Strandapósturinn - 01.06.2016, Síða 93
91
Niður af bænum var húsarúst sem var kölluð Búðartóft (199).
Þar var sjóbúð sem legið var við um hákarlatímann en síðast var
búið í henni um eða skömmu fyrir 1930. Síðust bjuggu þar Jón og
Guðrún Grímsdóttir en þeirra sonur var Jón kútur. Neðan undir
Búðartóftinni var kartöflugarður í eina tíð og nefnist þar enn
Garður (200).
Upp á hjallanum ofan við Jónsflöt er Balinn (201), sem öðru
nafni heitir Rimi (202), og er hann vestan undir fjárhúsunum og
hefur að hluta til verið umturnað. Þá tekur við Níuálnavöllur
(203) og ofan við hann er grösug brekka, Hesthúsbrekka (204).
Hún dregur nafn af hesthúsi sem stóð á klettabarði efst í henni.
Hesthúsbrekka er breiður sveigur upp í Krossklettana norðan og
ofan við fjárhúsin. Níuálnavöllur er norðan við fjárhúsin.
Utan við Níuálnavöll eru tvær gamlar grjóthleðslur, leifar af
grjótgörðum, sem nefndar eru Garðar (205) og er jafnan sagt „að
fara út að Görðum“ eða „að hitt eða þetta hafi verið eða sé út hjá
Görðum“. Þetta svæði er einnig nefnt „Milli Garða“ (206). Þarna
er álagablettur sem ekki mátti slá. Ef það var gert þá átti að drep-
ast kýr eða hestur. Jón Meyvant Sigurðsson (hann bjó á Munað-
arnesi 1904–1944) sló blettinn eitt sinn og missti hest. Þessi
blettur spratt alltaf vel. Jón Elías Jónsson (bóndi á Munaðarnesi
1928–1953) sló hann eitt sinn og um nóttina eftir kom álfkona til
Elísabetar Guðmundsdóttur, konu Jóns, og sagði að hann hefði
slegið blettinn sem hún fóðraði á geitur sínar tvær og sagði að í
staðinn yrðu þau að fóðra geiturnar um veturinn til að bæta fyrir
skaðann. Jón gaf þeim á garðann og kindur fóru aldrei á ákveðinn
stað í krónni (þar sem geiturnar áttu að vera) og heyið sem þar
var gefið hvarf alltaf. Þessi álfkona átti að búa í Krossklettum.
Þá byrjum við aftur við sjóinn. Nesið, sem bærinn stendur á,
heitir Munaðarnes (207). Neðan við bæinn, sunnan í nesinu, er
vik sem heitir Grynnri-Garðsstöð (208) og utan við hana er örlítill
vogur inn í klettana sem heitir Hundavogur (209). Hann er nú
oftar nefndur Halldórsvogur (210) eftir Halldóri Jónssyni er bjó á
Munaðarnesi 1935–1963. Í voginum var hundum drekkt. Klett-
arnir milli Grynnri-Garðsstöðvar og Hundavogs nefnast Grynnri-
Garðsstöðvarklettar (211). Í þá kletta er lítil glufa sem nefnist
Ýlduglufa (212). Í hana var hent úrgangi af sel og dregur hún
nafn af því. Ofan við Hundavoginn er lítill pollur í klettunum sem