Faxi - 01.12.2021, Page 18
Saga húsanna
18 FAXI
Þau tímamót urðu fyrir skemmstu að
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja flutti
í nýtt og glæsilegt húsnæði að Flugvöllum.
Má segja að það hafi verið endahnútur á
langri bið enda gamla stöðin við Hringbraut
löngu sprungin og margstöguð og bætt með
lausum gámaeiningum og skúrum. En það
má líka segja að það sem við köllum nú
,,gömlu slökkvistöðina“ hafi einnig verið
tímamótabreyting á högum Slökkviliðs
Keflavíkur eins og liðið nefndist þá, þegar
sú stöð var tekin í notkun sumarið 1967.
Í ört vaxandi bæjarfélagi sem Keflavík var
eftir miðja síðustu öld var brýn þörf fyrir gott
og öflugt slökkvilið. Fyrsti vísir að slökkviliði
má rekja allt aftur til ársins 1908 Þegar gamla
bakaríið brann til kaldrar kola í janúar það
ár. Þá var búnaður allur hinn fátæklegasti.
Í þeim bruna má þakka björgina enskum
skútusjómönnum sem lágu út á víkinni og
urðu þess áskynja að stórbruni var í þorpinu,
réru í land og gengu vasklega fram í aðstoð
sinni við heimamenn. Eftir þann bruna var
farið að huga að búnaði fyrir slökkviliðið.
Með tilskipun Stjórnaráðs Íslands árið 1911
bar kauptúnum með fleiri en 300 íbúa að
halda uppi brunavörnum í sínu plássi. Var þá
byggður kofi undir búnaðinn við Brunnstíg.
Það mikilvægasta í eigu Brunaliðsins, eins og
það nefndist, var stigi og skjólur. Slökkvilið
Keflavíkur var stofnað árið 1913.
Hengja þurfti slöngurnar til þerris
Síðar er búið um liðið í húsnæði bæjarins við
Hafnargötu 15. Í því húsi var auk slökkvi-
liðsins, Rafveita Keflavíkur og lögreglan með
sína aðstöðu. Einhverjir kunna enn að reka
minnið til turnsins á gömlu slökkvistöðinni
við Hafnargötu en turn á slökkvistöð gegndi
afar mikilvægu hlutverki. Allar slöngur þess
tíma voru úr hampi og þurfti að hengja þær
upp til þerris eftir notkun, annars var hætta á
að þær fúnuðu og eyðilögðust.
Árið 1957 var farið að þrengja verulega að
starfsemi lögreglunnar og rafveitunnar við
Hafnargötu. Brunaliðið lendir á hrakhólum
með búnað sinn en fékk til skamms tíma inni
í húsi Olíusamlags Keflavíkur, í þvottahúsi
Sérleyfisbifreiða Keflavíkur og síðar í áhalda-
húsi Keflavíkur.
Það voru því mikil tímamót þegar byggð
var ný slökkvistöð, hönnuð frá grunni með
þarfir nútímaslökkviliðs, eins og það var
orðað, árið 1967. Nýju slökkvistöðinni var
valinn staður við gatnamót Hringbrautar og
Flugvallarvegar, á bæjarmörkum Keflavíkur
og Njarðvíkur eins og þau voru í þá daga.
Ekkert var til sparað við bygginguna. Kristján
Björnsson sem var við nám í byggingatækni-
fræði í Danmörku teiknaði bygginguna en
hönnun hússins var prófverkefni Kristjáns
í háskólanum. Einnig kom Egill Jónsson
byggingafulltrúi Keflavíkur að hönnuninni.
Húsið var allt hið glæsilegasta. Þrjár stórar
hurðir voru að bílageymslunni sem taldist
vera um 260 fermetrar en bílakostur liðsins
var aðeins þrjár bifreiðar á þessum tíma. Auk
þess var varðstofa, skrifstofur og aðstaða, um
65 fermetrar á tveimur hæðum.
Ræst út með brunalúðrum
Slökkviliðið var svokallað útkallslið á þessum
árum. Engin föst viðvera var né vaktir og
liðið kallað út ef bruni varð, lengst af með
,,brunalúðrinum“ sem var ræstur þegar kalla
þurfti menn út og síðar með símhringingum.
Var sá háttur hafður á þar til fastar vaktir
komust á árið 1988. Þá höfðu líka orðið
miklar breytingar á störfum liðsins, fyrst með
stofnun Brunavarna Suðurnesja árið 1974, en
þar sameinuðust Keflavík, Njarðvík, Garður
og Vatnsleysustrandarhreppur um stofnun
slökkviliðs.
Árið 1985 var ráðist í stækkun
slökkvistöðvarinnar en þá var bílageymsla
stækkuð um nær helming auk þess sem meira
pláss fékkst fyrir starfsmenn og tækjabúnað.
Hægt og bítandi hafa verkefni slökkviliðsins
aukist og starfsemin vaxið. Stöðugt var bætt
við bráðabirgðalausnum með lausum gáma-
einingum.
Slökkviliðið hefur kvatt Hringbrautina
eftir áratuga samleið. Liðið er nú komið í
glæsilegt húsnæði og því miður virðist fátt
bíða gömlu stöðvarinnar en að verða rifin,
þó að tímabundið hafi verið fundið hlutverk
fyrir hana, nú síðast sem æfingahúsnæði fyrir
Golfklúbb Suðurnesja og nýstofnað Borðtenn-
isfélag Reykjanesbæjar.
Samantekt Kristján Jóhannsson
Glæsileg slökkvistöð Brunavarna Suðurnesja við Flugvallarveg. Byggingin, sem er 2252 fermetrar að stærð,
rúmar alla þá nauðsynlegu aðstöðu sem slökkvilið að þessari stærðargráðu þarf auk þess sem gott aðgengi
er til allra sveitarfélaga á Suðurnesjum Ljósm. Svanhildur Eiríks
Slökkvistöðin á mótum Keflavíkur og Njarðvíkur var hið glæsilegasta þegar hún var tekin í notkun árið
1967. Ljósm. Byggðasafn Suðurnesja
Rafveita, lögregla og slökkvilið deildu húsnæði við
Hafnargötu í Keflavík um skeið. Ljósmyndin er úr
Faxa, 100 ára afmælisriti Brunavarna Suðurnesja, 2.
tbl. 73. árg. 1. okt. 2013.
Slökkvistöðin við Hringbraut