Saga - 2019, Blaðsíða 127
um yfirráð yfir menningararfi er því pólitískur og felur í sér átök um
völd. Þessi átök eru til komin vegna þess að ólíkir hópar hafa mis-
jafnan aðgang að valdi en einnig vegna þess að menningararfur í
sjálfu sér getur verið valdatæki. Menningararfur er því ekki aðeins
liður í sjálfsmynd og skilgreiningu hópa heldur einnig tæki til að
stjórna því hvaða augum umheimurinn lítur hópinn.34
Með því að líta á byggingar og önnur efnisleg fyrirbæri sem
menningarleg tæki eða verkfæri fremur en arf í sjálfu sér er athygl-
inni beint að þeirri merkingarmyndun sem umlykur þau. Þannig
beinist kastljósið að breytingum á sögulegu samhengi þeirra og
staðsetningu í menningarlandslagi fremur en efnislegum eiginleik-
um.
Undanfarin ár hafa orðið örar breytingar á miðborg Reykjavíkur,
meðal annars með niðurrifi gamalla húsa, tilfærslu á gömlum hús -
um innan borgarmarkanna og endurgerðum. Ólafur Rastrick hefur
rannsakað þessar breytingar og beint sjónum að því hvernig borg-
arlandslag er vefnaður margradda merkingar sem fólk leggur í
umhverfi sitt.35 Tilfærsla á efnislegu fyrirbæri er inngrip í sögulegt
samhengi þess sem arfur. Tilfærsla á stærri áþreifanlegum fyrirbær-
um, eins og hús verða að teljast, er líklegri til að hafa meiri áhrif á
merkingu og virkni þeirra en fyrirbæris sem er smærra í sniðum og
álitið hreyfanlegra en hús. Þetta stafar meðal annars af því að hús
eru undir miklum áhrifum af því menningarlandslagi sem þau til-
heyra. Fólk sem býr í borgum er vant því að líta á hús sem hluta af
landslaginu og þess vegna sér það hús sem nátengt ákveðnum stað.
Þannig eru allar líkur á því að hús sem hefur verið hluti af ákveðinni
götumynd í langan tíma sé jafnframt hluti af vef staðbundins skiln-
ings á borgarumhverfinu og sögu þess og þar með hluti af sjálfs-
mynd og sjálfsskilningi heimamanna. Húsið verður þannig áþreifan -
„ný gömul hús“ 125
41–71. Regina Bendix hefur lýst menningararfi sem valdatæki, nánar tiltekið
sem gagnlegu líkingamáli fyrir hópa til að krefjast leiðréttingar eða úr bóta á
ranglæti fortíðarinnar. Sjá: Regina Bendix, „Heredity, Hybridity and Heritage
from One Fin-de-Siècle to the Next“, Folklore, Heritage, Politics and Ethnic
Diversity. Ritstj. Petri J. Anttonen, Anna-Leena Siikala og Stein R. Mathi sen
(Botkyrka: Multicultural Centre 2000), bls. 37–54.
34 Smith, Uses of Heritage, bls. 281.
35 Ólafur Rastrick, „Movable Topographies – Negotiating the Built Cultural
Heritage of „Old“ Reykjavik“, Heritage, Democracy and the Public. Ritstj. Tor -
grim Sneve Guttormsen og Grete Swensen (Farnham: Ashgate 2016), bls. 145–
158, sjá bls. 145.