Borgfirðingabók - 01.12.2015, Page 13
13
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2015
starfaði á Akranesi. Fullvíst má telja að það hafi verið ljósmóðirin Guðrún
Gísladóttir (1868-1954), sem starfaði í Andakílsumdæmi 1892-1894,
Leirár- og Melasóknaumdæmi frá 1894 til 1903 og í Akranesumdæmi
frá 1902 til 1938.2 Hesturinn hentaði henni ekki vegna viljans sem hún
hafði ekki tök á að hemja. Þorsteinn hafði frumtamið hann og lagt góðan
grunn að orku hans og hæfileikum en hann var fulltaminn og mótaður
þegar hann kom í eigu föður míns en þeir Þorsteinn þekktust frá því að
faðir minn átti heima á Narfastöðum í Melasveit. Faðir minn taldi að
Þorsteinn hefði verið í hópi bestu hestamanna á sínum tíma og nefndi
dæmi þar um. Þá má geta þess að hestamennskuhæfileikar Þorsteins
hafa skilað sér vel til afkomenda hans því enn syngur grundin í Andakíl
við þau hófaslög sem gæðingar niðja hans slá í þriðja og fjórða ættlið og
e.t.v. er fimmti ættliðurinn að feta sín fyrstu spor í hinni göfugu íþrótt
sem hestamennskan er.
Á árunum 1836-1860 bjó á Varmalæk á Andakílshreppi merkur
hrossa ræktarmaður, Gestur Jónsson (1801-1865).3 Hrossarækt hans var
án efa langt á undan því sem þá gerðist í hrossarækt. Hann lagði sig eftir
að rækta hvít og gráskjótt hross. Hross frá honum bárust um Borgar-
fjörð og Dali og kannski í fjarlægari sveitir.
Árið 1860 flutti Gestur að Innra-Hólmi í Innri-Akraneshreppi í ann-
að sinn en þangað hafði hann flutt 1834 frá Húki í Miðfirði eftir að
hafa búið á ýmsum jörðum í Vestur-Húnavatnssýslu. Við fráfall Gests
1865 var haldið uppboð á hrossum hans og öðrum eignum. Þá er talið
að hrossum hans hafi fækkað mikið en bestu hrossin hafi hann flutt
með sér frá Varmalæk. Við uppboðið dreifðust hrossin á ýmsa bæi í
sveit unum utan Skarðsheiðar og e.t.v. víðar. Þar sem fyrri eigandi Grána
átti heima á Akranesi er engin goðgá að ímynda sér að hann hafi verið
afkomandi hrossa frá Gesti. Hans mikla skeið og hvíti litur sem Gestur
sóttist eftir í sinni ræktun styðja við það hugmyndaflug.
1 Þessi orð eru fengin úr upphafi síðustu vísu kvæðis eftir Sigurbjörn bónda og hagyrðing
Jó hannsson frá Fótaskinni í Aðaldal, sem birt er t.d. í bók Gunnars Bjarnasonar hrossa-
ræktarráðunauts Ættbók og saga íslenska hestsins á 20. öld, 2. bindi, bls. 156. Sigurbjörn
(1839-1917) fluttist til Vesturheims 1889 þar sem hann lést.
2 Ljósmæður á Íslandi II útg. 1984, bls. 181 og Ljósmæður á Íslandi II útg. 1984, bls. 375.
3 Borgfirskar æviskrár II hefti bls. 385; og Ari Guðmundsson, „Frá Gesti á Varmalæk“ í
bókinni Fákur: Þættir um hestamenn og kappreiðar sem Einar E. Sæmundsson bjó til
prentunar, útg. 1949.