Strandapósturinn - 01.06.2016, Síða 50
48
Guðmundur H. Guðjónsson
frá Kjörvogi
Síðrituð þjóðsaga
Þegar Guðmundi Árnasyni,
bónda í Naustvík, var meinað
að ganga inn Kjörvogshlíð
Þegar ég, Guðmundur Hafliði Guðjónsson, var stráklingur að
Kjörvogi heyrði ég sagt frá því í eldhúsi ömmu minnar, Guðrúnar
Jónsdóttur, að Guðmundi Árnasyni í Naustvík hefði eitt sinn verið
meinað að ganga inn Kjörvogshlíð af einhverjum dularfullum öfl-
um. Þetta var á árunum fyrir 1950 en Guðmundur Magnússon,
föðurbróðir minn, sagði söguna oftar en einu sinni svo ég heyrði.
Hann hafði mikinn áhuga á alls konar dulrænum fyrirbrigðum
og fengu þeir sem hann þekktu oft að heyra skoðun hans á þeim
efnum. Söguna heyrði ég líka á Finnbogastöðum en þar sagði
hinn rómaði sagnaþulur Þorsteinn Guðmundsson, bóndi þar,
söguna og var hún nær samhljóða þeirri sem Mundi frændi sagði.
Mér þótti þessi saga alltaf nokkuð furðuleg enda hafði enginn
skýringu á því hvað þar var á ferðinni.
Það var um 1920 í sláturtíðinni, síðla í september, að Guð-
mundur Árnason (1889–1972), bóndi í Naustvík, lagði upp frá
Kjörvogi á leið heim til sín. Það er rúmur klukkutíma röskur
gangur frá Kjörvogi inn í Naustvík en Naustvík liggur nokkurn
veginn mitt á milli Kjörvogs og Reykjarfjarðarbæjar sem er innst í
samnefndum firði. Guðmundur lagði af stað um kvöldið með
steinolíulukt í hendi og fór hina venjulegu reiðgötuleið sem lá
með fram sjónum. Það var mjög dimmt yfir en blíðuveður. Vegur-
inn er frekar seinfarinn enda hlykkjast hann um víkur og nes, yfir
kleifar og klungur. Ekkert bar til tíðinda þar til hann var kominn
inn að svokölluðum Ónaklettum, það er rúmlega hálftíma gang