Saga - 2019, Blaðsíða 128
leg og sýnileg túlkun á stað.36 Sem hluti af menningarlandslagi eru
hús opin fyrir flókinni félagslegri og persónulegri merkingu. Þannig
á byggt umhverfi þátt í að skapa upplifun og tengsl við fortíðina.37
Staðsetning er mikilvægur hluti af þeirri marglaga merkingu sem
fólk leggur í hús. Við flutning eða röskun á staðsetningu riðlast þessi
merking og mikilvægi hússins breytist fyrir nærsamfélagið.38
Tengsl fólks við byggt umhverfi sem vísar til fortíðar og upplifun
þess af því umhverfi er flóknara fyrirbæri en svo að það litist alfarið
af einfaldaðri tvíhyggju: að eitthvað sé gamalt eða nýtt, menningar-
arfur eða samtími. Menningararfi hefur verið lýst á þann hátt að
hann verði til „vegna þess að hann er sviðsettur“ og sé því „gjörn-
ingur umfram efni“.39 Þar með hljóta viðtökur að skipta máli þar
sem varla er hægt að segja að sviðsetning takist vel nema hún hafi
merkingu og inntak fyrir áhorfendur. Þegar kemur að menningar -
arfi í byggðu umhverfi hefur sanngildi eða upprunaleiki haft mikið
vægi. Umræðan um upprunaleika og menningararf komst á dag -
skrá alþjóðasamfélagsins í kjölfar loka síðari heimsstyrjaldarinnar,
þeirrar eyðileggingar sem blasti við og þeirrar uppbyggingar sem
beið margra ríkja.40 Krafa um upprunaleika hefur verið samofin
stofnanavæðingu menningararfsins og forsenda varðveislu.41 Regina
Bendix hefur lýst leitinni að sanngildi (e. authenticity) sem tilfinn-
ingalegum og siðferðislegum leiðangri og haldið fram að það hafi
ákveðin áhrif að fyrirbæri sé álitið búa yfir sanngildi. Fyrir vikið sé
það talið áhugaverðara og jafnvel áhrifameira.42
vilhelmína jónsdóttir126
36 Ólafur Rastrick, „Movable Topographies“, bls. 152.
37 Macdonald, Memorylands, bls. 79.
38 Ólafur Rastrick, „Movable Topographies“, bls. 153.
39 Bryndís Björgvinsdóttir, „„Þetta er fyrir tvöhundruð árum!“. Um sviðsetningu
menningararfs“, Menningararfur á Íslandi: Gagnrýni og greining. Ritstj. Ólafur
Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2015), bls. 143–
162, sjá bls. 148–149.
40 Smith, Uses of Heritage, bls. 27–28.
41 Hér má nefna samning Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna
(UNESCO) um verndun menningar- og náttúruarfleifðar frá árinu 1972 og for-
vera hans, Feneyjayfirlýsinguna svokölluðu frá árinu 1964. Má í þessu sam -
bandi einnig benda á SAVE-viðmiðin sem notuð hafa verið til að meta varð -
veislugildi húsa. Þar skiptir upprunaleiki máli ásamt öðrum þáttum. Sjá: Pétur
H. Ármannsson, „Eru öll gömul hús merkileg?“, Saga XLV:2 (2007), bls. 137–139.
42 Regina Bendix, In Search for Authenticity — the Formation of Folklore Studies
(Madison, Wisconsin: The University of Wisconsin Press 1997), bls. 7. Um