Morgunblaðið - 19.08.2022, Blaðsíða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. ÁGÚST 2022
Hreint loft –betri heilsa
Honeywell gæða lofthreinsitæki
Láttu þér og þínum
líða vel - innandyra
Loftmengun er hættuleg heilsu og
lífsgæðum. Honeywell lofthreinsitæki
eru góð viðmyglugróum, bakteríum,
frjókornum, svifryki, lykt og fjarlægir allt
að 99,97% af ofnæmisvaldandi efnum.
HFD323E Air Genius 5.
Hægt að þvo síuna.
Verð kr. 39.420
HPA830 Round Air
Purifier. Mjög hljóðlát.
Verð kr. 29.960
S. 555 3100 · donna.is
Jóna Gréta Hilmarsdóttir
jonagreta@mbl.is
„Þetta er ennþá skapandi ferli og
verður það örugglega fram að síðasta
lófataki,“ segir Árni Kristjánsson,
leikstjóri nýju íslensku óperunnar
Þögnin, sem frumflutt er í Tjarnar-
bíói í kvöld. Óperuna samdi Helgi
Rafn Ingvarsson tónskáld, sem jafn-
framt er tónlistarstjóri, og Árni er
handritshöfundur verksins, en saman
starfa þeir undir merkjum sviðs-
listahópsins Hófstillt og ástríðufullt
sem þeir stofnuðu nýverið.
Verkið fjallar um Hjálmar (Bjarni
Thor Kristinsson bassi), ekkil sem
hefur á eldri árum flúið inn í þögnina.
Áhorfendur kynnast Hjálmari þegar
hann er á leið í jarðarför Áróru
(Björk Níelsdóttir sópran), sem skip-
ar sérstakan sess í hjarta hans. Eftir
stutt ástarsamband þeirra fyrir hálfri
öld ól hún honum barn sem hann
gekkst ekki við. Þegar hann giftist
eiginkonu sinni Báru (Elsa Waage
kontraalt) lofaði hann að eiga ekki
samskipti við son sinn úr fyrra sam-
bandi. Hjálmar óttast nú að ef hann
mætir syni sínum Almari (Gissur Páll
Gissurarson tenór) rífi það upp gömul
sár, en þvert á móti er Almar staðráð-
inn í að rjúfa þögnina og bjóða honum
inn í fjölskylduna, að því er fram
kemur í tilkynningu.
Feðgar og fæðingar
Blaðamaður ræddi við Árna og
Helga um verkið en þeir eiga áratuga
langa vináttu að baki og nokkur sam-
starfsverkefni.
„Við Helgi höfum haldið vinskap
frá aldamótum eða síðan í mennta-
skóla árið 2001. Við vorum líka á
sama tíma í Listaháskóla Íslands.
Helgi lærði þar tónsmíðar og ég var í
fyrsta árgangi fræða og fram-
kvæmdar sem heitir núna sviðshöf-
undabraut. Á lokaárinu plataði Helgi
mig til að skrifa óperuhandrit svo við
sömdum saman óperuna Skuggablóm
sem var fyrsta stóra samstarfsverk-
efnið okkar. Síðasta vetur stofnuðum
við svo sviðslistahópinn Hófstillt og
ástríðufullt og erum búin að vera
vinna að þessu verki síðustu tvö ár
meðfram Covid. Það er líka hægt að
mæla þetta frá mínu fæðingarorlofi
yfir í fæðingu frumburðar Helga. Við
áttum mörg samtöl í gegnum zoom
um föðurhlutverkið, hvað maður skil-
ur eftir sig og hvort maður geri upp
við drauga fortíðar eða þegi þar til
yfir lýkur,“ segir Árni.
„Leiðir okkar Helga í listsköpun
hafa legið mjög skemmtilega sam-
hliða en ef maður skoðar tónverk
Helga þá er hann búinn vinna mikið
með fundið efni þar sem hann tekur
orðrétt texta, ljóð eða sms. Helgi
gerði t.d. óperu sem er beint upp úr
fótboltalýsingu. Þú getur ekki verið
nær hráum hversdagsleikanum. Í
minni handritagerð tengi ég allt við
persónulega reynslu eða fjölskyldu,
eitthvað sem er þýðanlegt yfir í
nútímann. Það er mjög gaman að sjá
þetta falla saman af því að í Þögninni
eru líka heil tónverk sem Helgi sem-
ur inn í óperuna sem eru ekki beint
hluti af sögulínunni heldur heildar-
myndinni eða hversdagsleikanum og
er þá að vinna með þetta fundna
efni,“ segir Árni og Helgi tekur undir.
„Í verkinu eru t.d. sungnar óperískar
auglýsingar um páskaferðir. Hjálmar
er þá að keyra í jarðarförina og fuss-
ar yfir þeim auglýsingum sem heyr-
ast í útvarpinu. Ég ákvað s.s. að fara
inn á timarit.is og sjá hvað var í
Morgunblaðinu á fæðingardaginn
minn, 16. júlí 1985. Þann dag var
Úrval-Útsýn með auglýsingu sem
mér fannst skemmtilega orðuð:
„Fimmtán dagar í Túnis, nýjasti
áfangastaður Íslendinga fyrir páska-
ferðir. Páskarnir koma snemma í ár.“
Nú er því heilt atriði í óperunni þar
sem sú auglýsing er sungin.
„Ég er víst afi þinn“
Spurðir hvaðan hugmyndin að baki
verkinu sé komin segir Árni: „Hug-
myndin kom þegar ég var að skrifa
síðustu óperu, Plastóperuna, sem
fjallaði um feðgin. Í ferlinu fór ég að
spjalla við tónskáld þeirrar óperu,
Gísla Jóhann Grétarsson, um hvað
það væri gaman að skrifa um ellina
og það sem er liðið. Ég skrifaði síðan
fyrsta uppkast að því handriti en þá
fjallaði það um framhjáhald og svik,
sem virkaði ekki. Ég fann að ég varð
að tengja þetta nær einhverju sem
skipti mig máli. Í öðru uppkasti að
þessu verki byrja ég því að tengja það
við mína persónulegu reynslu. Í
útskriftarveislu minni úr mennta-
skóla kemur maður að mér og segir
við mig: „Til hamingju með útskrift-
ina þín, ég er víst afi þinn.“ Það var
Jón Hnefill Aðalsteinsson, föðurafi
minn, sem ég hafði aldrei kynnst en
eiginkona hans var á þessum tíma lát-
in og foreldrar mínir voru sammála
um að bjóða honum inn í fjölskyld-
una. Þessi stærð af fyrirgefningu, að
sjá að þessi eldri maður þurfti meira
bakland, meiri stuðning og að gefa
barnabörnunum tækifæri á að kynn-
ast þessum týnda afa er mennska
sem ég hef hvergi annars staðar séð.
Verkinu er því ætlað að heiðra föður
minn.“
Að sögn Helga er hið óperíska í
verkinu sú tilfinning sem liggur undir
niðri. „Á yfirborðinu virðist drama-
leysið algjört. Þau taka Hjálmar inn í
fjölskylduna en í þögninni liggur
sterk tilfinning. Maður heyrir sögur
um að fólk sé ekki í samskiptum við
fjölskyldumeðlimi af einhverjum
ástæðum. Þegar maður fær síðan að
heyra alla söguna sem þriðja aðili
finnst manni oft ástæðan ekki merki-
leg en fyrir þeim er það oft rosa stórt
skref að taka þetta mikilvæga samtal.
Það er hið tónlistarlega og drama-
tíska sem óperan snýst um, þegar
fyrir ýmsar tilviljanir þetta augnablik
á sér stað að þau tala saman og sátta-
hönd er rétt fram. Svo er spurning
hvort það verði nóg til þess að græða
sárin. Fyrir mér verður þessi eina
risastóra tilfinning að vera fyrir
hendi og þá ertu með góðan grunn, af
því tónlistin segir sögur öðruvísi en
orð gera. Það er þessi undirliggjandi
tilfinning sem tónlistin getur tekið og
ýtt upp á yfirborðið fyrir hlustendur,“
segir Helgi.
Að þegja allt í hel
Spurðir af hverju óperan heitir
Þögnin segir Árni: „Það er auðvitað
ákveðin kaldhæðni í því. Alltaf þegar
maður ímyndar sér óperu ímyndar
maður sér hljóð en svo vísar þögnin
einnig í tengslarof feðganna. Þegar
hann mætir í jarðarför fyrrverandi
ástkonu sinnar veit hann að hann
mun hitta son sinn en hann veit ekki
hvernig hann á að rjúfa þögnina eða
breyta eðli hennar. Aldrei myndi
þessi maður t.d. segja fyrirgefðu.
Þannig að þetta er líka vísun í eitraða
karlmennsku og viðbragð við því að
búa við harðneskjulegar aðstæður
þar sem það að tala um tilfinningar
sínar gerir mann berskjaldaðan. Sá
tími er búinn og nú er spurningin
hvað við setjum í staðinn fyrir þögn-
ina. En þetta er alls ekki fyrsta verk-
ið sem tengir saman skoðanir á karl-
mennsku fyrri kynslóða og
vandamálin sem tengjast því að þegja
allt í hel,“ og Helgi bætir við. „Í ferl-
inu fór einnig af stað þessi umræða
um hvort við vildum hafa fullt af
þögnum í óperunni og hvað þýðir það
að gera þögn í tónlist; er þögnin bók-
stafleg eða er hún sett upp með
myndrænni hætti? Við í hópnum
ræddum það hvernig þagnir eru í
raun og veru sungnar þótt það heyr-
ist ekkert hljóð. Þegar þú ert flytj-
andi á sviði og það kemur stutt þögn í
tónlistina skiptir miklu máli hvernig
þú ert í þögninni svo að spennan hald-
ist. Slíkar umræður skila sér vonandi
inn í okkar túlkun á þessari tónlistar-
legu þögn. En upprunalega hug-
myndin varðandi þögnina var að
skrifa tónlistina í mjög löngum laglín-
um sem liggja yfir atriðum og klárast
jafnvel ekki fyrr en eftir eina eða
tvær mínútur. Þögnin er því ekki
bókstafleg enda væri það ekki mjög
spennandi fyrir tónskáld. Þannig að
þetta er í raun og veru ekki þagnar-
verk þótt verkið heiti Þögnin.“
Tónlistarlandslag Íslands
„Það er rosa gaman að frumsýna
nýja óperu í þessu tónlistarlandslagi
á Íslandi. Mér finnst við vera að tala
inn í ákveðið samhengi af nýjum, lif-
andi, spennandi óperuheimi á Íslandi
sem er ekki með neitt eiginlegt
óperuhús heldur bara að skapa sköp-
unarinnar vegna,“ segir Árni og
Helgi tekur undir. „Það er rosaleg
gróska í nýjum óperustykkjum á
Íslandi, sem er magnað miðað við að
það er engin aðstaða. Það er í raun-
inni enginn salur sem nær að uppfylla
öll skilyrðin. Harpa er t.d. ógeðslega
dýr og hentar ekki grasrótar-
starfsemi. Það er rosa þreytandi að
þurfa alltaf að vinna með eitthvað
sem er ekki tilbúið. Þrátt fyrir þessar
hindranir er mikið líf í óperusenunni
sem sýnir bara eldmóð og sköpunar-
kraft hjá því fólki sem brennur fyrir
forminu. Það er svo langt frá sann-
leikanum að óperan sé dauð.“
Þögnin verður frumflutt í Tjarnar-
bíói í kvöld en önnur sýning verksins
er hluti af dagskrá Menningarnætur í
Reykjavík 2022. Líkt og með aðra
viðburði Menningarnætur er frítt inn
á þessa sýningu verksins. Samt sem
áður þarf að bóka miða til að tryggja
sér sæti eða stæði. Lokasýning
verksins verður síðan sýnd um kvöld-
ið á Menningarnótt en ekki er frítt
inn á þá sýningu. Miðasala fer fram á
tix.is.
Ópera Verk Helga Rafns Ingvarssonar og Árna Kristjánssonar, Þögnin, verður frumflutt í Tjarnarbíói í kvöld.
Hvernig á að rjúfa þögnina?
- Feður ná saman eftir jarðarför í íslenskri óperu eftir Helga Rafn Ingvarsson og Árna Kristjánsson
- Óperan dregur innblástur sinn úr raunverulegum atburðum - Frumflutt í Tjarnarbíói í kvöld
Sýning bandaríska myndlistar-
mannsins Ryans Mrozowskis var
opnuð í gær í i8 galleríi við Tryggva-
götu og ber hún titilinn Augu sem
tjarnir. Er hún fyrsta sýning Mroz-
owskis í galleríinu og má á henni sjá
ný málverk sem undirstrika kerfis-
bundna nálgun hans á myndlist.
„Ávextir, lauf og bókstafir verða að
óhlutbundnum mótífum í verkum
hans, en víkja frá hefðbundnum stíl
kyrralífsmynda. Hann klippir við-
fangsefnin út, endurtekur þau og
veltir upp spurningum um viðveru,
fjarveru og skynjun,“ segir m.a. um
verk listamannsins í tilkynningu.
Mrozowski í i8
Ber Hluti verks eftir Ryan Mrozowski.
Mattias Wager,
dómorganisti í
Stokkhólmi og
einn fremsti og
virtasti organisti
Norðurlanda,
heldur tónleika í
Hafnarfjarðar-
kirkju í kvöld kl.
20. Mun hann
leika á bæði org-
el kirkjunnar og þá m.a. verk eftir
J.S. Bach, Oskar Lindberg, Flor-
ence Price og Dmitri Shostakovitsj.
Þá flytur Wager einnig spuna yfir
íslensk sálmalög en spunar hans
eru göldrum líkir, segir í tilkynn-
ingu.
Heimsókn Wagers er þar sögð
hvalreki fyrir tónlistarunnendur og
hvetur Hafnarfjarðarkirkja sem
flesta til að njóta þessa viðburðar.
Aðgangur að tónleikunum er
ókeypis.
Einn virtasti org-
anisti Norðurlanda
Mattias Wager
Hljómsveitin
GÓSS, skipuð
Sigurði Guð-
mundssyni, Sig-
ríði Thorlacius
og Guðmundi
Óskari, heldur
tónleika á Sjá-
landi í Garðabæ
í kvöld kl. 21.
Tónleikarnir
eru þeir fyrstu í síðsumarstón-
leikaröð Sjálands sem hefur hlot-
ið nafnið Þar sem mávarnir dansa
og er þetta fyrsta kvöld hugsað
sem upphitun Garðbæinga fyrir
Menningarnótt, að því er segir í
tilkynningu.
Hljómsveitin hefur leikið víða
um land í sumar og kemur því vel
æfð til leiks. Miðasala á tónleik-
ana í kvöld fer fram á miðasölu-
vefnum tix.is og er miðaverð kr.
4.990.
Mávarnir dansa
með tríóinu GÓSS
Sigríður Thorlacius