Saga - 2019, Blaðsíða 64
Jón og ríkisvísindin
Jón Sigurðsson virðist fyrst hafa kynnst ríkisvísindum með beinum
hætti við Kaupmannahafnarháskóla árið 1840. Jón var raunar ekki
fyrstur Íslendinga í Danmörku til að kynna sér þau. Baldvin Einars -
son vísaði til dæmis til „landstjórnarvísi“ og „stjórnarfræði“ í riti
sínu Ármann á Alþingi og væri markmið fræðanna „heill og velfarn -
aður“ ríkisins.35 „Menn læra meir og meir að þekkja téð vísindi við
Universitetið,“ skrifaði Baldvin, og „ritgjörðir munu leggja fastari
grundvöll fyrir landstjórnarhugmyndir manna.“36 Árin 1840–1842
lagði Jón stund á formlegt nám í ríkisvísindum við Kaupmanna -
hafnarháskóla undir leiðsögn Adolphs Frederiks Bergsøe sem jafn-
framt stýrði dönsku ríkisfræðadeildinni.37 Samhliða námi aðstoðaði
Jón Bergsøe við gerð ritsins Den danske Stats Statistik sem kom út á
árunum 1844 til 1853, einkum í tengslum Íslandshluta þess, en hann
birtist á íslensku í þýðingu Sveins Skúlasonar á kostnað ríkis -
fræðadeildarinnar.38 Bergsøe þakkaði sérstaklega „vísindamönnun-
um“ Jóni og Oddgeiri Stephensen fyrir aðstoð við ritun bókar hlut -
ans en Oddgeir, sem var forstöðumaður íslensku stjórnardeildarinn-
ar og stóð ásamt Jóni að útgáfu Nýrra félagsrita og Lovsamling for
Island, tryggði Sveini stuðning ríkisfræðadeildarinnar við þýð ingu
ritsins.39 Við andlát Bergsøe árið 1854 beittu stuðnings menn Jóns
innan danska stjórnkerfisins, þar á meðal Carl C. Rafn og Caspar F.
Wegener, sér fyrir því við menntamálaráðherra Dana, Carl C. Hall,
að tryggja Jóni stöðu yfirmanns ríkisfræðadeildarinnar. Jón tjáði
Rafn að hann væri reiðubúinn að taka við stöðunni, jafnvel þó hann
yrði að segja af sér þingmennsku á Íslandi, en til þess kom ekki því
að Hall synjaði umleitunum þeirra.40
sveinn máni jóhannesson62
35 Ármann á Alþingi IV (1832), 24–27.
36 Baldvin Einarsson, „Bréf frá Baldvin Einarssyni til Bjarna amtmanns Thor -
steinssons“, Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags 10 (1889), bls. 246.
37 „Ríkisfræðadeildin“ var þýðing Sveins Skúlasonar á Det statistiske Bureau. Sjá:
Sveinn Skúlason, Lýsing Íslands á miðri 19. öld.
38 Páll Eggert Ólasson, Jón Sigurðsson I, bls. 371–373.
39 Sveinn Skúlason, Lýsing Íslands á miðri 19. öld, bls. 94, VII.
40 Rafn var meðal stofnenda Fornfræðifélagsins og Wegener var leyndarskjala-
vörður konungs. Hall tilheyrði flokki national-liberala í Danmörku og var því
ekki sérlega vinveittur Jóni á árunum eftir þjóðfund. Sjá: Guðjón Friðriksson,
Jón Sigurðsson II, bls. 105, 118.