Borgfirðingabók - 01.12.1981, Síða 61
59
Ekki var þar ávallt drengilega leikið og stundum sló í bardaga.
Svo var til dæmis, er Kolgrímur hinn gamli á Ferstiklu og menn
hans, er nefndir voru Strendir, efndu til knattleika inni á
Söndum við Hörð Grímkelsson og Botnverja. Þá lyktaði leiknum
svo, að margir lágu í valnum. En við þein mrnnum blasti sama
fegurð, sömu fjöll, sama tign og yndi og við höfum fyrir augum í
dag. En menningin hefur breyst, lífið batnað, fólkið nálgast
hvert annað, lært að meta, virða og skilja hvert annað. Fólkið
hefur komist til félagslegs og menningarlegs þroska. Og þessi
stórkostlega breyting til bjartara, fegurra og hamingjuríkara
mannlífs hefur fyrst og fremst orðið fyrir áhrif kristinnar trúar
og boðskapar. Um þau áhrif mun ég ekki ræða nánar hér og nú,
en minna má á það, að í gegnum aldirnar var kirkjan eini
staðurinn, þar sem fólk sveitarinnar gat komið saman og átt
samfundi, ekki aðeins við Guð sinn, heldur einnig hvert við
annað. Það fóru ekki aðeins fram messur í kirkjunni, þar voru og
fundir haldnir. Menningarleg og félagsleg áhrif kirkjunnar
verða aldrei ofmetin eða fullþökkuð.
„Huggun er manni mönnum að/miskunn Guðs hefur svo
tilskikkað", sagði séra Hallgrímur. Vel var honum ljós hin fé-
lagslega þörf mannsins, þá er hann var prestur þessarar sveitar,
nauðsyn mannsins að vera samvistum við aðra, að eiga og njóta
gleði og huggunar með öðrum.
Það er athyglisvert, að þegar ungmennafélag var stofnað hér í
sveitinni árið 1924, þá var stofnfundurinn haldinn í kirkjunni.
Og þar voru fundir haldnir í fyrstu og þá jafnan eftir messu. En
ungmennafélagið gerði sér þegar í öndverðu Ijóst, að nauð-
synlegt var fyrir sveitina að eignast sitt eigið hús, þar sem fólk
gæti komið saman til margs konar mannfunda og fagnaða. Því
var hafíst handa um byggingu lítils samkomuhúss í landi Fer-
stiklu og var því lokið sumarið 1932. Það hús er nú sumar-
bústaður og stendur hér skammt fyrir innan.