Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Blaðsíða 22
Höfundur: Vera Illugadóttir
Ég fór til Oslóar í vor í fyrsta sinn. Ég var í
félagsskap hinsegin fólks og náttúrulega
leituðum við uppi hinsegin staði að
heimsækja.
Fyrsta kvöldið sáum við vinkona mín
auglýst barsvar á gamalgrónum hinsegin
bar rétt við hótelið okkar. Verandi
áhugafólk um slíkt sport æddum við
af stað og stóðum okkur alveg svona
mátulega miðað við fjölda spurninga um
norska pólitík og landafræði.
En það sem stóð upp úr var staðurinn
sjálfur. London Pub var stofnaður 1979
og ber þess merki — innréttingarnar
hafa lítið breyst frá opnun, og breskt
pöbbaþema er líklegast frekar óvenjulegt
á hinsegin börum í dag. Mörg voru
greinilega fastagestir, höfðu jafnvel verið
fastagestir allt frá opnun fyrir meira en
fjörutíu árum. Aldursbil gesta var með
því mesta sem ég hef séð á hinsegin stað
nokkurs staðar.
Við fórum aftur kvöldið eftir. Þá
var rífandi dragbingó í gangi og
kúnnahópurinn jafn fjölbreyttur í aldri
og öðrum eiginleikum. Svo litríkar týpur
að maður gat ekki annað en fyllst stolti
og kærleika yfir að tilheyra sama litríka
en þó samhenta hinsegin samfélagi. Það
fór svo að þá fimm daga sem við vorum
í Osló gátum við ekki annað en farið á
London Pub hvert einasta kvöld. Fimm
kvöld í röð.
Eitt kvöldið fylgdist hálfur barinn með
æsispennandi pool-keppni lesbía þar
sem lá við slagsmálum af kappsemi.
Annað kvöld lögðum við á okkur talsvert
erfiði við að útvega klink til að geta notað
fornfálegan glymskratta í einu horni
barsins og barþjónninn sem virtist alltaf á
vakt varð í þessa örfáu daga okkar besti
vinur í Osló.
Dansstaðir og barir eru góðir til
síns brúks en maður fékk strax á
tilfinninguna að London væri eitthvað
annað: hinsegin félagsmiðstöðin sem
vantar svo víða. Til dæmis í Reykjavík.
Þrjátíu og þremur dögum eftir
síðasta kvöldið sem við vörðum á
London Pub, aðfaranótt 25. júní
2022, skaut hryðjuverkamaður að
fólki á líflegu útisvæðinu við London
og næstu krá við hliðina. Þetta var á
heitu föstudagskvöldi, daginn fyrir
gleðigöngu Oslo Pride og eflaust
sjaldan skemmtilegra á London en
einmitt þetta kvöld. Tveir létu lífið
fyrir utan krárnar tvær og um tuttugu
særðust. Oslóarbúar, úti á lífinu,
eltu árásarmanninn, snéru niður og
afvopnuðu.
NOKKUR KVÖLD
Á LONDON PUB
22