Norræn jól : ársrit Norræna félagsins - 01.12.1941, Síða 18
RAUNASAGA, en jafnframt frægðarsaga Finnlands fyrr og nú er
mönnum svo kunn, að óþarft er að rekja hana hér. Ógnaröld sú, er
nú gengur yfir heiminn, veldur því, að bæði einstaklingar og heilar þjóðir
fá ekki ráðið gerðum sínum, og hafa Finnar ekki síður en aðrir fengið að
kenna á því. Nú um hríð hefur verið um mjög takmarkaða norræna sam-
vinnu að ræða, því hver hefur þótzt hafa nóg með sig. En óhætt mun mega
fullyrða, að þegar samvinna verður aukin að nýju muni finnska þjóðin
ekki síður reynast samvinnufús en aðrar.
Ljúft og skylt er að minnast með þakklæti drengskapar og rausnar,
sem íslendingar sýndu við Finnlandssöfnunina, og þess mikla starfs, sem
Norræna félagið innti þar af höndum, enda hefur félaginu og þeim öðrum,
sem þar áttu hlut að máli, borizt mjög vingjarnlegt bréf frá fyrrverandi
forsætisráðherra Finna, A. K. Cajander, formanni hjálparnefndarinnar.
Ég vil óska öllum Norðurlandaþjóðunum bjartrar framtíðar og vona,
að þær verði æ nátengdari hver annarri.