Fréttablaðið - 17.03.2023, Blaðsíða 43

Fréttablaðið - 17.03.2023, Blaðsíða 43
Þrátt fyrir að þessi skáldlega afstaða Elíasar sé ekkert nýja- brum á hún sér fáar fyrirmyndir í íslenskri nútímaljóðlist. Birtingarmyndir prinsess­ unnar í ævintýrum, dægur­ menningu og stjórnmálasögu er viðfangsefni verksins Prinsessuleikarnir eftir Elf­ riede Jelinek. tsh@frettabladid.is Una Þorleifsdóttir leikstýrir Prins­ essuleikunum eftir Nóbelsskáldið Elfriede Jelinek sem frumsýnt verð­ ur í Borgarleikhúsinu í dag, föstu­ dag. Í verkinu túlka leikkonurnar Vala Kristín Eiríksdóttir, Birgitta Birgisdóttir og Sólveig Arnarsdóttir þrjár prinsessur úr ævintýrum og raunveruleikanum; Þyrnirós, Mjall­ hvíti og Jacqueline Kennedy. „Í verkinu er Jelinek að takast á við og rannsaka þessa menningarlegu hugmynd um prinsessuna sem við getum sagt að gegnsýri samfélagið að einhverju leyti. Þessar hugmyndir sem prinsessan stendur fyrir eins og hreinleiki, fegurð, hlýðni, taka ekki pláss og gangast upp í einhverju hlutverki. Hún skrifar verkið í fimm þáttum en við veljum þrjá til að svið­ setja,“ segir Una. Staða og ímynd prinsessunnar Prinsessuleikarnir var upphaflega sett upp í Hamborg í Þýskalandi árið 2002 og inniheldur nokkrar aðrar prinsessur, þar á meðal Rósamundu og Díönu prinsessu. Jelinek blandar þannig prinsessum úr þjóðsögum og ævintýrum saman við raunverulegar konur úr vestrænni stjórnmálasögu. „Hún er svolítið að rannsaka þeirra stöðu og þeirra ímynd. Þú getur hugsað það þannig að Mjall­ hvít og Þyrnirós standi fyrir ákveðn­ ar hugmyndir um kvenleika og hug­ myndir um ungar konur áður en þær giftast. Þeirra líf endar í raun með kossi á meðan líf Jackie Kennedy hefst með kossi og því að hún flytur í höllina með prinsinum. En svo deyr prinsinn og hvað gerist þá? Í sögum allra þessara kvenna er karlmaður sem skilgreinir tilvist þeirra,“ segir Una og bætir því við að hugmyndir um karlmennsku séu einnig teknar fyrir í verkinu. Er eftirsóknarvert að vera prins- essa? „Þetta er góð spurning af því að mörgu leyti eru stelpur og strákar alin upp við prinsa og prinsessur og maður yfirleitt skilgreinir sig og staðsetur með eða á móti, ég er ekki prinsessa eða ég er prinsessa. Ef þú hugsar um einhvern eins og til dæmis Kim Kardashian, er hún ekki prinsessa? Eða Britney sem í upphafi síns ferils er algjör prins­ essa. Hún er hrein, falleg, óf lekk­ uð, saklaus, kynferðisleg en ekki of mikið, ómeðvituð um eigin kyn­ ferði. Svo um leið og hún stígur út fyrir þann ramma og reynir að eiga sig sjálf og verða eitthvað annað heldur en er búið að segja henni að hún eigi að verða þá verður ein­ hvers konar fall eða hrun.“ Britney og Miley Að sögn Unu snýst verkið Prins­ essuleikarnir að stórum hluta um það sem gerist í kjölfar slíkrar óhlýðni prinsessunnar. „Stóra spurningin er kannski hvað gerist þegar við hættum að hlýða eða hvað gerist þegar við reynum að segja sögurnar okkar sjálfar,“ segir hún. Spurð um hvort þetta hafi ekki einmitt gerst núna í bresku kon­ ungsfjölskyldunni þegar Harry Bretaprins og kona hans Meghan Markle ákváðu að segja skilið við konunglegar skyldur sínar segir Una: „Já, það má líka alveg spyrja sig í tengslum við umræðuna um Meghan að hún er náttúrlega óhlýðin, og þar af leiðandi stjórn­ ast umræðan af því. Alveg eins og með Britney, Miley Cyrus eða þær konur sem stíga einhvern veginn út fyrir þann ramma sem þeim hefur verið settur.“ Ólík æviskeið prinsessunnar Verkið var f yrst sett upp f yr ir rúmum tuttugu árum, finnst þér það enn eiga erindi? „Já, mér finnst það, mér finnst þessar hugmyndir enn vera til stað­ ar. Þessi hugmynd um prinsessuna sem ímynd eða sem einhvers konar hugmynd um konu sem er leikin á ákveðinn hátt. Allar þessar hug­ myndir um viðfangið; get ég verið viðfang og gert mig sjálfa að við­ fangi eða er ég alltaf gerð að við­ fangi af einhverjum öðrum? Mér finnst þetta vera spurningar sem eru mjög ríkjandi í þessari fjórðu bylgju femínisma sem snýst mikið um eignarhaldið á birtingarmynd­ inni.“ Una segir hlutverkin þrjú, Þyrni­ rós, Mjallhvít og Jacqueline Kenn­ edy standa fyrir ólíkar birtingar­ myndir prinsessunnar. Þá segir hún leiktexta Elfriede Jelinek vera mjög óhefðbundinn. „Þessi texti er eins og ljóð. Hún leikur sér mikið með tungumálið og merkingu þess, hugtök og húmor. Þannig að þetta er ekki hefðbundið leikrit, það eru ekki hefðbundin atriði þar sem fólk talar saman. Ég held að maður skynji þetta verk bara með undirmeðvitundinni af því hún er að takast á við svo stór hugtök,“ segir Una. n Að vera eða vera ekki prinsessa BÆKUR Áður en ég breytist Elías Knörr Útgefandi: Mál og menning Fjöldi síðna: 91 Þorvaldur S. Helgason Elías Knörr er einstakt skáld á íslenskan mælikvarða. Hann er fæddur og uppalinn í Galisíu en hefur verið búsettur á Íslandi í meira en áratug og yrkir aðallega á íslensku. Það er þó ekki þjóðernið sem gerir Elías svo sérstakt skáld heldur fyrst og fremst næmni hans fyrir ljóðrænu tungumálsins og frjósemi texta hans sem á sér engan líka meðal íslenskra skálda. Elías vakti mikla athygli fyrir fyrstu ljóðabók sína á íslensku, Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum, sem kom út 2010 og var ekki bara eitt fyrsta dæmið um íslenskar innflytjendabókmenntir heldur ein sterkasta hinsegin ljóða­ bók nýja árþúsundsins  en báðar þessar bókmenntagreinar  hafa verið af skornum skammti hér. Ljóðrænn veruleiki Áður en ég breytist er þriðja ljóða­ bók Elíasar á íslensku og fylgir eftir ljóðakverinu Greitt í liljum frá 2016. Ljóð Elíasar sækja ekki í per­ sónulega reynslu eða innra líf ljóð­ mælanda heldur skapa sinn eigin skáldlega  veruleika úr knöppum setningum og sterkum ljóðmynd­ um svo minnir á ímagismann, eina höfuðstefnu módernismans í ljóða­ gerð á 20. öld. Þetta má sjá strax í fyrstu tveim­ ur ljóðlínum bókarinnar: „Ljósblá og skýjuð sköp / sváfu á himn­ inum“ (bls. 11). Þessar línur eru bein vísun í kápumynd Áður en ég breytist þar sem má sjá hin skýjuðu sköp á fallega ljósbláum bakgrunni. Þrátt fyrir að þessi skáldlega afstaða Elíasar sé ekkert nýja­ brum á hún sér fáar fyrirmyndir í íslenskri nútímaljóðlist sem und­ anfarin ár hefur einkennst af hinu persónulega ljóði þar sem skilin á milli ljóðmælanda og skálds eru grunn eða lítil sem engin. Í ljóðum Elíasar tekur skáldið ekki sjálft til máls heldur skrifar gjarnan í gegn­ um ýmsa karaktera, lífs eða liðna. Raddir að handan Í Áður en ég breytist er hin dular­ fulla Evgenía sögumaður og er ritunarsaga bókarinnar nokkuð forvitnileg eins og kemur fram í nýlegu viðtali mínu við Elías í Fréttablaðinu: „(…) bækur mínar eru svo sem hlaðnar af mismunandi röddum. Það eru margir karakterar eða per­ sónur sem koma fram en hér er aðallega ein kona. Hún heitir eða kallast Evgenía sem þýðir „sú vel borna“ á grísku.“ Elías kveðst hafa notað  spírit­ isma við skrif bókarinnar og segir anda áðurnefndrar Evgeníu hafa skrifað í gegnum sig. Ekkert af þessu er þó auðséð við lestur bók­ arinnar og Evgenía er hvergi nefnd á nafn fyrir utan stutta skýringu á kólófón­síðu. Þá er vel hægt að njóta skáldskaparins án þess að vera meðvitaður um „kuklið“ sem liggur að baki honum. Svo sterk eru ljóð Elíasar að þau standa algjörlega fyrir sínu hvort sem maður „skilur“ þau eða ekki. Ljóðmálið er í senn kjarnyrt og margrætt og þarna eru nokkrar línur sem eru með þeim eftir­ minnilegustu sem undirritaður hefur lesið á íslenskri tungu. Lesendur eru hvattir til að gefa sér góðan tíma í lesturinn og hér sannast það sem á við um sannan skáldskap, að því meiri tíma sem maður gefur hverju ljóði, því meira fær maður til baka. Að sama skapi væri ef laust hægt að eyða mörgum stundum í að velta fyrir sér bók­ menntalegum tilvísunum verksins sem ná allt frá Benedikt Gröndal til heimsendafrásagna Biblíunnar. Undirritaður er þó ekki nógu vel að sér í bókmennta­ og trúarbragða­ sögu til að reyna slíkt. Tungumál og erótík Áður en ég breytist  leikur sér að tungumálinu eins og sjá má víða í bókinni: „Höfundurinn hrasaði / ofan í bræðsluofninn / meðan tungu­ málið brann / til svartra kola“ (bls. 68). Þá má finna ýmis nýyrði svo sem nafnorð sem hefur verið breytt í sagnir „við túristumst“ og að „spor­ baugast“ auk lýsingarorða eins og „plómublómafróma frúin“. Að lokum verður að nefna að bókin er ein besta nýlega birtingar­ myndin á erótískum og hinsegin skáldskap í íslenskri ljóðlist. Elíasi tekst að gera hið holdlega bæði óvænt og skáldlegt sem er síður en svo sjálfgefið enda eiga erótísk ljóð það oft til að verða klén og bitlaus. Hér hins vegar leiftrar skáldskapur­ inn: „brjóst mín / fjarverandi hvít­ plómur / titruðu í munaðarleysi“ (bls. 87). n NIÐURSTAÐA: Kraftmikil og kjarnyrt ljóðabók þar sem gaman er að týna sér í margræðni textans. Að breytast í skáld Una Þorleifsdóttir, leikstjóri Prinsessuleikanna, segir leikrit Nóbelsskáldsins Elfriede Jelinek vera mjög óhefðbundið í eðli sínu og meira í ætt við ljóð en hefðbundinn leiktexta. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR tsh@frettabladid.is Íslensku myndlistarverðlaunin voru veitt í gær í Iðnó. Alls var sex verðlaunum og viðurkenningum úthlutað en aðalverðlaunin, mynd­ listarmaður ársins, féllu Hrafnkeli Sigurðssyni í skaut fyrir sýninguna Upplausn í Auglýsingahléi Billboard, í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Y gallerí. Sýningin var sett upp á yfir 450 auglýsingaskjáum Billboard víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og í umsögn dómnefndar segir: „Það er mat dómnefndar að með því að nýta auglýsingaskiltin hafa Hrafnkell og f leiri opnað nýja leið til að miðla myndlist.“ Auk Hrafnkels hlaut Ásgerður Birna Björnsdóttir hvatningarverð­ laun fyrir sýninguna Snertitaug í Listasafni Reykjavíkur og heiðurs­ viðurkenningu myndlistarráðs hlaut Ragnheiður Jónsdóttir fyrir einstakt framlag til íslenskrar myndlistar. Viðurkenningar fengu Æsa Sigur­ jónsdóttir og Bryndís Snæbjörns­ dóttir/Mark Wilson fyrir útgefið efni fyrir bókina Óræð lönd: samtöl í sameiginlegum víddum, Listasafn Reykjavíkur fyrir áhugaverðasta endurlitið fyrir sýninguna Erró: Sprengikraftur mynda, Mynd­ höggvarafélagið í Reykjavík fyrir áhugaverðustu samsýninguna fyrir Hjólið V: Allt í góðu. Tilgangur Íslensku myndlistar­ verðlaunanna er að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði mynd­ listar og heiðra þau verkefni sem hafa skarað fram úr á liðnu ári en Myndlistarráð hefur umsjón með verðlaununum. n Hrafnkell valinn myndlistarmaður ársins 2023 Hrafnkell Sigurðsson er fæddur árið 1963. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN FRÉTTABLAÐIÐ MENNING 1517. MARS 2023 FÖSTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.