Saga - 2019, Blaðsíða 68
kvæmdarvaldið var of lint“ eða „ekkert eða ærið lítið þegar etja átti
við goðavaldið“.54
Konungsdóminum fylgdi sterkara framkvæmdarvald en Dana -
kon ungar höfðu Ísland að „olnbogabarni“ og „vanræktu“ stjórn
landsins.55 Íslendingar höfðu því vanist „dönsku yfirvaldi, sem ekki
skiptir sér af þeim“, eða „lætur þá vera í friði“.56 „Seinlæti og deyfð“
einkenndi allar „stjórnarathafnir, og af því að limirnir dansa eftir
höfðinu þá breiðist deyfðin út til allra fyrirtækja“. „Allar framfarir
hjá oss gánga seigt,“ hélt Jón fram, „af því að stjórn vor er seinleg.“57
„Deyfð og atorkuleysi“ konungsstjórnarinnar á Íslandi í gegnum
aldirnar birtist meðal annars í því að nærvera hennar meðal lands-
manna var afar takmörkuð og samskipti við landsmenn af skornum
skammti. Stjórnin átti sér aðsetur á of fáum stöðum, leið fyrir skort
á „útsendurum“: „Eigi stjórnin að fara fram með fjöri, þá verður
hún að hafa sína eigin útsendara, og það er dauð stjórn sem ekki
hefir þá“.58
Það vekur athygli hve lítið Jón styðst við réttindamiðaða nálgun
í skrifum sínum um stjórnarfar. Hann fjallar ekki um lögmæti stjórnar -
forma í tengslum þeirra við réttindi einstaklinga eða þjóðarinnar.
Skilvirkni og nytsemdir voru mælistikurnar á ólíka stjórnarhætti.
Jón færði sams konar farsældarrök fyrir einstaklingsfrelsi. Til að ná
mætti tilgangi stjórnarinnar yrðu „kraptarnir að vera lausir þannig,
að þeir geti unnið allt það sem til nytsemdar horfir … en hvorki fái
neinn tálmað því sem tilgánginum [stjórnarinnar] má verða til fram-
gaungu“. „Allir kraptarnir að vera lausir að nokkru en bundnir að
nokkru“ því að „enginn getur sá gjört fullt gagn sem ekki hefir frelsi
til þess“.59 Ólíkt mörgum frjálslyndum hugsuðum fjallaði Jón held -
ur ekki um nauðsyn þess að veita einstaklingum stjórnarskrár-
bundna vernd gegn ágangi ríkisins á grundvelli óhagganlegra rétt-
inda.
sveinn máni jóhannesson66
54 Jón Sigurðsson til Gísla læknis Hjálmarssonar 16. apríl 1841, Bréf Jóns Sigurðs -
sonar. Úrval (Reykjavík, 1911), bls. 36; Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi“,
Ný félagsrit 1 (1841), bls. 71–72; Jón Sigurðsson, „Um alþíng“, Ný félagsrit 2
(1842), bls. 43, 94.
55 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi“, Ný félagsrit 1 (1841), bls. 112.
56 Jón Sigurðsson, „Um alþíng“, Ný félagsrit 2 (1842), bls. 24.
57 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi“, Ný félagsrit 1 (1841), bls. 92, 107.
58 Jón Sigurðsson, „Um blaðleysi og póstleysi á Íslandi“, Ný félagsrit 6 (1846), bls.
109.
59 Sama heimild, bls. 68–69.