Skessuhorn


Skessuhorn - 26.01.2022, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 26.01.2022, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 26. JANÚAR 202218 Það er þekkt að á tímum samdráttar í efnahagslífi lifnar frumvöðlastarf gjarnan við. Nú á tímum heimsfar- aldurs kórónaveiru hefur allskyns sprotastarf blómstrað og dreifileiðir sömuleiðis verið að breytast. Til að mynda hefur vefverslun aldrei auk- ist jafn hratt og nú síðustu tvö árin. En það er fleira sem ýtt getur und- ir frjóa hugsun. Umhverfismál eru mörgum ofarlega í huga og sífellt er verið að finna upp nýjar leiðir til að minnka það fótspor sem mann- fólkið er að skilja eftir sig. Mark- mið allra hlýtur jú að vera að við skilum jörðinni hreinni til afkom- enda okkar, en við tókum við henni. Meðal nýrra sprotafyrirtækja hér á landi er Silfraberg. Það var stofn- að á fyrsta kóvidárinu af tveimur fé- lögum, þeim Tryggva Marinóssyni og Björgúlfi Bóassyni. Tryggvi er frá Hvítanesi í Hvalfjarðarsveit en Björgúlfur er Norðfirðingur sem nú er búsettur á Akranesi. Sérhæf- ing Silfrabergs er ráðgjöf og sala á umhverfisvænum umbúðalausnum. Fyrirtækjum er boðin ráðgjöf til að minnka notkun plasts sem vissulega er ekki umhverfisvænt og bjóða umhverfisvænni lausnir. Þrátt fyrir stutta rekstrarsögu hefur Silfraberg þegar náð miklum árangri. Þá er framundan hjá fyrirtækinu að hvetja bændur til að nota endur- unnið plast til að klæða heyrúllur í. Skessuhorn ræddi við Tryggva Marinósson um fyrirtæki þeirra fé- laga, en þegar viðtalið fór fram var félagi hans Björgúlfur í túr á togara. Ískyggileg þróun En hvers vegna fyrirtæki á þessu sviði; umhverfisvænar umbúða- lausnir? „Upprunann má rekja til löngunar okkar eigendanna til að reka eigið fyrirtæki sem jafnframt hefði jákvæð umhverfisleg áhrif í för með sér. Rannsóknir hafa sýnt að plastmengun í höfum heimsins verði í tonnum talið meiri árið 2050 en allur sá fiskur sem höfin geyma. Ennfremur er áætlað að árið 2050 verði 99% af öllum tegundum sjó- fugla með einhverskonar plast í maganum. Vandamálið er því stórt og við þurfum að grípa til aðgerða. Við þurfum að lágmarka plastnotk- un eins og kostur er og það er okkar markmið, að taka þátt í snúa þessari þróun við.“ Bretar eru skrefi á undan Það að hefja rekstur fyrirtækis í byrjun heimsfaraldurs hefur vissu- lega haft sínar áskoranir í för með sér, en einnig tækifæri. „Viðbrögð markaðarins hafa engu að síður far- ið fram úr okkar væntingum. Erf- iðast var vegna faraldursins að fá að koma í heimsóknir til fyrir- tækja sem mörg hver lokuðu alveg á heimsóknir utanaðkomandi að- ila, og vildu gæta sem mest og best að sóttvörnum. Smám saman lag- aðist það og við fengum að koma og voru viðtökurnar góðar. Við nýttum hins vegar tímann vel og lærðum úti í Bretlandi og feng- um þjálfun í að ráðleggja fyrirtækj- um hvernig spara megi plastnotk- un í rekstri. Bretar hafa áratuga- reynslu á því sviði. Löggjöfin þar er líka miklu ákveðnari en hér, en í Bretlandi skulu fyrirtæki nota að minnsta kosti 30% endurunnið plast. Enn sem komið er erum við Íslendingar því aftarlega í þessum málum, en okkar markmið er vissu- lega að eiga þátt í að breyta því. Við bjóðum ráðgjöf, flytjum inn vél- ar og ýmis konar pökkunarplast, m.a. 30% endurunnið og plast sem hefur þá eiginleika að það strekk- ist mjög mikið sem leiðir til þess að fyrirtæki nota mun minna plast en áður en viðheldur þó og jafn- vel eykur stöðugleika þeirra bretta sem verið er að vefja. Nýjasta vara Silfrabergs er svo 100% endur- unnið rúlluplast fyrir bændur sem er okkur mikið hjartans mál því við viljum leggja okkar lóð á vogarskál- ina og aðstoða íslenska bændur við að minnka kolefnisfótspor sitt,“ segir Tryggvi. Besta verkferla Árið í fyrra var fyrsta heila rekstr- arárið hjá Silfrabergi og nú þegar eru á meðal viðskiptavina mörg af öflugustu fyrirtækjum landsins. Má þar nefna IKEA, Húsasmiðjan og Byko en ekki síður fjölmörg sjávar- útvegsfyrirtæki. Tryggvi bendir á að mikil tækifæri hafi legið í að leiðbeina útgerðar- og fiskvinnslu- fyrirtækjum að minnka notkun á plasti og umbúðum í fiskvinnsl- unni, en fram að þessu hefur ein- göngu óendurunnið plast verið notað. „Fólk er almennt að verða meira meðvitað um umhverfið og að við þurfum að standa okkur bet- ur. Þess vegna hafa fyrirtæki tekið afar jákvætt í þessa nálgun sem við erum að bjóða. Vaxtarkúrfan í fyrir- tækinu okkar hefur því verið býsna brött enda höfum við náð að að- stoða viðskiptavini okkar við að ná mælanlegum árangri í umhverfis- málum sem nemur 50,8 tonnum minni plastnotkun á einu ári og þar með lækka kolefnisspor þeirra um 132 tonn. Af þessu erum við auð- vitað afar stoltir og þessi árangur hvetur okkur til að gera enn betur.“ Tryggvi segir að salan fari í raun þannig fram að þeir fá að koma inn í fyrirtækin og veita ráðgjöf. „Þetta snýst um að besta ákveðna ferla við meðhöndlun og pökkun á vöru. Hér á landi eru til dæmis um það bil fjórar milljónir vörubretta plast- aðar á ári. Vörunum er pakkað með því móti að plastfilma er strengd utan um þær. Við höfum sýnt fyrir- tækjunum fram á að bæði má spara plastið sem notað er all verulega og ekki síður að nota umhverfis- vænna plast sem er framleitt út 30% endurunnu plasti. Með því að styðjast við slíka bestun höfum við hjálpað fyrirtækjunum að minnka plastfilmun á vörubrettum um að meðaltali 53%.“ Einkum þrjá leiðir Tryggvi bendir á að fyrirtæki geti minnkað plastnotkun sína með ýmsum hætti. Blaðamaður fær hann til að fara yfir þær helstu sem hægt er að fara til að fyrirtæki geti talið sig grænni. „Í fyrsta lagi er mikilvægt að rýna núverandi verkferla, greina plast- notkun og hvar er hægt að gera betur. Oft á tíðum má ná ótrúleg- um árangri með að rýna ferla og besta þá í kjölfarið. Breyta efnis- notkun og nota minna, þ.e. nota t.d. þynnri filmur sem hafa þó betri virkni en áður hefur þekkst. Í öðru lagi má snúa sér að endurunnum plastvörum og þannig ýta undir hringrásarhagkerfið sem er mjög mikilvægt. Uppistaða hráefna í plasti er olía og því mikið fengið með því að nota endurunnar plast- vörur í stað þeirra sem framleidd- ar eru úr frumefnum. Eftir því sem við köfum dýpra í þessi mál verð- um við stöðugt meira fylgjandi því að fyrirtæki noti endurunnið plast. Loks í þriðja lagi má nota plastefni sem brotnar fyrr niður í umhverf- inu lendi það í því. Þekktasta dæm- ið þessu tengt eru t.d. pokarnir sem við þekkjum öll úr stórmörkuð- um sem framleiddir eru úr efnum sem eiga að brotna fyrr niður. Þetta leysir þó ekki vandann við að draga úr notkun á plasti né heldur ýtir þetta undir hringrásarhagkerfið. Magn þess sem við hendum er hið sama og þessir pokar eru sjaldnast endurvinnanlegir,“ segir Tryggvi. Háleit markmið „Við uppbyggingu fyrirtækis- ins höfum við sett okkur ákveðin markmið sem lúta að umhverfisleg- um áhrifum. Á okkar fyrsta starfs- ári tókst okkur eins og áður segir að minnka plastnotkun viðskipta- vina okkar um rúm 50 tonn á árs- grundvelli. Á árinu 2022 stefnum við að því að minnka plastnotkun þeirra um 70 tonn og á árinu 2023 um 100 tonn. Á þremur árum eig- um við því að hafa stuðlað að því að uppsafnaður sparnaður í plastnotk- un verði um 220 tonn, ef áætlanir ganga eftir. Þannig getum við lækk- að kolefnissfótspor viðskiptavina okkar um 572 tonn. Í þessu liggur ástríða okkar.“ Bændum boðið endurunnið plast Sjálfur er Tryggvi fæddur og alinn upp í sveit, á Hvítanesi í Skilmanna- hreppi. Hann hefur um árabil búið og starfað í höfuðborginni, eink- um á sviði fjármála og rekstrar. Var meðal annars fjármálastjóri Creditinfo í níu ár. Hann segir að inn í Silfraberg komi hann með þekkingu í rekstri en Björgúlfur viðskiptafélagi hans með verklega þáttinn úr vélstjórn og fiskvinnslu. Jón Þór yngsti bróðir Tryggva er bóndi á Hvítanesi og á síðustu árum hefur hann byggt þar upp myndar- legt nautaeldisbú ásamt foreldrum þeirra. Tryggvi segist njóta þess að fá að hjálpa bróður sínum í bú- rekstrinum þegar tækifæri gefist. „Við erum góðir vinir bræðurn- ir og reynum eftir megni að hjálpa hvor öðrum. Mér finnst fátt meira nærandi en að hoppa upp í trakt- or og hjálpa til þegar annatími er í sveitinni. Jón Þór hefur tekið þátt í tilraunum með mér og pakkað heyi með endurunnu plasti sem við flytjum inn frá Póllandi og erum að hefja prófanir og kynningu á hér á landi. Framleiðandinn af þessu endurunna rúlluplasti er pólskt fyr- irtæki, en þessi nýja gerð rúlluplasts er afrakstur áralangrar þróunar og rannsókna þar í landi. Þeir hafa náð hvað lengst á heimsvísu í þró- un og markaðssetningu á plasti sem þjónar hringrásarhagkerfinu eins vel og kostur er, þ.e. 100% endur- unnið. Nánast allt plast sem bænd- ur nota í dag hér á landi er unnið úr frumefnum og til að framleiða eitt kíló af slíku plasti verða til 2,6 kíló af kolefnisútblæstri. Endurunnið plast, eins og pólska fyrirtækið hef- ur þróað, lækkar kolefnisfótsporið um allt að 79%. Þá erum við komn- ir í gott samtal við Landbúnaðarhá- skóla Íslands um rannsóknir á gæð- um og styrk endurunna plastsins og eru starfmenn þar mjög áhuga- samir um að koma að því verk- efni með okkur. Bændur þurfa að- stoð til að geta rekið bú sín með umhverfisvænni hætti en þeir geta gert í dag og við vonumst til að fá jafn jákvæðar viðtökur hjá þeim og við höfum fengið hjá til dæm- is sjávarútvegsfyrirtækjunum,“ seg- ir Tryggvi. Heyi var pakkað í fyrra- sumar á Hvítanesi með endurunna plastinu, það fer síðan til frekari prófana næsta sumar, en sumarið 2023 er stefnan sett á sölu á full- um krafti til íslenskra bænda. Að- spurður segir Tryggvi að verðið á endurunna heyrúlluplastinu verði sambærilegt og á því sem nú er á markaðnum. Nánar má lesa um Silfraberg á heimasíðu fyrirtækisins; silfraberg. is mm Umhverfisvænar umbúðalausnir eru verkefni Silfrabergs Ráðgjöf og sala á endurunnu plasti til atvinnulífsins Tryggvi Marinósson stendur hér við heyrúllu í Hvítanesi sem pakkað var með 100% endurunnu plasti síðasta sumar. Björgúlfur Bóasson viðskiptafélagi Tryggva með dóttur sína Sigrúnu Maríu. Bræðurnir Jón Þór bóndi á Hvítanesi og Tryggvi eru góðir vinir og hjálpa hvor öðrum eftir megni.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.