Borgfirðingabók - 01.12.2015, Side 159
159
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2015
BÚSKAPUR OG AFKOMA
Straumfjarðarjörðin er nokkuð víðfeðm. Fjöldi smærri eyja og skerja
eru innan landareignarinnar. Ekki eru til opinberar mælingar á stærð
eyjunnar eða landareignarinnar í heild, en eyjan er líklega um 60-80
hektarar að flatarmáli. Jarðarmörk eru á móti Knarrarnesi til vesturs, að
Sveinsstöðum til norðurs, en til austurs liggur landið að Álftanessjörðinni.
Þegar pabbi kaupir jörðina hefur túnið líklega verið um 8-9 hektarar og
þá einungis í eyjunni, en varð með tímanum ríflega helmingi stærra og
þá meiri hluti túnsins í landi. Til viðbótar við þetta er svæði í eyjunni,
Kirkjusandurinn svokallaði sem við girtum af uppúr 1960 og var orðinn
vel sláttuhæfur tíu árum síðar, alveg ágætis tún. Bústofn hjá pabba var
oftast þetta 12 kýr og þar af allt að 8 kýr mjólkandi, þá voru kálfar
stundum aldir upp og hafðir til matar heima, eða þá lagðir inn. Mjólk
sem á annað borð var ekki nýtt eða unnið úr heima var lögð inn í
mjólkursamlagið í Borgarnesi, en eingöngu að sumrinu fyrstu árin. Yfir
vetrartímann var ekki um það að ræða að flytja mjólk yfir sundið og
þaðan um 5 km leið að næsta bæ,Vogalæk í veg fyrir mjólkurbílinn. Öll
mjólk var því unnin heima að vetrinum, mjólkin skilin og strokkuð,
gert var smjör og skyr og einnig ostur. Heimilið hefur þannig orðið
aflögufært með unnar mjólkurvörur, allavega var smjör alltaf lagt inn
í mjólkursamlagið í einhverjum mæli. Vorið 1971 urðu þær breytingar
að Kaupfélag Borgfirðinga tekur við mjólkurflutningunum af Brynjúlfi
sem annast hafði þá frá árinu 1934. Nú var mjólkin flutt með tankbílum
í stað gömlu bílanna með sína ótal mjólkurbrúsa, eins og verið hafði frá
upphafi mjólkursölu. Var nú mjólkin ekki sótt nema annan hvern dag,
og þar sem ekki var enn komið rafmagn í Straumfjörð var ekki hægt
að halda mjólk kaldri með góðu móti, og alveg útilokað yfir sumarið.
Þar með heyrði mjólkursala frá Straumfirði sögunni til. Við vorum með
þetta allt að 150 kindur. Og þrátt fyrir mikla vinnu og erfiðleika við
mjólkurframleiðsluna, hvort heldur að vinna úr mjólkinni eða þá að
koma henni á markað þá voru einnig verulegir erfiðleikar með sauðféð
þegar því var beitt út. En féð sótti stíft í fjöruna og það var eins og það
gleymdi sér við átið á fjörugróðrinum og á hverju ári töpuðust því alltaf
nokkrar kindur í sjóinn. Það varð því að vakta féð og í raun að standa yfir
því svo það yrði ekki sjónum að bráð. Um sauðburðinn áttu ærnar það
líka til að bera í fjörunni og þurfti þá sérstaklega að fylgjast vel með, því
þó ærnar björguðust voru lömbin oft of sein á sér þegar féll að, og urðu