Morgunblaðið - 07.02.2022, Page 10
10 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 7. FEBRÚAR 2022
Smiðjuvegur 68, Kópavogi | S. 587 1350 | bifreidaverkstaedi.is
Höfum sérhæft okkur í Toyota viðgerðum síðan 1995
Fljót, örugg og persónuleg þjónusta
Allar almennar bílaviðgerðir
VIÐTAL
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Þetta hefur breytt mér gjör-
samlega. Ég mun aldrei verða eins
og ég var fyrir rúmum fjórum mán-
uðum,“ segir Sindri Már Finn-
bogason, stofnandi og aðaleigandi
miðasölufyrirtækisins Tix.
Sindri hefur haldið sér til hlés síð-
ustu mánuði eftir að hann fékk
heilablóðfall við komuna til landsins
úr vinnuferð í Englandi. Hann telur
að ástæðan fyrir því að hann fékk
áfallið sé sú að hann hann hafi unnið
of mikið og ekki hlúð nægilega vel
að sjálfum sér.
Eins og kom fram í Morgun-
blaðinu á dögunum kynnti Tix starf-
semi sína á ráðstefnunni Intix í
Flórída í Bandaríkjunum á dög-
unum. Fyrirtækið ætlar að hasla sér
völl þar í landi og óhætt er að segja
að það fari vel af stað því viðtök-
urnar á þessari ráðstefnu, sem er
með þeim stærstu í miðasölugeir-
anum, voru frábærar. Sindri hélt
fyrirlestur á ráðstefnunni sem
mæltist mjög vel fyrir en þar
greindi hann frá því að hann hefði
nýverið fengið heilablóðfall og
hvatti viðstadda til að forgangsraða
rétt í sínu lífi og hugsa vel um sig.
Af fjölmiðlaumfjöllun um ráðstefn-
una má ráða að þessi einlægni hafi
lagst vel í viðstadda.
„Ég og Íris konan mín ákváðum
að fara til Orlando á sama tíma og
ráðstefnan var, einfaldlega til að
komast í frí. Við þurftum bæði á því
að halda. Ég átti upphaflega að
halda fyrirlestur þarna en vegna
heilsufarsins á mér höfðum við
ákveðið að annar kæmi í minn stað.
Þegar hann svo komst ekki til
Bandaríkjanna ákvað ég bara að
láta slag standa. Við undirbúninginn
fann ég að ég gæti ekki staðið þarna
í 45 mínútur og talað um fyrirtækið
eins og ekkert væri að. Ég gat ein-
faldlega ekki farið upp á svið án
þess að segja frá minni lífsreynslu,“
segir Sindri.
16 tíma vinnudagar
fjarri fjölskyldunni
Og það var nákvæmlega það sem
hann gerði. Fyrirlesturinn byrjaði á
stuttum inngangi um Tix en svo
skipti hann um gír og varpaði upp
ljósmynd af sér og pabba sínum sem
lést fyrir rúmum sjö árum, skömmu
áður en Tix.is fór fyrst í loftið.
Sindri segir við Morgunblaðið að
hann hafi rakið sína sögu og fyrir-
tækisins síðustu ár og greint frá því
hversu mikið hann hafi unnið án
þess að gera sér grein fyrir afleið-
ingunum. „Ég var vanur að færa
strákunum mínum gjafir þegar ég
kom heim úr vinnuferðum, sem þeir
léku sér með í fimm mínútur en
hentu svo frá sér. Í síðustu vinnu-
ferðinni tók ég hins vegar Legókall
með mér og tók myndir af honum
þar sem ég kom við og sýndi strák-
unum. Þessar myndir sýndi ég í
fyrirlestrinum og fólki fannst þetta
greinilega sniðugt. Sama reyndar
þegar ég endaði á fjölskyldumynd
sem Íris konan mín gaf mér af okk-
ur öllum í hlutverki Simpson-
fjölskyldunnar fyrir framan sjón-
varpið. Auðvitað var Kaninn hrifinn
af því,“ segir Sindri.
Hann segir að skilaboðin með því
að segja sögu sína hafi verið skýr.
„Annars vegar að það er allt uppi á
borðum hjá okkur en líka að hvetja
fólk til að staldra aðeins við og
íhuga hvort það ætti að breyta ein-
hverju sjálft. Hvort sem það er í
þeim rekstri sem það sinnir, ef kerf-
ið er ekki að virka má alveg skipta
um kerfi, en ekki síður í eigin lífi.
Ég get vottað það sjálfur að það
borgar sig ekki að ganga of nærri
sér með vinnu. Þegar upp er staðið
eru aðrir hlutir mikilvægari.“
Tix var stofnað árið 2014 og náði
á skömmum tíma yfirburðastöðu á
miðasölumarkaði hér á landi. Fljót-
lega var horft til þess að færa starf-
semina út fyrir landsteinana og náði
Tix fótfestu í Noregi, Danmörku,
Færeyjum og Svíþjóð en síðar í
Hollandi, Belgíu, Finnlandi og Bret-
landi. Fyrir tveimur árum voru
starfsmenn Tix 12 talsins en nú eru
þeir 38 í átta löndum.
Útrásin tók sinn toll hjá Sindra
sem dvaldi langtímum saman í út-
löndum, gjarnan einn á hótelum og
fjarri fjölskyldu sinni. Árið 2019 fór
hann í yfir hundrað flugferðir og
2020 eyddi hann um 60 dögum í
sóttkví vegna flugferða. „Þegar ég
var búinn að koma öllu af stað á
Norðurlöndunum kom ég heim og
þurfti að fara að takast á við dag-
legu rútínuna meðfram vinnunni og
það reyndist mér mjög erfitt. Ég fór
því að leita að nýjum tækifærum og
þau voru fyrir hendi í Hollandi. Í
fyrra var ég fyrstu fjóra mánuði
ársins í Hollandi að koma öllu af
stað þar. Þá vann ég bókstaflega 16
tíma á dag að jafnaði, var kannski
helming tímans á Zoom-fundum en
hinn helminginn að sinna forritun
og ýmsu öðru í starfsemi Tix. Þegar
ég kom svo heim eftir þessa törn
hélt ég áfram að vinna svona mikið.
En þar sem ég þurfti að sinna fjöl-
skyldunni fann ég bara annan tíma
til að vinna, annaðhvort fram á nótt
þegar allt var komið í ró eða eld-
snemma á morgnana. Á endanum sá
ég að ég þyrfti auðvitað að dreifa
ábyrgðinni á fleiri en það reyndist
mér samt erfitt að sleppa takinu.“
Fékk heilablóðfall í Leifsstöð
Síðasta haust var komið að land-
vinningum í Bretlandi og einnar
nætur vinnuferð í lok september
reyndist örlagarík. Sindri flaug út
að morgni 29. september og eftir
fundarhöld og fleira flaug hann aft-
ur til Íslands frá Heathrow-flugvelli
daginn eftir. „Ég man að ég var al-
veg búinn á því á flugvellinum. Ég
talaði við Írisi og hún greinilega
skynjaði það og benti mér á að þetta
væri ekki skynsamlegt. Daginn eftir
var sjö ára afmæli Tix og við ætl-
uðum að fagna því með starfsfólk-
inu,“ segir Sindri sem kveðst hafa
liðið ágætlega þegar vélin lenti á Ís-
landi. Áfallið hafi aftur á móti riðið
yfir þegar hann gekk frá borði. Í
rananum frá vélinni fann hann ær-
andi hávaða í höfðinu og þurfti að
stoppa og ná áttum. Hann náði að
komast inn í flugstöðvarbygginguna
og þar komst meiri ró yfir hann.
„Svo tókst mér einhvern veginn að
komast í gegnum vegabréfaskoð-
unina. Starfsfólkið hlýtur að hafa
haldið að ég væri drukkinn. Þegar
ég kom niður stigann að fríhöfninni
fann ég að ég væri ekki í neinu
ástandi til að fara að keyra og gat á
endanum gengið að tollverði og beð-
ið um aðstoð. Hún sá greinilega að
það var eitthvað mikið að og kallaði
eftir læknishjálp,“ segir Sindri.
Hann var fluttur á sjúkrahúsið í
Keflavík og þaðan á bráðamóttöku
Landspítalans. Daginn eftir komu
svo í ljós blettir í heila og Sindra var
tjáð að hann hefði fengið heilablóð-
fall.
Hefur ekki náð fullum
styrk og minnið í ólagi
Við tók dvöl á spítalanum og í
kjölfarið endurhæfing á Grensás-
deild, sem lauk um áramótin. Síðan
þá hefur Sindri stundað líkamsrækt
sjálfur og vinnur nú að því að ná
fullum styrk. Hann býst ekki við því
að allt verði eins og það var áður en
er bjartsýnn á framtíðina.
„Minnið mitt er ekki í lagi og ég
er enn sem komið er ekki í neinu
ástandi til að vinna. Ég tek einn og
einn fund til að heyra hvernig gangi
en er ekki nærri því búinn að ná
þeim styrk sem til þarf. Ég átti ein-
mitt fund með einum Bandaríkja-
manni um daginn sem fékk sjálfur
heilablóðfall. Hann talaði alltaf um
líf sitt fyrir og eftir heilablóðfallið
og ég býst við að þannig verði það
líka hjá mér. Ég hef aldrei fengið
skýringar á því af hverju ég fékk
heilablóðfall en ég er sannfærður
um að það hafi verið út af álagi. Ég
vann gjörsamlega yfir mig en áttaði
mig engan veginn á því. Á þessari
ráðstefnu í Orlando sá ég það skýrt
að við getum farið inn á Bandaríkja-
markað og náð góðum árangri þar.
Viðbrögðin voru þannig að það fer
ekki á milli mála. En ég sá líka að
ég þarf ekki að gera það sjálfur. Ég
þarf bara að sætta mig við að það er
ekkert að því að fela öðrum verk-
efnin þó ég taki líka þátt eða fylgist
með. Þegar upp er staðið er fjöl-
skyldan mín það mikilvægasta í
mínu lífi og ég ætla að vera viss um
að vera til staðar fyrir hana hér eft-
ir.“
Vann yfir sig við útrás fyrirtækisins
- Stofnandi Tix fékk heilablóðfall eftir að hafa verið undir miklu álagi við landvinninga fyrirtækisins
- Lýsti reynslu sinni á ráðstefnu í Bandaríkjunum - Ætlar að fara varlega og fela öðrum verkefnin
Morgunblaðið/Unnur Karen
Áfall Sindri Már Finnbogason, stofnandi Tix, hefur náð góðum árangri með útrás fyrirtækisins. Sá árangur kostaði
þó sitt og nú berst hann við að ná aftur fyrri styrk eftir að hafa fengið heilablóðfall í vinnuferð síðasta haust.
208 nemendur voru brautskráðir
frá Háskólanum í Reykjavík við há-
tíðlega athöfn á laugardag. Þá voru
122 nemendur brautskráðir úr
grunnámi, 51 úr meistaranámi og
einn úr doktorsnámi. 34 útskrif-
uðust úr diplómunámi.
Af tæknisviði skólans útskrif-
uðust alls 126 nemendur og samtals
útskrifuðust 82 af samfélagssviði.
Rektor HR, dr. Ragnhildur
Helgadóttir, ávarpaði útskriftar-
nema við athöfnina og nefndi í há-
tíðarávarpi sínu margþætt hlutverk
háskóla í samfélaginu.
Verðlaun Viðskiptaráðs Íslands
fyrir framúrskarandi námsárangur
hlutu þau Bessí Þóra Jónsdóttir í
hagfræði og stjórnun, Líney Dan
Gunnarsdóttir í lögfræði, Ester El-
ísabet Gunnarsdóttir í heilbrigðis-
verkfræði, Elva Björk Pálsdóttir í
sálfræði, Alexander Snær Stef-
ánsson í tölvunarfræði og Júlíana
Ingimundardóttir í rafmagns-
tæknifræði.
Svanhildur Hólm Valsdóttir,
framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs
Íslands, afhenti nemendunum verð-
launin.
Viðurkenningu frá Samtökum
iðnaðarins fyrir framúrskarandi
námsárangur hlutu þau Andri Þor-
láksson í rafmagnsverkfræði,
Kristófer Ingi Maack í rafmagns-
tæknifræði og Jón Eiríkur Jóhanns-
son sem útskrifaðist með diplómu í
rafiðnfræði.
Júlíana Ingimundardóttir, BSc í
rafmagnstæknifræði, flutti ávarp
fyrir hönd útskriftarnemenda.
208 brautskráðir frá
Háskólanum í Reykjavík
- Hátíðleg afhöfn í Hörpu - Rektor ávarpaði hópinn
Ljósmynd/Háskólinn í Reykjavík
Útskrift 208 brautskráðust og níu
hlutu verðlaun eða viðurkenningu.