Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.06.2022, Blaðsíða 42

Læknablaðið - 01.06.2022, Blaðsíða 42
310 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 að hafa verið með í að koma því á. Aðrir samstarfsmenn hans tóku svo við keflinu, bættu ferlið og byggðu ofan á. „Hitt sem ég er líka stoltur af á starfsferlinum er að hafa endurreist norræna fagtímaritið. Það var einu sinni virt alþjóðlegt tímarit en hafði verið í lægð í ein 20-30 ár. Ritstjóra- starfið hentaði mér líka vel. Ég þekkti fólk víða og gat nýtt mér þau sambönd. Þá skipti máli að tímaritið væri á góðri ensku en ég var alinn upp tvítyngdur, hafði svo búið í Bretlandi í ein 8 ár, svo enskan lá vel fyrir mér. Ég hafði mjög gott samverkafólk, bæði ljósmæður og lækna, og í stjórn spítalans var oft fólk sem sýndi málunum skilning,“ segir Reynir og bætir við að tímaritið sé stöðugt að skapa sér betri sess og gangi vel í dag. Gamaldags verklag og viðhorf Fleiri tækninýjungar en ómtæknin komu fram meðan Reynir var starfandi. Hann nefnir til dæmis kviðsjártæknina sem breytti miklu í kvensjúkdómum og í skurðlækningum yfirleitt. Þá segir hann ekki síður mikilvægt að ýmist gamalt verklag og viðhorf lögðust af. Þannig lagði Reynir af þann sið á fæðingardeildinni að raka sköp kvenna og láta þær losa hægðir með stólpípu fyrir fæðingu. „Það var álitið betra að konur væru rakaðar ef það þyrfti að sauma þær og hægðir þóttu óæskilegar í fæðingu, en raunin var sú að það var miklu erfiðara að eiga við rennandi hægð- ir, sem augljóslega gerðist eftir stólpípuna, heldur en mótaða hægðaköggla. Þetta voru gamaldags viðhorf sem áttu upp- runa sinn í sótthræðslu og það var ekki auðvelt að breyta þeim því íhaldssemin var mikil og alls ekki allir sáttir við þessar breytingar. Kristín Tómasdóttir yfirljós- móðir hafði þó skilning á þessu,” rifjar Reynir upp. Fleiri viðhorf breyttust á næstu árum og þá urðu líka breytingar á kynjahlutföll- um innan læknastéttarinnar, en árið 1981 kom fyrsta konan (Þóra Fischer) í starf sérfræðings í kvensjúkdómum hér á landi. „Þegar konan mín eignaðist eldri dóttur okkar árið 1971 var ekki vani að feður væru viðstaddir fæðingar barna sinna. Ég fékk hins vegar að vera viðstaddur þar sem ég var læknanemi, og ég man að vinum mínum fannst það stórmerkilegt,” rifjar Reynir upp en það var ekki fyrr en nokkrum árum seinna að karlmenn fóru að koma með í fæðingar og seinna að fylgja konum sínum í mæðraverndina. „Tíðarandinn breyttist og karlmenn voru ekki lengur í eins einhæfum störfum, heldur fóru þeir að vinna störf þar sem þótti sjálfsagt að þeir skryppu frá til að vera viðstaddir meðgönguvernd eða fæðingu. Ég fann það sjálfur hvað það skipti eiginkonu mína miklu máli, og svo mig sem verðandi föður, að ég væri viðstaddur fæðingu dætra okkar. Starfs- fólkið fór líka að skynja þetta. Konum leið andlega betur að hafa ástvin sem þær treystu og þekktu með í fæðingunni, en ekki bara einhvern þægilegan heilbrigð- isstarfsmann. Sem betur fer höfum við heilbrigðisstarfsfólk áttað okkur betur á því hvernig á að koma fram við fólk og höndla tilfinningar þess, sem er ekki síður mikilvægt en tækniframfarirnar,” segir Reynir. Færa þarf sérnám lækna heim Aðspurður að því hvað mætti betur fara í faginu í dag, segir Reynir að hann sé nú kannski ekki rétti maðurinn til þess að svara því þar sem hann sé ekki innan- búðarmaður á kvennadeild Landspítala lengur, en hann stýrði deildinni í 20 ár. „Mér finnst þó mikilvægt að ljósmæð- ur og fæðingalæknar vinni vel saman. Læknarnir hafa lengra og víðtækara sérnám og vita meira um margt sem varðar líffræði og sjúkdómafræði þung- aðra kvenna, en á móti kemur reynsla og þekking ljósmæðra af umönnun og hjúkrun. Þetta þarf að tvinnast saman. Þá er mikilvægt að færa sérnám lækna hingað heim eins og nú er verið að gera, stytta dvöl þeirra erlendis, því eftir því sem sérnámið er lengra úti eru meiri líkur á því að fólk komi ekki til baka og við megum ekki við því.” Það er ekki hægt að sleppa Reyni án þess að spyrja hann útí hvað sé framundan nú þegar skýrslunni hefur verið skilað. Hann svarar því til að meðan hann hafi enn kraft og löngun til að gera gagn muni hann halda því áfram og honum leggist alltaf eitthvað til í þeim efnum. Fleira kemst þó líka að. Síðasta vetur dvaldi hann til dæmis tæpa fjóra mánuði í Evrópu, mest í Frakklandi, og á sér drauma um fleiri ferðalög. „Ég sagði oft við konuna mína að við ættum að hafa 10 plön í gangi í einu því þá yrðu þrjú til fjögur að veruleika. Ef engin eru plönin eða draumarnir, þá gerist ekki neitt.” Lóð Landspítala er mikil umferðarmiðstöð og nú er nýjasta húsið að koma upp úr grunninum framan við elsta húsið. Landspítali hefur verið starfsvettvangur Reynis Tómasar í hartnær fimm áratugi. Mynd/Védís

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.