Morgunblaðið - 07.02.2022, Page 19
um Íslandsmeistarar árið sem Ax-
el gekk í okkar raðir, en árið áður
hafði hann einmitt átt stóran þátt í
fyrsta Íslandsmeistaratitli Kefla-
víkur.
En Axel var svo sannarlega
margt annað til lista lagt en að
spila körfubolta. Utan vallar var
hann hrókur alls fagnaðar, hafði
gaman af að segja sögur og aldrei
logn í kringum kappann. Hæfileik-
ar Axels á diplómatíska sviðinu
komu svo sannarlega í ljós þegar
við fórum fjórir félagarnir úr KR
að heimsækja liðsfélaga okkar
Anatolij Kovtoun, sem þá lá á
sjúkrahúsi í Sovétríkjunum. Ókum
við sem leið lá frá Lúxemborg alla
leið til Svarta hafsins. Ýmis vanda-
mál komu upp á leiðinni sem oftar
en ekki kom í hlut Axels að leysa
úr, sem hann gerði með sínum al-
kunnu persónutöfrum þó svo ekk-
ert væri sameiginlegt tungumálið.
Mikill meistari er að kveðja
okkur allt of snemma og við kveðj-
um góðan vin með sorg í hjarta.
Hugur okkar er hjá Guðnýju,
börnum og öðrum nákomnum og
sendum við þeim okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Hvíl í friði vinur.
F.h. liðsfélaga úr KR 1990,
Guðni Ó. Guðnason.
Í dag kveðjum við kæran sam-
ferðamann, Axel Nikulásson.
Axel var ötull í foreldrastarfi
Háteigsskóla og var skólanum
ómetanlegur í störfum sínum. Þar
skipti engu hvort um var að ræða
utanumhald um einstaka viðburði,
gjaldkerastörf eða þátttöku í
skólaráði, allt var unnið af ná-
kvæmni og fagmennsku.
Hann var sögumaður og þeir
eru ófáir fundirnir sem urðu lengri
en áætlað var þegar Axel fór að
segja frá. Hann var stemnings-
maður og húmoristi en líka með
keppnisskap og vildi skólanum allt
það besta. En umfram allt þá var
Axel mannvinur.
Háteigsskóli sendir fjölskyldu
Axels innilegar samúðarkveðjur.
Minning hans mun lifa með
okkur um ókomna tíð.
Fyrir hönd Háteigsskóla og for-
eldrafélags Háteigsskóla,
Arndís Steinþórsdóttir
skólastjóri.
Í dag kveðjum við stórvin okkar
Axel Arnar Nikulásson. Axel var
stór karakter í orðsins fyllstu
merkingu, öll lífsins verkefni léku í
höndunum á honum. Samvisku-
semi, jákvæðni, kraftur, einlægni
og óþrjótandi áhugi á fólki voru
hans aðaleinkenni. Axel var með
fróðleiksfúsari mönnum, vel les-
inn, þar sem mannkynssagan var
sérstakt áhugamál, frábær penni
og bloggari og ef Axel var ekki
með bók í hendi, þá saumaði hann
út, þar sem smæð nálarinnar var í
skemmtilegri og hrópandi mót-
sögn við stóru hendurnar. En
þannig var Axel; engin verkefni
voru of stór eða lítil. Axel kryddaði
lífið og verkefnin síðan með sínum
einstaka húmor og hnyttni, orð-
snilldin var mikil og hann vildi nú
oftast eiga síðasta orðið, ekki síst
þegar hann gerði garðinn frægan
á körfuboltaárunum.
„It is what it is“ svaraði Axel til
þegar veikindin bar á góma. Nagl-
inn Axel tókst á við það verkefni af
æðruleysi og þrautseigju. „Áfram
gakk“ voru einkunnarorð hans í
þessu langa og erfiða ferli.
Við vinirnir yljum okkur við
ríkulegan minningabanka, ára-
tuga vináttu og fíflagang, gest-
risni, gleðistundir og vinafundi
víða um heim.
Hugur okkar er hjá elsku Guð-
nýju, Fríðu, Agli og Bjargeyju,
móður og systkinum. Missir ykkar
er mikill.
Hvíl í friði kæri vinur.
Una og Reynir,
Kiddý og Eiríkur,
Hulda og Óli.
✝
Sigurður
Þórðarson
fæddist 11. janúar
1974 á Akranesi.
Hann lést á
sjúkrahóteli Land-
spítala 24. janúar
2022.
Foreldrar hans
eru Þórdís Sigurð-
ardóttir, f. 5. jan-
úar 1956, og Þórð-
ur Jóelsson, f. 29.
september 1955. Systir Sig-
urðar, sammæðra, er Vaka
Antonsdóttir, f. 1978. Maki
hennar er Björn Lindberg og
börn þeirra eru Ása, Saga og
Hulda. Sigurður ólst upp á
heimili móður sinnar og Guð-
eru Alvin, f. 10. september
2004, og Blædís Birta, f. 6.
apríl 2006.
Sigurður ólst upp í Reykja-
vík ef undanskilin eru árin
1983-1988 þegar hann bjó
ásamt fjölskyldu sinni í Árós-
um í Danmörku. Á barnsaldri
var Sigurður mikið hjá móð-
urafa og –ömmu á Akranesi.
Þar átti hann stóra fjölskyldu
og eignaðist góðan vinahóp.
Hann eignaðist einnig marga
vini í Árósum sem hann hélt
tengslum við ævilangt.
Sigurður lauk stúdentsprófi
frá Menntaskólanum við
Hamrahlíð árið 1995 og B.Sc.-
gráðu í fjármálaverkfræði frá
Háskólanum í Reykjavík árið
2017. Sigurður starfaði við
ýmislegt um ævina, seinni árin
einkum í byggingariðnaði.
Sigurður verður jarðsung-
inn frá Háteigskirkju í dag, 7.
febrúar 2022, og hefst athöfn-
in kl. 13.
bjargar Páls-
dóttur, f. 24. apríl
1956. Sonur Guð-
bjargar og uppeld-
isbróðir Sigurðar
er Héðinn Björns-
son, f. 1981. Maki
hans er Susanne
Lilja Buchardt og
börn þeirra eru
Elín og Astrid.
Sigurður kvænt-
ist hinn 14. júní
1998 Hlín Einarsdóttur, f.
1977. Foreldrar hennar voru
Einar Oddgeirsson, f. 1949, d.
2005, og Valgerður Kristín
Brand, f. 1947, d. 2008. Sig-
urður og Hlín skildu eftir tíu
ára hjónaband. Börn þeirra
Í dag kveð ég Sigga bróður
minn sem nú er fallinn frá. Í
æsku leit ég mjög mikið upp til
Sigga eða brósa eins og honum
líkaði best að vera titlaður. Mér
þótti hann svo klár og skemmti-
legur. Alltaf snyrtilegur og flott-
ur til fara. Ég var líka handviss
um að hann hlyti að vera svaka-
lega vinsæll. Ég man hvernig ég
baðaði mig í stolti í hvert sinn
sem ég gat komið því að að Siggi
væri bróðir minn.
Siggi var stútfullur af hæfi-
leikum. Hann var góður á bókina
og einbeittur. Hann gat setið yfir
námsbókum í margar nætur ef
stærðfræðipróf var á næsta leiti.
Krufið efnið og þekkinguna til
fullkomnunar. Hann var hand-
verksmaður. Gat málað og smíð-
að og gert við. Vandvirkni og ná-
kvæmni einkenndu vinnu hans.
Hann vildi að öll verk væru unn-
in samkvæmt þeim gæðastöðlum
sem hann hafði sett sjálfum sér.
Sigga þótti svo innilega vænt
um börnin sín tvö og fjölskyld-
una sína alla. Í eðli sínu var hann
trúr og trygglyndur og mat vin-
áttu mikils. Stundum bárust
óvæntar gjafir frá honum með
póstinum. Oftar en ekki einhver
vitleysa, skemmtileg vitleysa.
Hans gjafir áttu ekki að vera
praktískar eða hafa uppeldislegt
gildi. Þær áttu að gleðja.
Siggi trúði á hinn æðri mátt
og ég trúi því að nú hvíli hann í
sumarlandinu fallega. Með þess-
um fátæklegu orðum kveð ég
minn kæra stóra bróður sem
mér þótti svo afskaplega vænt
um.
Farvel elsku Siggi.
Þýtur í laufi, bálið brennur,
blærinn hvíslar sofðu rótt.
Hljóður í hafið röðull rennur,
roðnar og býður góða nótt.
(Tryggvi Þorsteinsson / Aldís Ragn-
arsdóttir)
Vaka systir.
Sem barni fannst mér gífur-
lega spennandi að fylgjast með
Sigga, svala stóra bróður mínum.
Hann var með herbergi á loftinu
sem var fullt af stórabróðurhlut-
um. Græjur og safn af plötum og
geisladiskum, rafmagnsgítar og
alls konar dót og snúrur frá bíl-
skúrsbandinu sem hann var í,
sverð og kylfur úr bardaga-
íþróttunum í bland við alls konar
handverkshluti sem hann hafði
gert af natni. Þetta var ævin-
týraland fyrir lítinn strák, en
hann Siggi hafði hlutina sína í
röð og reglu og vissi alltaf ef
maður hafði verið að stússa í
leyfisleysi í dótinu hans, þótt
hann tæki því yfirleitt vel.
Hann var mikill fjölskyldu-
maður og hann hafði mig með frá
pottormaaldri í leikjum með
stóru spennandi frændsystkin-
unum. Við áttum líka sameigin-
legt að eiga sterk tengsl við eldri
fjölskyldumeðlimi, en hann var
mikill ömmustrákur. Meðan ég
var oft óttalega gamaldags tókst
Sigga einhvern veginn áreynslu-
laust að láta það ganga hönd í
hönd, að halda upp á það gamla,
þjóðlega og fylgja alþjóðlegum
tískustraumum.
Eftir því sem við fullorðnuð-
umst þróaðist líf okkar hvors í
sína áttina, og hvor sínum megin
við Atlantshafið, en alltaf lifði
væntumþykja, sem aðeins þurfti
klukkutímaspjall hér og þar til
að halda lifandi. Við fylgjum
Sigga nú til grafar og ég sé hann
fyrir mér hinum megin, að leysa
hnúta í garni fyrir ömmu sína og
með litla hundinn sinn hann
Rebba sér við hlið, reytandi af
sér aulabrandarana.
Héðinn Björnsson.
Í dag kveð ég kæran frænda
og samferðamann. Sigurður
frændi eða Siggi eins og hann
var kallaður var jafn gamall og
ég – nánast upp á dag. Við lágum
saman einn dag á fæðingardeild-
inni, vorum skírð saman og
fermd saman. Margar góðar
minningar koma upp þar sem ég
fékk að kynna þennan framandi
og fallega frænda minn fyrir vin-
um mínum. Siggi bjó nefnilega
stóran hluta af sínum bernskuár-
um í Danmörku. Hann var
heimsmaður sem kom með mér í
skólann á Akranesi ef fríið hans
lenti á skóladegi hjá mér. Ég
fékk svo á móti tækifæri á að búa
hjá honum í Árósum og fara með
honum í skólann og kynnast æv-
intýralegu lífi stórborgarinnar
Beder. Siggi einfaldlega vissi
allt, gat allt og þekkti alla í sín-
um heimabæ og við hin nutum
góðs af því.
Það var einstaklega fallegur
þráður í honum Sigga, eitthvað
sem gerði hann svo hlýjan og
traustan. Hann þoldi ekki órétt-
læti eða óheiðarleika, var vinur
vina sinna og mikill fjölskyldu-
maður.
Siggi sýndi stuðning sinn
fyrstur manna og alltaf þegar
eitthvað kom upp. Þau eru ófá
skilaboðin frá honum þar sem
hann hefur lagt mikið í að finna
réttu orðin til þess að tjá gleði
sína fyrir mína hönd eða sorg.
Skilaboð sem var ætlað að
stappa í mig stálinu eða gleðjast
fyrir mína hönd. Það síðasta sem
hann sendi mér var afmæliskort
nú um miðjan janúar sem endar
Sigurður
Þórðarson
með þessum orðum: Þinn frændi
og næstum tvíburi.
Ég mun sakna þessa dugmikla
og fallega frænda mikið. Hann
var einn af þessum sem snerta
mann djúpt.
Líf vort er tónn; á hörpu ljóss og
húms
það hljómar skammt,
grætur og hlær við hliðskjálf tíma og
rúms,
en hljómar samt;
síðan einn dag, þann dag veit engin
spá,
er dauðaþögn og tónninn liðinn hjá.
Vinur í raun: hér hvílir þú svo hljótt,
en hjarta nær
ómar þitt líf sem lýsi gegnum nótt
einn logi skær.
Traust var þín hönd og trú við hlutverk
sitt,
en tónsins djúp var góða hjartað þitt.
Þökk sé þér vin: Við lifum lítil börn
og líðum burt.
Vor tónn er sár, við eigum enga vörn
- um allt er spurt.
Líf þitt er svar: á bak við skúr og skin
við skynjum þig, hinn liðna trygga vin.
(Árni J. Árnason)
Helga Viðarsdóttir.
Ég vil minnast Sigga frænda
míns. Ég var fimm ára þegar ég
man fyrst eftir okkar ferðum
saman. Við fórum í Laugardals-
laugina og eftir sund bauð hann
upp á pylsu og kókómjólk. Þegar
ég var unglingur áttum við okkar
fyrstu ferðir í keilu eða bíó og ég
gisti heima hjá honum. Sumarið
2018 stendur upp úr af okkar
ferðum eða ævintýrum en þá
sáum við cover-hljómsveit Iron
Maiden og fórum á Hard Rock
Cafe. Á afmælinu mínu fórum
við sunnudagsrúnt að Selja-
landsfossi, spiluðum mínígolf á
Slakka og enduðum í sundi og úti
að borða á Selfossi. Við topp-
uðum síðan sumarið á tónleikum
með Gun’s and Roses. Við höfð-
um sama góða tónlistarsmekk og
rokkið var okkar. Siggi var alltaf
góður og traustur vinur minn.
Hvíldu í friði elsku frændi.
Magnús Viðarsson.
MINNINGAR 19
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 7. FEBRÚAR 2022
✝
Sigurbjartur
Hafsteinn
Helgason, Siggi
eins og hann var
oftast kallaður,
fæddist 17. sept-
ember 1935. Hann
andaðist á líknar-
deild Landakots-
spítala 22. janúar
2022.
Foreldrar hans
voru Helgi Kristinn
Þorbjörnsson verkamaður, f.
1913, d. 1985, og Júlíana Laufey
Júlíusdóttir húsfreyja, f. 1913, d.
1986. Systkini Sigurbjarts eru
Guðlaugur Helgi, f. 1939, og
Katrín Guðrún, f. 1947.
Sigurbjartur var kvæntur
Guðrúnu Ásgerði Jónsdóttur
(Ásu), f. 1936, d. 2021. Foreldrar
hennar voru Jón Vilhelm Ás-
geirsson, f. 1912, d. 1992, og
Sigríður Friðfinnsdóttir, f. 1910,
d. 1997.
Börn Sigga og Ásu eru: 1)
Helgi, f. 1955, húsasmíðameist-
Siggi fæddist í Reykjavík og
bjó fyrstu árin á Ásvallagötu áð-
ur en hann fluttist sjö ára gam-
all í Stórholtið. Hann gekk í
Austurbæjarskóla og lauk gagn-
fræðaprófi þaðan. Hann nam
svo vélvirkjun hjá Landsmiðj-
unni. Sigurbjartur stundaði fót-
bolta lengi með knattspyrnu-
félaginu Val, m.a. með
svokölluðu „gullaldarliði“ fé-
lagsins. Hann var fyrirliði þess
þegar það fór í keppnisferð til
Þýskalands árið 1954 þar sem
Valsmenn unnu frækilega sigra,
öllum að óvörum.
Sigurbjartur kvæntist Ásu
hinn 23. október 1954 og bjuggu
þau lengst af í Álftamýri, en
fluttu í Mosfellsbæ í kringum
starfslok hans. Fyrstu starfsárin
var hann mest til sjós, m.a. á
Pétri Halldórssyni, Heklu, Esju
og Skúla Magnússyni. Hann
vann einnig við bílaviðgerðir hjá
SÍS, Keflavíkurverktökum, Ís-
taki og Jarðýtunni. Seinna var
hann dælumaður á olíuskipinu
Kyndli, og síðustu árin fyrir
starfslok vann hann fyrir Skelj-
ung á Reykjavíkurvelli.
Útför Sigurbjarts fer fram
frá Grensáskirkju í dag, 7. febr-
úar 2022. Útför hefur verið
seinkað vegna veðurs til kl. 15.
ari, kvæntur Krist-
ínu Bjarnadóttur.
Börn þeirra eru a)
Berglind, f. 1975, b)
Sigurbjartur Ingv-
ar, f. 1979, og c)
Guðlaug Helga, f.
1984. 2) Sigríður, f.
1958, d. 2014, lyfja-
tæknir. Fv. eig-
inmaður Finnbogi
Guðmundsson,
dóttir þeirra er a)
Margrét Erla, f. 1981. Dóttir
Sigríðar og Þráins Hafsteins-
sonar er b) Ásgerður, f. 1993. 3)
Jón Ásgeir, f. 1961. 4) Arnar, f.
1965, málari, sambýliskona
Unnur Malín Sigurðardóttir,
sonur þeirra er Unnsteinn
Magni, f. 2010. Sonur Arnars og
Salbjargar Engilbertsdóttur er
Andri Freyr, f. 1986, synir Arn-
ars og Maríu Dísar Cilia eru
Viktor, f. 1993, d. 2018, og Alex-
ander, f. 1995. Barnabarnabörn
Sigga eru átta talsins og hann
átti eitt langalangafabarn.
Elsku pabbi, nú ert þú kom-
inn á leiðarenda eftir erfið veik-
indi og sorg eftir að þú misstir
mömmu í júlí á síðasta ári. Nú
hefur þú sameinast henni og
Siggu systur sem dó árið 2014.
Það er margs að minnast þegar
litið er til baka og áttum við
fjölskyldan margar góðar
stundir með þér og mömmu.
Við fórum í veiði, ferðalög inn-
anlands og erlendis og einnig
áttum við margar góðar stundir
í sumarhúsinu á Grímsstöðum
sem við systkinin hjálpuðum
ykkur að byggja. Þar var oft
mikið fjör og margt brallað.
Alltaf varst þú til staðar þegar
á þurfti að halda; að mála fyrir
okkur, passa börnin og laga
bíla. Eitt árið var ég að byggja
fyrir austan og þú tókst að þér
að elda ofan í mannskapinn og
allir voru sammála um að mat-
urinn hjá þér væri frábær og
eins og á besta veitingahúsi.
Nú er komið að því að kveðja
og á ég eftir að sakna þín. Ég
kveð þig með sorg í hjarta og
ég veit að við sjáumst síðar.
Þinn sonur,
Helgi.
Elsku afi, nú ertu farinn frá
okkur eftir stutt en erfið veik-
indi. Ég vildi að það hefði verið
hægt að heimsækja þig oftar
og ég hugsa með söknuði til
þín.
Nú eruð þið amma bæði far-
in sem er svo erfitt að hugsa
um. Ekki fleiri heimsóknir í
Mosfellsbæinn og ekki fleiri
sögur um gamla tímann. En
þið lifið í minningunum og það
er af svo mörgum að taka.
Mörg voru jólaboðin í Álfta-
mýrinni, með rjúpum sem litla
telpan í mér hugsar enn til
með hryllingi, greyið fuglarnir
hugsaði ég alltaf. Og hafði sko
engan áhuga á að smakka, sér-
staklega ekki eftir að hafa séð
þær hanga úti á svölum vik-
urnar fyrir jól. Ég hafði miklu
meiri áhuga á hnetubrjótunum
og borðaði yfir mig af valhnet-
um, ásamt Machintosh. Þar var
líka til það stærsta safn að
teiknimyndasögum um Ástrík,
Fjögur fræknu og fleiri ágæta
kappa sem ég gat legið yfir
tímunum saman. Á unglingsár-
unum eyddi ég miklum tíma
hjá ykkur og horfðum við á
bíómyndir saman; ég man allt-
af að þú keyptir stóra dollu af
Haribo-hlaupi, svona í Costco-
stíl og var hún yfirleitt vel á
veg komin í lok kvöldsins.
Þegar þú varst á Kyndli var
það algjör ævintýraheimur að
fá að fara um borð og skoða
skipið og láta sig dreyma um
alla þessa fjarlægu staði sem þú
værir að fara til. Í einni af þess-
um ferðum til þessara dásam-
legu fjarlægu staða komstu með
þá bestu afmælisgjöf sem 11
ára stúlka gat hugsað sér.
Myndavél, og það fyrir alvöru
filmur með flasskubbi. Það
flottasta í bænum bara og
næstu ár var mikið tekið af
myndum, þó aðallega af litlu
systur og hundinum.
Tæknin var nú kannski ekki
þín sterkasta hlið. Og síðustu
ár voru ófá símtöl við þig og
nágrannann um hvernig í
ósköpunum ætti að kveikja á
fréttunum í þessu blessaða
Apple TV sem ömmu hafði
fundist svo hrikalega sniðugt.
Og mér er hugsað til allra
þessara símtala, þó sérstaklega
eins sem fær mig alltaf til að
hlæja. Þú hafðir fengið nóg og
ákvaðst að RÚV væri bara allt-
af bilað og ætlaðir að hringja í
símafyrirtækið til að segja upp
þessari leiðindastöð. Ég hafði
mikið fyrir að sannfæra þig um
að það væri ekki hægt að segja
upp RÚV og að aumingja
starfsfólkið hjá símafyrirtæk-
inu væri alsaklaust af öllum
þessum tæknilegu skakkaföll-
um.
Elsku afi minn, hvað ég
myndi óska þess að fá svona
símtal í kvöld og þurfa að
skjótast upp í Mosfellsbæ til að
kveikja á kvöldfréttunum fyrir
þig.
Þitt barnabarn
Berglind Helgadóttir.
Sigurbjartur Haf-
steinn Helgason
- Fleiri minningargreinar
um Axel Arnar Nikulás-
son bíða birtingar og munu
birtast í blaðinu næstu daga.
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar,
tengdamóðir, amma og langamma,
ÞORBJÖRG ERNA ÓSKARSDÓTTIR
frá Brú í Biskupstungum,
síðast til heimilis á Hrafnistu,
Sléttuvegi,
lést á heimili sínu 4. febrúar.
Jarðarför auglýst síðar.
Fyrir hönd aðstandenda,
Steinn S. Jóhannesson