Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.06.2022, Blaðsíða 36

Læknablaðið - 01.06.2022, Blaðsíða 36
304 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 R A N N S Ó K N síðasta, hvort tveggja mun hærri reykingatölur en í almennu þýði Íslendinga. Okkur er ekki kunnugt um erlendar rannsóknir sem skoðað hafa sérstaklega breytingar á nýgengi þessara aðgerða, né heldur hugsanleg áhrif minnkandi reykinga. Ljóst er að frekari rannsóknir þarf til að skoða samband reykinga og loftbrjósts, helst í stærra sjúklingaþýði en það sem hægt er að rannsaka hér á landi. Tíðni enduraðgerða vegna endurtekins loftbrjósts reyndist vera 6%, en 7% þegar einungis var litið til sjúklinga eftir brjósthols- sjáraðgerð, sem voru 77% aðgerðanna. Þessar tíðnitölur eru áskor- un, ekki síst eftir brjóstholssjáraðgerðir, þótt þær séu svipaðar og í erlendum rannsóknum þar sem tíðnin er ofast á bilinu 4-8%.17,22,23 Helmingur tilfella af endurteknu loftbrjóstunum komu á fyrstu 16 mánuðunum frá aðgerð, sem svipar til erlendra rannsókna.17,23,24 Auk þess sýnir rannsókn okkar að nær öll endurteknu loftbrjóstin sem kröfðust enduraðgerðar greindust á fyrstu fjórum árunum frá aðgerð. Þessar niðurstöður benda til þess að ekki sé þörf fyrir langtímaeftirlit einkennalausra sjúklinga með frumkomið sjálf- sprottið loftbrjóst, enda tíðkast slíkt langtímaeftirlit hvorki hér á landi né erlendis. Aðhvarfsgreining sýndi að yngri sjúklingar voru líklegri til að gangast undir enduraðgerðar vegna síðkomins loftbrjósts. Svip- uðum niðurstöðum hefur verið lýst erlendis.3,6-10,17,22,25 Í rannsókn Walker og félaga kom einnig í ljós að sjúklingar sem ekki hættu að reykja voru í fjórfalt meiri áhættu á endurteknu loftbrjósti en þeir sem náðu að hætta reykingum.24 Nákvæmar upplýsingar um reyk- ingar lágu ekki fyrir í okkar rannsókn og því ekki hægt að sann- reyna áhrif reykinga á endurtekið loftbrjóst. Erlendar rannsóknir eins og sú sem hér er til umræðu gefa þó til kynna að reykbindindi þessara sjúklinga eftir aðgerð sé mikilvægt. Aðgerðartækni breyttist yfir rannsóknartímabilið, aðallega með tilkomu brjóstholssjáraðgerða og auknu hlutfalli fleiðru- ertingar og hlutabrottnáms á henni. Svipuð þróun hefur sést er- lendis,19 þó ekki hafi tekist að sýna fram á að hlutabrottnám og fleiðruerting bæti árangur aðgerðanna. Okkar rannsókn sýndi heldur ekki fram á ávinning slíkrar meðferðar. Ljóst er að stærri og slembaða rannsókn þarf til að geta svarað betur hvaða skurð- meðferð er best við loftbrjósti. Þótt munurinn hafi ekki reynst marktækur var tilhneiging til hærri tíðni endurtekins loftbrjósts eftir brjóstholssjáraðgerð en opinn brjóstholsskurð, en marktækum mun hefur verið lýst í stærri erlendri rannsókn.26,27 Skýringin er aðallega rakin til þess að auðveldara er að greina hvort loftleki sé frá heftilínu eða blöðru á lunga í opinni aðgerð en við brjóstholssjáaraðgerð, enda brjóst- holið einfaldlega fyllt af vatni og lungað blásið upp. Í brjósthols- sjáraðgerð er slíkt lekapróf erfiðara í framkvæmd auk þess sem brjóstholsskurður veldur meiri samvöxtum í fleiðruholinu. Ótví- ræðir kostir brjóstholssjáraðgerða eru hins vegar minni verkir.5 Þetta endurspeglast í styttri legutíma í stærri erlendum rannsókn- um.27,28 Í okkar rannsókn reyndist munurinn á miðgildi legutíma hins vegar ekki marktækur. Styrkur þessarar rannsóknar er sá að hún nær til allra sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð vegna loftbrjósts á Íslandi á tæp- lega þremur áratugum. Auk þess telst það styrkur að aðgerðirnar voru framkvæmdar af tiltölulega fáum skurðlæknum sem allir störfuðu á sömu stofnun. Veikleiki við rannsóknina er hins vegar að hún er afturskyggn þar sem skráning byggist á klínískum upp- lýsingum úr sjúkraskrám sem í sumum tilfellum var ábótavant. Loks varð breyting á aðgerðartækni á tímabilinu, með fleiri brjóst- holssjáraðgerðum, sem getur haft áhrif þegar borin eru saman ár- angur aðgerða milli tímabila. Þessi rannsókn sýnir að árangur aðgerða við loftbrjósti hérlend- is er sambærilegur við niðurstöður erlendra rannsókna. Aðgerðin er örugg, skammtíma fylgikvillar fátíðir og allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina af. Tíðni endurtekins loftbrjósts er þó enn áskorun, ekki síst eftir brjóstholssjáraðgerðir þar sem 7% sjúklingar þurfa enduraðgerð. Athyglisvert er að nýgengi aðgerðarinnar fór lækk- andi án lækkandi án augljósrar skýringar. Frekari rannsóknir þarf til að kanna hvort það geti tengst minnkandi reykingum. Þakkir Sérstakar þakkir fær Elísabet Guðmundsdóttir fyrir aðstoð við öfl- un sjúkraskráa. Rannsóknin var styrkt af Vísindasjóði Landspítala og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands. Greinin barst til blaðsins 24. janúar 2022, samþykkt til birtingar 8. maí 2022.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.