Bændablaðið - 22.07.2021, Page 6

Bændablaðið - 22.07.2021, Page 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 22. júlí 20216 Síðastliðna daga og mánuði hefur farið fram mikil vinna í geymslum Bændasamtakanna við það að flokka, fara yfir og koma í geymlsu því sem þar er. En í geymslum Bændasamtakanna úir og grúir af efni sem skrásetja langa sögu samtakanna og forvera þeirra. Fyrir nokkru fór ég þar í leiðangur og það vakti eftirtekt hversu mikill hluti af því efni sem þar var að finna var tengt menntun og fræðslu bænda. Þar voru leiðarvísar frá upphafi síðustu aldar um meðhöndlun á mjólk, leiðbeiningar um lokræsi frá því á kreppuárunum og svona mætti lengi telja. Menntun hefur lengi verið aflvaki framfara í landbúnaði. Þróun náms í landbúnaði Það var því heillaskref þegar bjartsýnir Íslendingar komu sér upp búnaðarskólum víða um landið á ofanverðri nítjándu öld og svo að lokum háskóla á Hvanneyri árið 1947. Einn af búnaðarskólunum, Hólar í Hjaltadal, fékk heimild til þess að starfa sem háskólastofnun og starfar sem háskóli í dag. Menntakerfið í landbúnaði hefur alltaf tekið breytingum. Nærtækt dæmi eru búnaðarskólarnir sem voru víða en með bættum samgöngum og fjarskiptum fækkaði þeim þangað til eftir urðu tveir, búfræðideildin á Hvanneyri og garðyrkjuskólinn á Reykjum. Ég tel vera kominn tíma á það að íhuga næstu skref í þróun náms í landbúnaði. Samvinna við leiðandi háskóla í fjarkennslu og lífvísindum Nýsköpun og aukin verðmætasköpun eru forsendur fyrir því að landbúnaðurinn nái að dafna á komandi árum. Því er mikilvægt að greint sé hvort hægt sé að hvata nýsköpun með því að auka samvinnu milli Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Akureyri. Báðir þessir skólar hafa öflugar auðlindadeildir sem ætla má að gætu skapað mikla samlegð. Sjávarútvegsdeildin við Háskólann á Akureyri er í fremstu röð í heim- inum en jafnframt er þar öflug lífvísindadeild. Augljós samlegð er á milli lífvísinda og land- búnaðar. Sem dæmi má nefna grasprótínfram- leiðslu sem mikið er til umræðu í Danmörku þessi misserin, en hún spratt upp úr samvinnu lífvísinda og búvísindadeildar í háskólum þar ytra. Háskólinn á Akureyri hefur verið deigla nýsköpunar í sjávarútvegi síðustu ár og fjöl- mörg verkefni þaðan náð að blómstra og aukið verðmætasköpun við Íslandsstrendur. Sífræðsla og endurmenntun Á tímum þar sem nauðsynlegt er að styrkja þær búgreinar sem fyrir eru með nýsköpun og efla verðmætasköpun í landbúnaði má ætla að það geti verið mikils virði að auka samvinnu milli HA og LbhÍ. Þá er HA leiðandi í fjarkennslu og hefur verið í fararbroddi í að nýta fjarkennslulausnir um árabil. Fyrir landbúnaðinn kann það að reynast mikilsvert að auka þekkingu í þeim efnum þar sem á komandi árum verður sífræðsla og endurmenntun æ mikilvægari. Með aukinni tæknivæðingu og nákvæmnivæðingu landbúnaðarins vegna hinnar svokölluðu fjórðu iðnbyltingu mun þörf á slíkum úrræðum aukast. Náminu í búskapnum lýkur aldrei og síst ekki nú til dags. Síðustu fimmtán ár hafa reynst Landbúnaðarháskólanum erfið Síðasta stóra breyting á námi í landbúnaði var við sameiningu Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins, Garðyrkjuskólans á Reykjum og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri fyrir rúmum fimmtán árum. Hrunið lék stofnunina grátt og stöðugildum fækkaði gríðarlega mikið á árunum eftir hrun. Þannig dröbbuðust niður rannsóknarinnviðir, tækjakostur og aðstaða. Þá var einnig umræða á árunum eftir hrun að sameina stofnunina Háskóla Íslands. Sá leiðangur skilaði engu enda held ég að það sé farsælla fyrir stofnunina að vera hluti af minni einingu – sem er með sérhæfingu á sambærilegum fagsviðum. Þá hefur óvissa um framtíð LbhÍ, vegna sameiningaráforma og nú síðast úrbeiningar á háskólanum vegna óánægju innan raða garðyrkjufólks um fyrirkomulag náms í garðyrkjufræðum reynst stofnuninni dýr. Mikilvægt er að á næstu árum sjáist þess merki að það sé fast land undir fótum svo að landbúnaðarrannsóknum verði búið aðlaðandi umhverfi fyrir unga vísindamenn sem nú á tímum geta fengið störf hvar sem er. Allt á sinn vitjunartíma, og líkt og tiltektin í geymslu Bændasamtakanna sýnir fram á – þá hefur menntun í landbúnaði alltaf þróast með samfélaginu. Nú er lag að taka næsta skref. Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 11.600 með vsk. (innheimt í tvennu lagi). Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar 7.600 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − SKOÐUN Samlegð í háskólum Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands gunnar@bondi.is ÍSLAND ER LAND ÞITT Ritstjóri: Erla H. Gunnarsdóttir (ábm.) ehg@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Erla Hjördís Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Margrét Þóra Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Frágangur fyrir prentun: Sigrún Pétursdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621 Í góðra vina hópi Súðavík við Álftafjörð. Súðavíkurhreppur er hreppur við sunnanvert Ísafjarðardjúp. Aðalatvinnuvegir eru landbúnaður og sjávarútvegur. Hinn 1. janúar 1995 sameinuðust Ögurhreppur og Reykjarfjarðarhreppur Súðavíkurhreppi. Árið 1995 féll stórt snjóflóð á þorpið og fórust 14 manns. Þá var ákveðið að flytja fasta búsetu manna innar í fjörðinn þar sem stór hluti af gamla þorpinu stendur á snjóflóðahættusvæði. Byggt var undir fjallinu Kofra í landi Eyrardals, sunnan Sauradals og ofan við Langeyri. Búist er við mikilli atvinnuuppbyggingu í Súðavík á komandi misserum, bæði vegna laxeldis og ekki síður vegna byggingar kalþörungaverksmiðju, líkt og gert var á Bíldudal. Mynd / Hörður Kristjánsson Sveitin iðar af lífi. Í bókstaflegri merkingu þess orðs. Það er ekki nóg með að tjaldsvæði landsins, sérstaklega norðan- og austanlands, séu troðfull, heldur eru erlendu ferðamennirnir farnir að streyma til landsins. Þannig heyrast fréttir af metfjölda farþega í gegnum Leifsstöð á degi hverjum og að bílaleigur nái vart að anna eftirspurn, svo snarpur er kippurinn. Það sést nú, sem áður, hversu mik- ilvægir bændur eru í okkar þjóðfélagi og hvaða gildi það hefur að halda sem flestum stöðum á landsbyggð- inni í byggð. Fréttist af bændum við Kirkjubæjarklaustur sem kallaðir voru út að kvöldlagi til sláttustarfa til að hægt væri að koma öllum gestum fyrir á tjaldstæði bæjarins. Ekki var að sökum að spyrja, bændur stukku til, tóku síðustu heyrúllur af túninu þannig að hægt væri að opna nýslegið aukatjaldsvæðið fyrir ferðaþyrsta hjól- hýsaeigendur. Þó eru ekki nærri allir sem verja sumrinu í að sleikja sólina fyrir austan og norðan með aftanívagna í eftirdragi heldur eykst nú aftur ásókn fólks í að ganga upp um fjöll og firnindi landsins, í öllum landsfjórðungum. Ferðafélag Íslands greinir nú um 70% aukningu í þátttöku, skráningu í ferðum og bókunum í skála frá síðasta sumri. Þetta er sennilega ein besta leiðin fyrir fólk til að kynnast landinu sínu betur, aftengjast og njóta alls hins besta sem náttúran hefur upp á að bjóða. Staðirnir eru óteljandi um allt land og víða hægt að finna gönguleiðir við allra hæfi. Ferðaþjónustubændur vítt og breitt um landið eru farnir að brosa aftur, ef marka má orð Sölva Arnarssonar, formanns Félags ferðaþjónustubænda. Enda ekki nema von þegar menn hafa haft lokað hjá sér í hátt í 18 mánuði, þá hlýtur að glæðast í hjörtum manna að sjá aftur líf um þjóðvegi landsins, geta tekið á móti ferðalöngum aftur og sjá atvinnugreinina lifna við, sennilega með meiri hraða en menn óraði fyrir. Það er mikilvægt, líkt og Sölvi bendir á, að allir þurfa að vanda sig og taka skynsamlegar ákvarðanir þannig að ekki þurfi að koma upp aftur það óvissuástand sem hefur ríkt mánuðum saman. Við skulum ganga hægt um gleðinnar dyr. Þrátt fyrir að lífið sé alla jafna yndislegt og gleðiefni að aftur sé hægt að fara á mannamót og gera sér glaðan dag í góðra vina hópi er mikilvægt að hafa í huga að við erum ekki alveg laus við veiruna sem hefur snúið heimsbyggðinni á hvolf síðasta rúma árið. Enn þurfum við að fara að öllu með gát svo ekki þurfi að skella öllu fyrirvaralaust aftur í lás. Með samhentu átaki tekst okkur það, hef ég trú á, en síðan verður tíminn að leiða í ljós hvernig veiran hagar sér og til hvaða ráðstafana verður tekið hverju sinni. En eitt er víst að félagsþyrstur almúginn á svo sannarlega skilið að fá að sletta aðeins úr klaufunum eftir langan þurrðartíma sem við vonum að komi ekki aftur. Það er nefnilega best þegar sveitin og tilveran iðar af lífi. /ehg

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.