Saga - 2019, Blaðsíða 228
trúarkveðskap í handritum sem tengjast séra Jóni Arasyni í Vatnsfirði og
börnum hans á síðari hluta sautjándu aldar, reyndar ekki út frá þeim for-
sendum sem dregnar eru upp í formála heldur því sem hún nefnir menn-
ingarfærni („cultural competence“) og varðar það hvernig auðug og ættstór
fjölskylda hampaði sjálfri sér í eigin augum og annarra með því að taka
saman fjölda handrita. Líkt og í öðrum greinum er gerð skilmerkileg grein
fyrir þessu fólki og farið í saumana á völdum handritum. Ekki eru tengsl
þeirra við prentaðar bækur þó gerð að umtalsefni og tilþrifamikil byrjun er
ósannfærandi. Þórunn gefur sér að kjaftasaga séra Jóns Halldórssonar í
Hítardal í byrjun átjándu aldar um kvonfang séra Gísla Einarssonar í Vatns -
firði sé sönn og sýni viðhorf fólks rúmri öld fyrr. Þórný Narfadóttir, kona
Gísla, var hins vegar af sýslumönnum komin og síst ófínni kvenkostur en
Þórunn Jónsdóttir, sýslumanns Vigfússonar, sem átti Sigurð Oddsson bróður -
son Gísla og með honum Hólmfríði sem svo giftist séra Jóni Arasyni. Hafi
sú Þórunn í samtímanum verið kölluð „hin ríka“ hefur það verið eftir að
hún varð ekkja í annað sinn að Magnúsi Arasyni látnum árið 1635. Í grein-
inni er fullyrt að séra Gísli hafi verið hrakinn frá Vatnsfirði („ousted“) og
hafi Ara í Ögri, föður þeirra Jóns og Magnúsar, tekist að neyða hann („able
to force“) til að yfirgefa staðinn. Þetta eru sterk orð og standast ekki sé litið
til þess að í bréfi 28. janúar 1635 útskýrði Gísli Oddsson biskup fyrir föður -
bróður sínum að það væri „alvöru ásetningur Jóns Arasonar að fala af yður
með góðu Vatnsfjarðarstað allan eða minnsta kosti hálfan“ og ráðlagði hon-
um að taka því vel „sökum þess þér eruð orðnir ómagalausir og að burðum
veiktir eftir langa mæðu og erfiði“ (AM 246 4to. Bréfabók Gísla Oddssonar
1633–1635, bl. 337r). Biskup spáði því að Staður á Reykjanesi myndi losna
um vorið, enda stóð til að dæma séra Einar Guðmundsson frá embætti fyrir
margvíslegar sakir (sjá bls. 76 í bókinni). Það varð úr. Áreiðan lega hélt
biskup með efnilegum eiginmanni bróðursystur sinnar og sjálfsagt var séra
Gísli ekki sáttur við að fara frá Vatnsfirði eftir fjögurra áratuga dvöl en hann
var ekki hrakinn þaðan.
Tereza Lansing (bls. 321–362) beinir sjónum sínum að einum sona séra
Jóns Arasonar, Magnúsi í Vigur, sem skrifaði og lét skrifa ókjör handrita sem
mörg eru varðveitt, sum með kveðskap og önnur með hvers kyns sögum.
Sagnahandritin einkennast af stóru broti og fagurlegum umbúnaði, einkum
á titilsíðum, sem höfundur kennir við barokk og telur að tekið hafi mið af
prentuðum bókum erlendis frá. Einnig sýnir hún hvernig áhrifa frá handrit-
um Magnúsar gætti á Vesturlandi næstu áratugina, svo sem í handriti sem
Bjarni Pétursson sýslumaður á Staðarhóli lét gera (Lbs 2319 4to) árin 1727–
1729 og jafnvel öðru (Lbs 513 4to) sem séra Tyrfingur Finnsson á Stað í
Súgandafirði skrifaði nokkru síðar. Aðgreining í „literary copies“ og „learned
copies“ truflar hins vegar framvindu frásagnar og er óþörf enda til dæmis
ljóst að séra Tyrfingur, sem er settur í seinni flokkinn, kunni ekkert til verka.
Eins hefði mátt sleppa Sighvati Grímssyni Borgfirðingi sem starfaði á síðari
ritdómar226