Saga - 2019, Blaðsíða 63
Þrátt fyrir gagnrýni Kants og fleiri óx ríkisvísindum fiskur um
hrygg í upphafi nítjándu aldar. Sagnfræðingurinn David Lindenfeld
hefur bent á að aðsókn í háskólanám í ríkisvísindum náði hámarki
í Þýskalandi á fjórða og fimmta áratug aldarinnar, á sama tíma og
Jón Sigurðsson var við nám í Kaupmannahöfn. Ríkisvísindamenn
eins og Robert von Mohl og Karl Rau svöruðu frjálslyndri gagnrýni
Kants að hluta til og töluðu jöfnum höndum fyrir virðingu fyrir ein-
staklingsbundnu frelsi og öflugu ríkisvaldi. Þeir gerðu skýran grein-
armun á ríkisvaldinu og samfélaginu og lögðu megináherslu á hið
síðara. En þeir viðhéldu áherslu ríkisvísindanna á farsældarhyggju
og velferðartilgang ríkisins. Þeir litu svo á að ríkisvísindin væru bet-
ur til þess fallin að stýra iðnvæðingu samfélagsins í farsælan farveg
en sósíalismi og „borgaraleg“ vísindi á borð við breska stjórnmála-
hagfræði.32 Þeir undirstrikuðu nú að ríkisvaldinu bæri að tryggja
velgengni einstaklinga og ryðja úr vegi hindrunum fyrir því að þeir
gætu nýtt sér fullt frelsi til allra gagnlegra verkefna.33 Í því fólust
umfangsmikil ríkisafskipti. Allt sem einstaklingar eða hópar voru
ekki færir um að framkvæma sjálfir, eða sinntu ekki sem skyldi, var
mögulega tilefni til ríkisafskipta. Í þessu fólust neikvæðar skyldur
eins og að draga úr áhættu vegna náttúruhamfara og smitsjúkdóma
en líka jákvætt hlutverk á sviði menntunar, siðferðis, lýðheilsu og
atvinnulífs. Von Mohl skipti verksviði ríkisvaldsins í þrennt: verk -
efni sem lutu að efnislegri velferð þjóðarinnar (fólksfjöldastjórnun,
sjúkdómavarnir, fátækraframfærsla), andlega velferð (menntun, trú-
mál og menning) og auðlegð (atvinnumál, viðskipti, samgöngur).34
farsældarríki jóns sigurðssonar 61
1003–1023; Lindenfeld, The Practical Imagination, bls. 46; Loughlin, The Founda -
tions of Public Law, bls. 430.
32 Diana Siclovan, Lorenz Stein and German Socialism, 1835–1872 (doktorsritgerð
við University of Cambridge, 2014), bls. 30–55. Hinn ungi Karl Marx íhugaði
að leggja stund á nám í ríkisvísindum á fjórða áratug nítjándu aldar en ákvað
frekar að einbeita sér að hinni sönnu köllun sinni á þessum tíma, ljóðlist. Sjá:
Stedman Jones, Karl Marx, bls. 43–45.
33 Tribe, Governing Economy, bls. 146–148; Lindenfeld, The Practical Imagination,
bls. 111; Loughlin, The Foundations of Public Law, bls. 431–432. Sjá einnig Douglas
Moggach, „Post-Kantian perfectionism“, Politics, religion and art: Divisions and
debate in the Hegelian school. Ritstj. Douglas Moggach (Chicago: Northwestern
University Press 2011), bls. 179–200.
34 Lindenfeld, The Practical Imagination, bls. 125–128. Sjá einnig Wolfgang Ker -
sting, „Politics“, Cambridge History of Eighteenth-Century Philosophy II. Ritstj.
Knud Haakonsen (New york and Cambridge: Cambridge University Press
2006), bls. 1026–1068.