Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2008, Blaðsíða 37
um, aðallega til Fleetwood á vesturströnd
Englands. Það var talið áhættuminna
að fara þangað en að sigla niður með
austurströndinni eins og gert var eftir
stríðið. Þó lönduðu skip stöku sinnum í
Aberdeen.
*
Það fékkst mjög gott verð fyrir fiskinn
og því skapaðist mikill hagnaður af ísfisk-
sölunni til Bretlands. Það var Bretunum
líka mikils virði að fá allan þennan fisk
frá Íslandi. Mikið dró úr fiskveiðum Breta
á stríðsárunum og þær féllu alveg niður
hér við land. Þar að auki minnkaði land-
búnaðarframleiðsla þeirra verulega vegna
stríðsins. Íslenski fiskurinn varð því mikil
matarbjörg fyrir bresku þjóðina á stríðs-
árunum. Af því heyrði ég löngu síðar.
Björgvin Vilhjálmsson, sem vann með mér
í Frumherja og stundaði nám á Englandi
á sínum tíma, sagði mér að enskur skóla-
félagi sinn hefði eitt sinn fært þetta í tal
við sig. Þessi skólafélagi Björgvins átti þá
aldraða móður á lífi. Móðirin hafði beðið
son sinn fyrir kveðjur til Íslendingsins
með þeim skilaboðum að Íslendingar
hefðu bókstaflega bjargað fjölda manns-
lífa á Englandi með því að senda þeim
allan þennan fisk á stríðsárunum. Þetta
var gamla konan sannfærð um. Slíkur var
matarskorturinn þar á þessum hörmung-
artímum. „Við fylgdumst með og vissum
þegar næsta skip var væntanlegt,“ hafði
hún sagt.
*
Í Vestmannaeyjum komst strax á gott
samstarf í útflutningi á ísfiski til Bretlands.
Útvegsmenn í Eyjum stofnuðu félag sem
hét Ísfisksölusamlagið. Það félag sá um
útflutninginn fyrir alla útgerðar menn í
Eyjum. Félagið fékk allar greiðslur og ann-
aðist svo uppgjör til útgerðanna. Fastir
starfsmenn hjá Ísfisksölusamlaginu voru
þeir Sigurður Ólason, Bjarni Jónsson
kenndur við Svalbarða og Ragnar
Stefánsson sem síðar varð starfsmaður hjá
Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda.
*
Mjög gott skipulag komst á við útflutn-
ing á ísfiski frá Eyjum á stríðsárunum.
Þannig var að árið 1932 stofnuðu nokkrir
útgerðarmenn í Eyjum saman Lifrarsamlag
Vestmannaeyja. Þegar í byrjun stríðsins
stofnaði þessi sami hópur útgerðarfélagið
Sæfell. Það félag eignaðist fyrst tvö skip
sem hétu Sæfell og Fell. Þau skip tóku við
afla úr Eyjabátum og sigldu með mikið
magn af ísfiski. Félagið keypti fisk af bát-
unum sem síðan var ísaður niður um borð
í þessum skipum. Þegar siglingarnar náðu
hámarki var stærstur hluti bátaaflans flutt-
ur út sem ísfiskur. Alltaf var þó talsvert
mikið um saltfiskverkun á vertíðunum
enda jókst aflinn stöðugt, ár frá ári. Eftir
að stríðinu lauk eignaðist þetta félag svo
þriðja skipið, Helgafell, sem varð fyrsti
togarinn sem kom til Eyja. Það varð svo
að stórum hluta sami hópur sem stóð að
stofnun Vinnslustöðvar innar árið 1946.
Það kom fyrir að við strákarnir úr efsta
bekk gagnfræðaskólans vorum lánaðir til
þess að losa Sæfellið þegar skipið kom
með fulla lest af kolum frá Bretlandi sem
það gerði ósjaldan. Það var ekki geðsleg
vinna. Við unnum allan daginn niðri í
lestinni við að moka kolum í stóra járn-
skúffu sem hífð var upp og losuð á bíla
sem keyrðu kolunum upp í stórt kolaport
í bænum. Síðan kom maður heim að
kveldi, bókstaflega kolsvartur frá hvirfli
til ilja! Þessar kolauppskipanir áttu sér
stundum stað á hávertíð þegar aðrir voru
ekki tiltækir til þess að losa skipið vegna
mikilla anna í fiskvinnunni.
*
Siglingar frá Eyjum til Bretlands á
stríðsárunum gengu giftusamlega, aldrei
kom neitt alvarlegt fyrir Eyjaskipin í
þessum ferðum.
Eins og allir vita urðu margir skipskaðar
og mikið manntjón á íslenskum skipum
á stríðsárunum. Þau urðu fyrir árás og
sumum var sökkt. Mér er minnisstæð
koma línuveiðarans Fróða sem varð fyrir
fólskulegri árás þýsks kafbáts á leið sinni
frá Bretlandi. Skipið kom fyrst að landi í
Vestmannaeyjum. Áður en skipið kom inn
í höfnina var farið á móti því með líkkistur.
Þegar skipið lagðist svo að bryggju stóð ég,
guttinn, í hópi fjölda fólks á bryggjunni.
Þetta var 21. mars árið 1941. Sú sorglega
sjón sem við blasti hlýtur að vera öllum
ógleymanleg sem sáu. Kistunum með
hinum látnu hafði verið raðað á lestarlúg-
una og þær sveipaðar íslenska fánanum.
Brú skipsins var öll sundurskotin. Fólkið
stóð þögult og hnípið og horfði á. Engin
orð voru tiltæk til þess að lýsa þeim tilfinn-
ingum sem bærðust í brjóstum manna.
En það kom líka fyrir að íslensk skip
björguðu mönnum á giftusamlegan hátt
og þá ekki alltaf bara Íslendingum því það
var ekki spurt um þjóðerni þegar mönn-
um var bjargað úr sjávarháska. Frægt varð
þegar áhöfnin á Skaftfellingi bjargaði 51
manni af þýskum kafbáti sem sökkt hafði
verið norður af Bretlandi en sá atburður
átti sér stað 20. ágúst 1942. Skipstjóri á
Skaftfellingi var þá Páll Þorbjörnsson og
þrátt fyrir að aðeins fimm manna áhöfn
væri á bátnum þá þorðu þeir að taka þá
þýsku um borð og sigla með þá áleiðis til
Bretlands. Jóhann Bjarnason sagði mér sög-
una af þessu ævintýri en hann var vélstjóri
á bátnum. Þjóðverjarnir voru vopnlausir en
liðsmunurinn þó óneitanlega mikill og þeir
hleyptu skipbrotsmönnunum aldrei inn í
stýrishúsið á Skaftfellingi. Þeir urðu bara
að hafast við undir hvalbaknum á leiðinni.
Síðan voru mennirnir afhentir breskum
heryfirvöldum. Það kom freigáta að bátn-
um og tók mennina um borð. Skipin sem
stunduðu þessar siglingar komu sjaldnast
tóm heim. Sæfellið sá um aðdrætti á kolum
og sementi sem ekki var vanþörf á.
Ísfiskur á stríðsárunum
Stefán Runólfsson segir frá
Sjómannablaðið Víkingur - 37
Upphaf vélvæðingar í fiskvinnslu. Hér er Stefán verkstjóri að kenna ungum manni á fyrstu roðfletti
vélina sem kom í Hraðfrystistöðina en vélin þótti fremur varasöm.