Borgfirðingabók - 01.12.2015, Page 154
154
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2015
en þeir höfðu þá farið til þess að taka á móti kaupskipi sem var á leið í
Straumfjörð. Hún hét nú á Álftaneskirkju, að ef synirnir fyndust myndi
hún gefa kirkjunni skerið. Svo fór að synirnir fundust að lokum, reknir
í skerinu og Álftaneskirkja var þar með orðin eigandi þess, en einhvern
tíma á síðari tímum kaupir svo eigandi Álftaness skerið af kirkjunni.
Eftir slysið mælti Halla svo um að aldrei skyldi verða fastur kaupstaður í
Straumfirði, og reyndin varð að þó þar hafi verið verslað fyrr á öldum þá
varð aldrei sú þéttbýlismyndun sem óhjákvæmilega fylgdi kaupstöðum.
Halla var skörungur mikill og vellauðug af fé. Minjar um bústað hennar
má enn sjá í túninu í Straumfirði og þar er líka gamall kirkjugarður, en
fyrir sunnan garðinn er dálítil þúst sem sagan segir að sé kuml Höllu,
í daglegu tali nefnt Hölluleiði. Pabbi talaði stundum um það að þessi
þúst væri nú kannske bara leifar af gamla bæjarveggnum, en bær sá sem
stóð síðast á undan núverandi íbúðarhúsi hafði verið á þessum stað. En
við þessu má ekkert hreyfa, Hölluleiði í Straumfirði hefur verið friðlýst
talsvert á aðra öld. Sögum ber reyndar ekki saman um legstað Höllu
því hún er líka sögð hvíla í kirkjugarðinum á Álftanesi. Leiði hennar er
sagt vera rétt þar hjá sem gengið var inn í gömlu kirkjuna sem þá stóð í
kirkjugarðinum. Þetta leiðir hugann að því hvort svo geti verið að seinni
tíma menn hafi séð aumur á henni liggjandi utangarðs í Straumfirði og
tekið það ráð að flytja hana í kirkjugarðinn á Álftanesi. Fleiri örnefni
tengd Höllu eru í eyjunni. Merkastur þeirra er líklega Höllubrunnur
sem er í svokallaðri Höllugróf, en þar er talsverð lægð í landinu fyrir
vestan Straumfjarðarbæinn. Höllubrunnur er um það bil 6 metra
djúpur en Halla lét höggva fyrir honum niður í bergið. Staðsetning
brunnsins var valin með tilliti til þess að frá honum sæist hvorki til
fjalls né fjöru. Sagt er að auðæfi Höllu séu falin í brunnbotninum. Í
aldanna rás hefur svörðurinn á eyjunni alltaf verið að hækka vegna áfoks
úr fjörunni. Árið 1907 var brunnurinn svo hækkaður upp úr jörðu með
grjóthleðslu. Efst er timburklæðning sem hefur verið komið fyrir á síðari
tímum þegar enn bættist á svörðinn. Vatnið úr brunninum var alveg
sæmilega gott, ekkert saltbragð eða neitt sem bent gæti til innstreymis
sjávar. Vatnið kom upp um sprungu í botninum og virtist endurnýja sig
vel í brunninum. Brunnur þessi var notaður öldum saman eða allt þar til
lögn úr Vatnsveitu Álftaneshrepps var lögð út í Straumfjörð árið 1992.
Fleiri örnefni eru í Straumfirði tengd Höllu gömlu, t.d. Höllusteinn.
Gat var í gegnum steininn en hann lá lengst af við gamla bæinn og var
notaður sem hestasteinn. Í steininn var klöppuð laut sem hægt var að