Morgunblaðið - 07.02.2022, Síða 28

Morgunblaðið - 07.02.2022, Síða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 7. FEBRÚAR 2022 Það er reykjarsvæla í stofunni. Há- vær tónlistin blandast klið ólíkra radda og úr verður hrærigrautur hljóða sem erfitt er að henda reiður á. Í miðjum kliðnum situr svarthærð stúlka í þröngum skærgrænum kjól. Hún er háværust allra. Það er Ásta. Dimm seiðandi rödd hennar hefst og hnígur yfir öldurót glymjandans og hlátur hennar er í senn skær og skerandi. Hún er drukkin. Stóru móbrúnu augun eru syndandi og svört strikin í kringum þau farin að renna niður kinnarnar. En augun eru þurr. Í þeim er blik hörku og fyrirlitningar sem stangast á við breitt brosið og smelln- ar fullyrðingar. Hún hefur verið hér áður. Oft áður. Hún kann þennan leik flestum betur. Og hefur í fullu tré við strákana. Þeir dá hana og fyrirlíta í senn. Þrá líkama hennar en óttast skarpa tunguna og hispurslaust hátternið. Suma þeirra hefur hún elskað. En þrátt fyrir kokhreystina og yfirlýs- ingar um fyrirlitningu þeirra á þessu smáborgaralega samfélagi skortir þá kjark til að gangast við henni á al- mannafæri. Sá sem hún elskaði heit- ast lést ekki þekkja hana á götum úti. Það var sárt. Til að byrja með var það sárt. En nú er henni sama. Áfengisþokan umlykur hana hlý og sefandi eins og þokan í fjörunni heima. Hún kemst af án þeirra. Kemst af án ástar. Henni leiðist þessir menn en hún tekur þó þátt í leik þeirra. Er einhver önnur leið? Sem snöggvast bregður fyrir í djúpi minnisins andliti móður hennar. Ströngu og siðavöndu. En hún ýtir því frá sér. Hún trúir ekki á syndina sem móður hennar stendur svo mikil ógn af. Það er enginn Guð til. Hann er farinn til síns heima. Búinn að loka að sér í einkahimni og vill ekkert af mönnunum vita. Vill ekki vita af þjáning- unni sem fylgir því að vera manneskja. Bakkus er staðfast- ari. Hann býður skjól fyrir næðingi mannlífs- ins og kippir sér ekk- ert upp við eymdina. „Skál,“ hlær hún og horfir leiftrandi augum á unga manninn sem situr við hlið hennar, „nú skulum við skemmta okkur.“ En hann hrekkur undan, „er það satt að þú standir allsber fyrir framan fullt af fólki og leyfir því að mála þig?“ spyr hann og það er ótti og virðing í senn í raddblænum. „Auðvitað er það satt,“ hlær hún, „ég er módel. Módel hafa alltaf verið til og án þeirra væri listasagan mörgu snilldarverkinu fátækari. Það er bara hér sem fólki þykir eitthvað at- hugavert við þessa atvinnu. Erlendis njóta módel virðingar. Kannski fer ég bráðum til Parísar og sit fyrir hjá frægum málurum og þá verður þú montinn af því að hafa þekkt mig.“ Svipur hans er efablandinn, „það held ég ekki,“ segir hann, „það veit aldrei neinn hver þessi módel eru. Þau skipta engu máli fyrir gildi mál- verksins. Þau eru bara notuð.“ „Þú ert heimskur,“ segir hún, stendur upp og fer að litast um eftir skemmtilegri félagsskap. Hann ætti að vera auðfundinn á þessum stað því þarna er samankominn rjóminn af bó- hemum bæjarins. En það eru allir uppteknir af sjálfum sér. Samskiptin ganga út á það að láta hina dást að því hversu klár og orðheppinn og velles- inn og vitur maður sé, ekki alvarlega köfun í það hvað raunverulega skiptir máli. Þó eru þarna ýmsir menn sem gengið hafa fram í því að berjast fyrir betri heimi, að eigin sögn, en þeir eru engu djúpsyndari en hinir. Málið er að orða hugsanir sínar á nógu snjallan hátt. Hugsanirnar sjálfar skipta minna máli. Flest þetta fólk þekkir ekki lífsbar- áttuna af eigin raun. Þau eru flest hálfgerðir unglingar, blaut bak við eyrun og hafa ekki enn þurft að tak- ast á við gráma hversdagslífsins. Þau koma úr ýmsum stéttum þjóðfélags- ins og frá mismunandi stöðum á land- inu, dætur og synir kreppukynslóð- arinnar. Sum þeirra hafa svo sem ekki átt neitt glæsilega æsku en í bjartsýni ungdómsins láta þau sem þeim séu allir vegir færir. Og kannski er það svo. Þrátt fyrir atvinnuleysi og fátækt í þjóðfélaginu er hér enginn sem beinlínis hefur liðið skort. Það eru alltaf einhver ráð. Eða oftast. Hún man þó enn þá örvænt- inguna frá síðasta sumri þegar hún gekk um atvinnulaus og húsnæðislaus og svaf úti þegar þannig vildi verkast. Þá hafði hún ekki verið bjartsýn. Þá hafði henni sviðið óréttlætið í þjóð- félaginu. Að sumir hafa allt en aðrir ekkert. Og þeir sem hafa allt segja að þeir sem ekkert hafa geti bara sjálf- um sér um kennt. Eins og einhver geti kennt sjálfum sér um veikindi og basl. Já, henni svíður það enn þá en nú átti hún þó allavega heimili og at- vinnu. Sumum blöskraði sú atvinna en hún gat ekki séð að þetta væri neitt verri leið en hver önnur til að hafa í sig og á. Og mun auðveldari en flest- ar. En samt hafði hún ekki gleymt niðurlægingunni sem fólst í því að eiga ekki að éta. Að sníkja greiða hjá Pétri og Páli til þess eins að fá saðn- ingu. Það var lífsreynsla sem hún vildi helst ekki þurfa að ganga í gegnum aftur. Hávaðinn í stofunni eykst enn og henni súrnar í augum af reyknum. Glasið hennar er tómt og hún leggur af stað fram í eldhús til að verða sér úti um meira. Mikið er þetta annars innantóm samkoma. Í eldhúsinu sitja skáld og málari og ræða spekingslega um samsvaranir í ljóðlist og málaralist franskra sam- tímamanna. Þeir líta varla upp þegar hún kemur. Kinka annars hugar kolli og halda áfram að reyna að slá hvor annan út með gáfulegum samlík- ingum. Henni finnst sér ofaukið. Tilfinn- ingin fyrir því að hún eigi ekki heima í þessum hópi ágerist. Kannski er það rétt sem ungi maðurinn sagði áðan. Kannski er hún bara notuð eins og dauður hlutur. Kannski er öllum sama hver hún í raun og veru er. Hvern varðar svo sem um drauma hennar og þrár? Og hvaða afrek hefur hún unnið? Hafði hún ekki komið til Reykja- víkur í þeim tilgangi að þjóna guði fegurðarinnar? Til að mennta sig og njóta þess sem fagurt er og gott? Jú, einhvern tíma hafði hún trúað því að fegurðin ætti að ríkja ein en sú trú er horfin. Hún hefur séð of margt. Það eru illskan og ljótleikinn sem mega sín mest. Að trúa öðru er sjálfs- blekking og barnaskapur. Og hún breytir því ekki. Á enga völ aðra en þá að taka þátt í leiknum. Jafnvel Jesús Kristur hafði ekki getað breytt þessum heimi. Þótt hann væri góður og sannur og verður þess að vera elskaður. Eftirkomendur hans höfðu skrumskælt allt sem hann sagði. Gert úr því ástæður til morða og kúgunar. Og þannig var um allt. Hið góða átti sér engrar viðreisnar von í þessum heimi. Hún hellir vænum slurki í glasið sitt. Hér er hvorki staður né stund til að sökkva sér í niðurdrepandi hugs- anir. Einbeitt á svip grípur hún glasið og skundar inn í stofuna. Nú skal hún þó einu sinni skemmta sér ærlega. * * * Hún er hrædd. Lamandi skelfingin sem gagntók hana á sunnudagsnótt- ina vill ekki sleppa tökum. Hún hefði ekki átt að drekka svona mikið. Verða sér til skammar í samkvæminu. Hlaupa ein út á götu og treysta á náð fyrsta vegfarandans sem aumkvaði sig yfir hana. En hún var vön að treysta fólki. Stóð enn þá í þeirri meiningu að mennirnir væru góðir. Þrátt fyrir allt. Kannski stafaði ólánið af fram- komu hennar sjálfrar. Óhemjugang- urinn í henni alltaf. Hún varð að hætta að drekka. Það var engin önnur leið. Ævinlega þegar hún varð full missti hún stjórnina. Varð hávaðasöm og framhleypin. Lenti í stælum. Öskraði og reifst og krafðist athygli. Og uppskar fyrirlitningu og reiði. Hún vill ekki vera svona. Vill vera góð og vinsæl og eftirsótt. Það er bara áfengið sem fer svona í hana. Al- mennilegt fólk hrekkur undan. Við hverju bjóst hún? Svo hafði maðurinn komið og boðist til að hjálpa henni. Hún hafði alltaf haldið að hún hefði í fullu tré við karl- menn. Og svo fór það svona. Hrollurinn gagntók hana að nýju. Hvers konar úrhrak var hún? Kannski var djöfullinn til eftir allt saman. Og átti bólfestu í henni. Kannski hafði móðir hennar rétt fyrir sér. Guð refsaði þeim sem brutu boð hans. Og hún hafði brotið þau. Brotið þau mörg. Hún lét augun hvarfla um braggann. Þar hafði ýmislegt gerst sem ekki var samkvæmt boðum Guðs. Dapurleikinn hellist yfir hana og tárin safnast fyrir í augnkrókunum. En hún má ekki láta það eftir sér að gráta. Hún er að verða of sein. Það gengur ekki að koma volandi á fund ritstjóra með fyrstu blaðagreinina sína. Það er enginn Guð til Bókarkafli | Ásta Sigurðardóttir (1930-1971) var skapheit og ástríðufull listakona sem bjó yfir miklum hæfileikum, en ljós og skuggar tókust á um líf hennar og sál. Í bókinni Minn hlátur er sorg rekur Friðrika Benónýsdóttir ævisögu Ástu. Ljósmynd/Jón Kaldal Óhamingja Ljós og skuggar tókust á um líf Ástu og sál. Hin þekkta ljós- mynd Jóns Kaldal prýðir kápu bókarinnar um Ástu Sigurðardóttur. Hvar er næsta verkstæði? FINNA.is

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.