Borgfirðingabók - 01.12.2015, Page 158
158
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2015
að lesa rétt í það. Aðstæður á sjó eru fljótar að breytast eftir breytingar
á vindi eða vindátt að teknu tilliti til stöðu sjávar. En pabbi var afar
gætinn og farsæll í sínum sjóferðum, og Straumfjörður var í þjóðbraut á
þessum tíma að minnsta kosti ef tekið er mið af aðstæðum í landi. Mér
er minnisstætt þegar ég fór í fyrsta sinn úr eyjunni, þá líklega fimm ára
gamall. Fór ég þá gangandi upp að Vogalæk með nokkrum fullorðnum,
líklega í afmæli eða eitthvað þessháttar. Þar sá ég í fyrsta sinn Jóhannes
Sigurbjörnsson nágranna minn í áratugi og nánast jafnaldra, við áttum
svo eftir að kynnast betur seinna. Annað sinn, þegar ég var svona um það
bil níu ára gamall var ég sendur suður til Reykjavíkur til sjúkrahúsdvalar,
en Eggert Einarsson þá læknir Borgarnesi taldi rétt að láta taka úr mér
hálskirtlana. Þetta var að vori til og fór ég gangandi ásamt fleirum í
fylgd pabba upp að Hofsstöðum og þaðan var mér fylgt ríðandi af
þeim hjónum Ingibjörgu Friðgeirsdóttur og Friðjóni Jónssyni sem þar
bjuggu, ásamt fleira fólki beint yfir botnlausar mýrarnar að Smiðjuhóli.
Á Smiðjuhóli komst ég svo í veg fyrir mjólkurbílinn. Bílstjóri og eigandi
mjólkurbílsins var Brynjúlfur Eiríksson sem þá bjó á Hrafnkelsstöðum.
Þetta er mér minnisstætt því ég hafði ekki komið upp í bíl fyrr. Ég gisti
í Borgarnesi og fór svo snemma daginn eftir með öðrum mjólkurbíl til
Reykjavíkur en við komum ekki þangað fyrr en um kl. 5-6 síðdegis.
Þetta var í fyrsta skipti sem ég kom til Reykjavíkur og dvaldi ég þar í þrjár
vikur og þó kirtlatakan og dvölin á sjúkrahúsinu hafi kannske ekki verið
neitt sérstaklega skemmtileg, þá var samt margt nýtt að sjá í Reykjavík
og allt mjög framandi og skemmtilegt var að skoða bæinn. Ég man nú
minna eftir heimferðinni, en vegagerð um Mýrarnar var fremur skammt
komin á þessum tíma. Neðan Ólafsvíkurvegar var einungis orðið bílfært
niður að Leirulæk í Álftaneshreppi sunnanverðum. Í vestanverðum
hreppnum var rétt bílfært frá Arnarstapa að nýbyggðri brú yfir Álftá
hjá Hrafnkelsstöðum. Torleiði var því enn mikið á Mýrunum á þessum
árum. Stöku kaflar voru þó góðir ríðandi fólki og jafnvel sums staðar
færir með hestvagna, t.d. var farið með sjávarbökkum frá Leirulæk að
Lambastöðum. Einhverjir slóðar voru líka meðfram Álftá og einnig á
milli bæja s.s milli Krossness og Vogalækjar. En vegagerðin potaðist
áfram, vegur var lagður að kirkjustaðnum Álftanesi talsvert fyrr en milli
bæja vestar í hreppnum. Hringtengingu bílfærs vegar um neðanverðan
Álftaneshrepp lauk svo ekki fyrr en árið 1962 þegar vegurinn milli
Þverholta og Krossness var tekinn í notkun.