Saga - 2019, Blaðsíða 76
greina því að þar væru fyrir ákveðnar stofnanir, þar á meðal stift-
amtmaður, biskup, landsyfirréttur, sýslumaður, bæjarfógeti, dóm-
kirkjuprestur og landlæknir auk íslenskra kaupmanna og verka-
manna. Ef til Reykjavíkur kæmi einnig Alþingi ásamt menntastofn-
unum, prentverki og loks innlendu landstjórnarráði væri kominn
„góður stofn saman“ að öflugu ríkisvaldi.81
Að dómi Jóns var Reykjavík einnig augljós þingstaður vegna
mikilvægis haldgóðrar þekkingar við landstjórnun. Ætlast væri til
annars af Alþingi nú en í fornöld þar sem þjóðmál nútímans væru
mun flóknari en áður. Því væri nauðsynlegt að hafa greiðan aðgang
að bókasöfnum og skjalasöfnum en þau væru einkum í Reykjavík.
Öll umræða um helstu mál væri háð vitneskju um „í hverju sam-
bandi hvert þeirra stæði við hag landsins yfirhöfuð, og reynslu ann-
arra þjóða og sjálfra vor“. Fáir vissu þó „hvaða lög eru á Íslandi, hve
mikið flutt er til eða frá landinu, hve mikið geldst af landinu og
hverjum hluta þess og til hvers því er varið, hvað skólinn kostar á
ári, enn síður hvað hann hefir kostað, hvað spítalar eiga og hvernig
hagur þeirra sé, hversu fólksfjölgun og manndauða sé varið á land-
inu o.s.frv.“ Vegna þess þyrftu fulltrúarnir að geta sjálfir rannsakað
málin en í Reykjavík var greiður aðgangur að öllum þeim skýrslum
og bókum sem fáanlegar voru um landstjórn, atvinnuvegi, skatta og
tolla, og verslun.82
Hið „vakandi auga“ ríkisins
Jón skipaði sér í hóp framfarasinnaðra menntamanna sem höfðu það
að markmiði að vekja Íslendinga af aldalangri deyfð og framtaksleysi
og glæða þjóðlíf og þjóðaranda þeirra. En ólíkt mörgum fyrirrennur-
um sínum vísaði Jón til ríkisvísinda til að færa rök fyrir innlendu
fulltrúaþingi og innlendu framkvæmdarvaldi í Reykjavík því að
hann leit svo á að öflugt ríkisvald ætti að knýja áfram efnahags- og
samfélagsþróun á Íslandi. Þrír þættir — að landstjórnin væri „kröft ug,
concentreruð og í landinu sjálfu“ — urðu eins konar einkunnarorð
Jóns og fylgismanna hans í aðdraganda þjóðfundar 1851.83 Ekki
sveinn máni jóhannesson74
81 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi“, Ný félagsrit 1 (1841), bls. 127–128.
82 Sama heimild, bls 126–128; Jón Sigurðsson, „Um alþíng“, Ný félagsrit 2 (1842),
bls. 9–10.
83 Sjá t.d. ÞÍ. Einkaskjalasöfn. E.10.11. Bréfasafn Jóns Sigurðssonar. Páll Þ. Melsteð
til Jóns Sigurðssonar 31. júlí 1848.