Borgfirðingabók - 01.12.1981, Side 71
69
skylda mín að verða við kallinu, fyrst til mín var leitað. Þetta
hefur oft verið erfitt og fyrirhafnarsamt starf. Margar ferðirnar
hef ég farið, mörg samtölin átt, mörg bréfin skrifað, marga
verksamninga gert og mikla vinnu haft í sambandi við bókhald
og Qármögnun fyrirtækisins. Reikningar og fylgiskjöl eru á
fimmta hundrað. En öllu erfiði fylgir líka gleði, einkum þegar
maður sér, að það er eitthvað, sem vinnst, einhverju skilað
áleiðis, sem maður trúir og vonar, að sé til nokkurrar gleði og
ávinnings fyrir þá nútíð og það samfélag, sem maður lifir og
starfar í, en einnig lagt í lófa framtíðar.Eg vona, að það verði
ekki talið mér til oflætis, þótt ég telji, að ég hafi gefið eitthvað af
sjálfum mér til þessa húss. Og því, sem maðurinn fórnar og
gefur eitthvað, því tengist hann að jafnaði með sérstökum hætti.
Þau tengsl eru tilfinningalegs eðlis, eiga rætur í kærleika og
tryggð, en verða ekki beinlínis með rökum skýrð eða mæld.
Félagsheimilið okkar
Mér þykir vænt um þetta hús og ég vona, að svo sé með
sveitunga mína alla. Eg mun láta mér annt um húsið, meðan ég
hef aðstöðu til. Eg minni á það, að þetta hús er heimili okkar,
sameiginlegt heimili okkar í þessari sveit, félags-heimili, þar sem
menn koma saman til margs konar mannfunda og til að eiga
félagsskap við aðra, samfundi við aðra, njóta gleði og hamingju
með öðrum, minnugir þess, að maður er manns gaman, að
maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en
hann sjálfur.
Menn byggja ekki þetta hús og koma ekki í þetta hús til að hafa
af því fjárhagslegan ábata fyrir sjálfa sig, heldur koma menn
hingað með því hugarfari að gefa, gleðjast, huggast og njóta með
öðrum, að menn séu reiðubúnir til að fórna og láta í té, ekki síður
en að þiggja og að þeir geti í sameiningu og með samstilltum
huga og vilja byggt upp menningarlegt og félagslegt samfélag
þess fólks, sem sveitina byggir og þetta heimili á að eiga og njóta.