Morgunblaðið - 07.02.2022, Page 12
12 FRÉTTIR
Viðskipti | Atvinnulíf
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 7. FEBRÚAR 2022
7. febrúar 2022
Gengi Kaup Sala Mið
Dollari 124.56
Sterlingspund 168.81
Kanadadalur 97.92
Dönsk króna 19.185
Norsk króna 14.211
Sænsk króna 13.67
Svissn. franki 135.14
Japanskt jen 1.0841
SDR 175.12
Evra 142.8
Meðalgengi/Viðskiptavog þröng 178.5401
FRÉTTASKÝRING
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Sú lækkun sem varð á hlutabréfa-
verði Meta, móðurfélags Facebook, í
síðustu viku er af slíkri stærðar-
gráðu að nota þarf þjóðhag-
fræðilegan samanburð til að les-
endur átti sig á hversu mikið fór í
súginn.
Við opnun markaða á fimmtudag
hrundi hlutabréfaverð félagsins um
rösklega 26% og eins og hendi væri
veifað lækkaði markaðsvirði Meta
um ríflega 251 milljarð dala. Jafnast
tapið á við landsframleiðslu evr-
ópskra milljónaþjóða á borð við
Tékkland og Portúgal, eða hér um bil
ellefufalda landsframleiðslu Íslands.
Facebook er enn mjög verðmætt
fyrirtæki og er núna metið á um það
bil 660 milljarða dala en frá áramót-
um hefur virði félagsins rýrnað um
nærri 30%. Skellurinn á fimmtudag
var svo stór að aldrei áður í sögu
bandaríska hlutabréfamarkaðarins
hefur markaðsverð fyrirtækis lækk-
að um jafnháa upphæð á einum degi.
Ástæðan fyrir lækkuninni var að
nýjasta rekstrarspá félagsins gerir
ráð fyrir að á komandi ársfjórðungi
muni tekjur Meta hækka minna en
áður hafði verið reiknað með. Þá
greindi Meta frá að í fyrsta skipti í
sögu Facebook fækkaði virkum not-
endum samfélagsmiðilsins á milli
ársfjórðunga. Fækkar notendum að-
eins um brot úr prósenti; úr 1,93
milljörðum niður í 1,929 milljarða en
það dugði til að skjóta hluthöfum
skelk í bringu enda byggist virði
Meta að miklu leyti á getu sam-
félagsmiðlaveldisins til að vaxa. Gæti
fækkunin verið til marks um að Fa-
cebook hafi náð hámarksstærð á
heimsvísu og að frekari vöxtur fáist
ekki nema með mikilli fyrirhöfn.
Notendum systurforritanna In-
stagram, WhatsApp og Messenger
fjölgaði lítillega á milli fjórðunga og
þegar allt er talið notar næstum því
annar hver jarðarbúi einhver af for-
ritum Meta í mánuði hverjum, því
samtals nær fyrirtækið til 3,59 millj-
arða manna á heimsvísu.
Veiklaðir á auglýsingamarkaði
Facebook kennir tæknibreyt-
ingum hjá Apple um að tekjuhorf-
urnar eru ekki eins góðar og til stóð.
Apple, sem er leiðandi á snjallsíma-
markaði, gerði breytingar á stýri-
kerfi sínu og notendastillingum síð-
asta vor í þá veru að torvelda þriðju
aðilum að vakta og safna gögnum um
net- og snjalltækjanotkun fólks.
Gerði breytingin það að verkum að
erfiðara varð fyrir samfélagsmiðla
Meta að sníða auglýsingabirtingar
að hverjum notanda og mæla árang-
ur auglýsingaherferða. Áætlar fyrir-
tækið að af þeim sökum verði tekjur
Facebook af auglýsingasölu á þessu
ári um það bil 10 milljörðum dala
lægri en þær hefðu annars verið.
Til að bæta gráu ofan á svart segir
Facebook að hátt verðbólgustig í
Bandaríkjunum og á öðrum lykil-
mörkuðum og kostnaðarsamar rask-
anir á vöru- og hráefnisflutningum
hafi þrengt að auglýsendum svo að
þeir hafa úr minna að moða þegar
kemur að auglýsingakaupum.
Má heldur ekki gleyma að þótt
Facebook hafi yfirburðastöðu á sam-
félagsmiðlamarkaði þá sækja keppi-
nautar að úr öllum áttum. Þar fer
TikTok fremst í flokki en samfélags-
miðlar Meta þurfa líka að keppa við
hvers kyns afþreyingarmiðla um at-
hygli almennings:
„Fólk hefur úr ótal kostum að
velja og forrit á borð við TikTok hafa
aukið vinsældir sínar hratt,“ sagði
Mark Zuckerberg, stofnandi Fa-
cebook og forstjóri Meta, í tilkynn-
ingu frá félaginu.
Notendum TikTok fjölgaði um
tæplega 60% árið 2020 en rúmlega
40% í fyrra og áætlað er að núna noti
um einn milljarður manna kínverska
myndskeiðaforritið í mánuði hverj-
um.
Virkar ekki beinlínis
traustvekjandi
Sú spurning sem brennur á vörum
fjárfesta er hvort Meta geti snúið
vörn í sókn. Hafa gagnrýnendur ver-
ið duglegir að benda á að Facebook
virðist fara hrakandi og glímir
heimsins vinsælasti samfélagsmiðill
við ímyndar- og upplifunarvanda.
Facebook hefur þannig ítrekað gerst
uppvíst að því að hafa neikvæð áhrif
á samfélagsumræðuna bæði með rit-
stjórnar- og þöggunartilburðum og
með því að espa notendur upp og
kynda undir rifrildum. Eru margir
komnir með upp í kok af Facebook
og Zuckerberg sjálfum þó þeir haldi
áfram að nota miðla Meta með sem-
ingi.
Tímaritið the Economist rýndi í
ímyndarvanda Facebook í október
síðastliðnum, skömmu eftir að Fran-
ces Haugen, fyrrverandi starfs-
maður samfélagsmiðilsins, ljóstraði
upp um hvernig starfshættir Face-
book mögnuðu upp alls kyns alvarleg
samfélagsleg vandamál. Má færa
nokkuð sterk rök fyrir því að Fa-
cebook og aðrir samfélagsmiðlar
Meta hafi t.d. átt stóran þátt í að ýta
undir öfgar í stjórnmálaumræðu
vestrænna lýðræðisríkja, og að þeir
auki á sjálfsmyndarvanda unglinga
með öllu því tjóni sem því fylgir.
Í hvert skiptið sem undrabarnið
Zuckerberg stígur fram fyrir
myndavélarnar og reynir að verja
fyrirtækið er hann allt annað en
traustvekjandi og ekki að ástæðu-
lausu að netverjar henda gaman að
milljarðamæringnum og líkja honum
ýmist við vélmenni, geimveru, eða
vonda karlinn í bíómynd.
Mun sýndarveruleikinn
freista fjárfesta?
Í áhugaverðri grein í The Econom-
ist fyrr í þessum mánuði er jafnframt
bent á að viðsnúningurinn hjá Fa-
cebook kunni að marka kaflaskil í
viðhorfum fjárfesta til stóru banda-
rísku tæknifyrirtækjanna. Fram til
þessa hefur sýn markaðarins verið
nokkurn veginn á þá leið að engin
mörk séu á ævintýralegri vaxtargetu
fyrirtækja eins og Meta, Microsoft,
Apple, Amazon og Alphabet og er nú
svo komið að bara þessi fimm fyrir-
tæki mynda samtals 20% af virði
S&P 500-vísitölunnar. Sýna versn-
andi horfur Meta að getu þessara
fyrirtækja til að vaxa og skapa tekjur
eru takmörk sett og að yfirburða-
staða þeirra er ekki slík að þau geti
haldið keppinautum í skefjum að ei-
lífu.
Er það helst á sviði sýndarveru-
leika sem Meta gæti mögulega leitt
meiriháttar vöxt af þeirri gerð sem
fjárfesta dreymir um. Fyrirtækið
hyggst verja um 10 milljörðum dala
árlega í að þróa nýjan vettvang í
sýndarheimi og telja bjartsýnustu
markaðsgreinendur að þegar fram
líða stundir gæti sýndarveruleiki
orðið að glænýju hagkerfi sem yrði
mörg þúsund milljarða dala virði.
Vandinn er sá að jafnvel ef Meta
ver tugum milljarða dala í sýndar-
veruleikaverkefnið þá virðist óra-
langt í að tæknin nái almennilegri
fótfestu og enn lengra í að sýndar-
heimurinn skili Meta einhverjum
krónum í kassann. Þangað til þarf
fyrirtæki Zuckerbergs að höfða til
hlutabréfamarkaðarins með þeim
vörum sem fyrirtækið reiðir sig á í
dag.
Risanum skrikaði fótur
AFP
Vantraust Mark Zuckerberg hefur ekki þótt sérstaklega sannfærandi þegar hann hefur reynt að verja fyrirtæki
sitt. Eftir margra ára vöxt er eins og Facebook, og Meta, hafi rekið sig á þak og margþættur vandi blasir við.
- Hrun hlutabréfaverðs Meta á fimmtudag var það mesta í sögu bandaríska hlutabréfamarkaðarins
- Samfélagsmiðlaveldið glímir við margþættan vanda og fjárfestar guggnuðu þegar hægði á vexti
Viðskiptaráðuneyti Kína gagnrýndi
bandarísk stjórnvöld á sunnudag
fyrir að framlengja tolla á sólar-
orkubúnað sem lagðir voru á í for-
setatíð Donalds Trumps. Joe Biden
ákvað á föstudag að halda tollunum
óbreyttum en þeir fela í sér að lagt
er 15% viðbótargjald á kínverskar
sólarsellur.
Segja kínversk stjórnvöld að toll-
arnir hafi bjagandi áhrif á alþjóða-
viðskipti og hægi á þróun og inn-
leiðingu endurnýjanlegra
orkugjafa.
Ef ákvörðun Bidens helst
óbreytt munu tollarnir gilda áfram
í fjögur ár hið minnsta. Biden gerði
þó þá breytingu á tollum forvera
síns að undanskilja þá gerð sólar-
sella sem hafa raforkumyndandi
þynnur á báðum hliðum sellunnar,
en þess háttar sellur eru notaðar af
stórum bandarískum sólarorkuver-
um.
Kína er í dag heimsins stærsti
framleiðandi sólarorkubúnaðar en í
ljósi verndarstefnu annarra þjóða
og aukinnar eftirspurnar innan-
lands hafa kínverskir sólarsellu-
framleiðendur beint kröftum sínum
í vaxandi mæli að sínum heima-
markaði. Að sögn Reuters juku
Kínverjar sólarorkuframleiðslu
sína um 54,9 gígavött á síðasta ári
og er heildarframleiðslan nú 306,6
gígavött. Stefna kínversk stjórn-
völd að því að í lok þessa áratugar
muni vind- og sólarorkuver lands-
ins framleiða samanlagt 1.200 gíga-
vött af raforku. ai@mbl.is
AFP
Straumur Sólarorkuver í Kaliforníu.
Kínverjar segja verndar-
tolla hægja á orkuskiptum
- Biden framlengdi tolla Trumps á sólarsellur um fjögur ár