eldfærin eftir H.C. Andersen, sem bað fólk um að flýta sér hægt því ekkert yrði
gert fyrr en hann kæmi.
Á þessum árurn var endurvarpsstöð sjónvarpsins á Gagnheiði ekki risin,
maður var manns ganian, það var spiluð félagsvist og farið reglulega í
heimsóknir til vina og ættingja.
Ég sakna þessa tíma í erli nútímans. Við Austfirðingar, a.m.k. þeir sem á
stærstu stöðunum búa, fylgjum straumnum og erum á stöðugum þeytingi í
kapphlaupi um veraldleg gæði. Nýlega barst sú frétt á öldum ljósvakans að við
íslendingar trónuðum á toppi á lista Sameinuðu þjóðanna, þegar svokölluð
lífsgæði eru metin. Víst er, að flest höfum við það gott og njótum góðrar
samfélagslegar þjónustu, en ég spyr mig á stundum: Er þetta hraða líf, sem við
lifuin, lífsgæði í raun?
Þegar litið er til byggðaþróunnar á Austurlandi síðustu 100 árin hefur margt
breyst, bændabýli á afskelcktum stöðum heyra sögunni til. Sömu örlög biðu
nokkurra lítilla byggðakjama sem byggðust upp í kringum sjósókn, þar em nú
rústir einar. Enn harðnar á dalnum, atvinnuhættir taka breytingum, fólkið
flykkist þangað sem fjölmennið er. Ég óttast því á stundum að fámennustu
byggðakjarnarnir verði sagan ein þegar líða fer á öldina. Viljum við það?
AÞ
5