Saga - 2019, Blaðsíða 87
Í þessari grein verða færð rök fyrir því að ein ástæða þessara
áhyggja hafi verið að í Reykjavík hafði myndast möguleikinn á nýrri
tegund kynferðislegra sambanda þar sem gjörólíkt fólk lifði og
starfaði í mikilli nánd hvert með öðru, svo sem ógiftar vinnukonur,
virðingarverðir embættismenn, uppreisnargjarnir skólapiltar og
erlendir sjómenn. Eins og rakið verður í greininni óttuðust menn að
ógiftar alþýðukonur bæjarins stunduðu kynlíf utan hjónabands eða
vændi, jafnvel með erlendum mönnum, og vakti það ótta við kyn-
sjúkdómasmit sem gætu breitt úr sér yfir landið allt. Ég mun nota
hugtak Áka, kaupstaðasótt, yfir þessa orðræðu. Kaupstaðasóttin
táknar þannig flutning kvenna úr sveit til þéttbýlis sem álitið var
hættulegt kynferðislegt smitsvæði milli útlanda og Íslands, milli
bændasamfélagsins og nýrra tíma, milli heilnæmra sveita og spill-
ingu stórborganna. Þessi togstreita er kunnuglegt viðfangsefni í
íslenskri sagnaritun en tenging hennar við sjúkdómsótta, sérstak -
lega ótta við kynsjúkdóma, hefur ekki farið hátt.10
Áhyggjur af kaupstaðasóttinni í þessari merkingu jukust eftir því
sem leið á tuttugustu öld og fór það svo að yfirvöld gripu í taumana
á þriðja og fjórða áratugnum með lagasetningu og beinum aðgerð -
um. Það má líta svo á að umræðan og siðferðislega fordæmingin á
ungum, fátækum Reykjavíkurkonum sem af þessu hlaust kallist á
við og undirbyggi ástandið svokallaða á hernámsárunum og sið -
fárið sem þá braust út, en hernám Íslands af Bretum árið 1940 markar
síðari tímamörk þessarar rannsóknar.11
kaupstaðasótt og freyjufár 85
Vilhelm Vilhelmsson, „„Lauslætið í Reykjavík“. Umræður um siðferði, kyn frelsi
og frjálsar ástir á Íslandi við upphaf 20. aldar“, Saga 49:1 (2011), bls. 104–131.
10 Um átökin milli þéttbýlis og sveita, sjá t.d. Ólaf Ásgeirsson, Iðnbylting hugar-
farsins. Átök um atvinnuþróun á Íslandi 1900–1940 (Reykjavík: Bókaútgáfa Menn -
ingarsjóðs 1988); Guðmund Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið. Uppruni og endi -
mörk (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag & ReykjavíkurAkademían
2007), bls. 45–172; Eggert Þór Bernharðsson, Sveitin í sálinni. Búskapur í Reykja -
vík og myndun borgar (Reykjavík: JPV 2014).
11 Um ástandið á Íslandi sem dæmi um siðfár, sjá Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur,
„„Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð
í útliti.“ Skjalasafn Ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar“, Saga
55:2 (2017), bls. 53–86. Almennt um stimplun alþýðukvenna í ástandinu, sjá t.d.
Báru Baldursdóttur, „Kynlegt stríð. Íslenskar konur í orðræðu síðari heims-
styrjaldar“, 2. íslenska söguþingið 30. maí – 1. júní 2002. Ráðstefnurit I. Ritstj. Erla
Hulda Halldórsdóttir (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands o.fl. 2002),
bls. 64–74.