Borgfirðingabók - 01.12.1981, Side 72
70
Að svo mæltu afhendi ég fyrir hönd byggingarnefndar þetta
félagsheimili til hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps.
Byggingarnefndin mun þó starfa áfram, uns húsinu er að fullu
lokið, og verður það væntanlega á næsta ári. Þá vil ég lýsa því
yfir, að ákveðið er, að félagsheimilið beri nafn hins gamla húss
og heiti Hlaðir. Leitað var álits fólks í sveitinni um þetta efni, en
ekki komu fram ábendingar eða tillögur um annað nafn en
þetta. Leitað verður staðfestingar menntamálaráðuneytisins á
nafninu. Einnig verður nú á næstunni gengið frá reglugerð um
notkun og rekstur félagsheimilisins og leitað staðfestingar ráðu-
neytisins á henni.
Hreppsnefndin mun væntanlega á næstunni kjósa sérstakt
húsráð eða hússtjórn til að annast um rekstur og viðhald
félagsheimilisins. Þess skal getið, að vorið 1979 tók frú Sesselja
Guðmundsdóttir að sér að vera húsvörður félagsheimilisins til
bráðabirgða. Jafnframt var gengið frá bráðabirgðaerindisbréfi
fyrir húsvörð. Hefur Sesselja gegnt þessu starfí með ágætum og
skulu henni hér færðar þakkir fyrir góð og fómfús störf.
Blessunfylgi því íframtíð
Nú þegar byggingarnefndin afhendir þetta félagsheimili, þá
er það gert í þeirri von og með þeirri einlægu ósk, að íbúar
þessarar sveitar megi finna, að þetta er þeirra heimili, þeirra
hús, sem þeir skulu eiga og njóta um framtíð. Megi aldir og
óbornir íbúar sveitarinnar vel njóta og eiga hér sína mannfundi,
sínar gleði- og hamingjustundir.
Eg bið þessu húsi blessunar um ár og aldur. Og öllum, sem
hingað hafa komið í dag og hingað eiga eftir að koma um langa
framtíð, bið ég heilla og hamingju, gleði og giftu.
Svo bið ég þess, að blessist félagsstarf
og börn vor taki fagurt hús í arf.
Guð blessi þá, er sækja húsið heim
heill og gleði veri yfir þeim.