Strandapósturinn - 01.06.2016, Blaðsíða 111
109
mýrarnesið. Síðan smalað heim Urðir og Urðarkletta og áfram
Landið og heim að bæ.
Hrognkelsaveiði
Allnokkur hrognkelsaveiði er á Munaðarnesi. Þegar lögð eru net
fyrir hrognkelsi er venjulega lagt frá Náttmálaskeri, bæði í átt til
lands og út frá því. Einnig er lagt frá Friðrikku, Bólskeri og Stekkj-
arnesflögu. Þá er og lagt út frá Nálinni, fram af Miðvík, í Djúpa-
sund og í Sundið milli Friðrikku og Lands.
Byggingar
Íbúðarhús Guðmundar G. Jónssonar stendur á Bæjarhólnum eða
Hólnum sem svo er venjulega nefndur. Íbúðarhús Jóns E. Jóns-
sonar yngra stendur á Fellsmannaflöt. Íbúðarhús Halldórs og Sig-
urgeirs Jónssona stóð á Bæjarhólnum skammt austur frá húsi
Guðmundar G. Jónssonar. Síðastnefnda húsið var rifið 1966.
Íbúðarhús Jóns Elíasar Jónssonar eldra (d. 1953) stóð á Bólbarði
vestanvert við Bæjarlækinn. Það var rifið árið 1955. Að hluta til
var það aftur reist niður við Grynnri-Gástöð og notað sem fjós
þangað til nýlega. Nú er það eldiviðargeymsla. Fjárhús þau sem
nú eru í notkun voru reist árið 1978 á Rima sem öðru nafni nefn-
ist Balinn. Áður voru fjárhús, sem Indriði og Jón Jens Guðmunds-
synir áttu, fyrir ofan Fellsmannaflöt. Fjárhús þeirra Halldórs og
Sigurgeirs voru undir klettunum rétt vestan við Hesthúsbrekku.
Þau eru nú horfin. Úti í Stekkjarnesi eru fjárhús, Stekkjarneshús-
in, og voru þau reist upp úr fjárhúsunum frá Fagrahvammi um
1953.
Huldufólk og fjörulallar
Talið var að huldufólk byggi í Eggertskletti og í Krossklettum. Þá
hefur heyrst sálmasöngur frá Neðri-Dýrakletti. Einnig var talið að
huldufólk byggi í Miðhúsaklifi. Í æsku voru börn vöruð við að rífa
mosa af klettum þar því að það gæti komið sér illa fyrir fólkið sem
þar bjó. Einu sinni fór þó Guðmundur G. Jónsson, barn að aldri,
með konum á Munaðarnesi inn í Klif en þær tóku þar mosa til að
lita föt.