Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Síða 40
að deyja. Leiddi hugann sem minnst
að þessu, forðaðist heldur þá sem voru
búnir að missa einhvern nákominn,
fannst erfitt að láta minna mig sífellt
á þennan nálæga dauða. En auðvitað
komst ég ekkert hjá því. Við héldum samt
öll áfram að skemmta okkur. Alltaf.
Eitt kvöldið lyftu þeir honum í
hjólastólnum upp á efri hæðina á 22 og
við fögnuðum honum öll. Föðmuðum
hann og kysstum. Við tókum ekki á
okkar fólki með hönskum, við vissum
betur. Eða vissum við betur? Ég man það
ekki, en þetta gerðum við allavega. Og
svo drukkum við meira og dönsuðum
og það liðu mörg ár þar til ég leiddi
sérstaklega að því hugann að þarna sá
ég hann í síðasta skipti, næstum blindan
í hjólastólnum. Ég veit ekki af hverju
þessi minning hefur sótt svona stíft á mig
undanfarin ár. Ég hélt að þetta væri liðin
tíð. En ekkert af þessu er liðin tíð, lúrir
bara þarna undir og laumast svo aftan að
manni þegar minnst varir. Eru það ekki
einkenni áfalla?
Aldrei alveg örugg nema með öðru
hinsegin fólki
Ég veit ekki af hverju ég hugsa svona
mikið um þetta allt núna. Kannski er
það óhjákvæmilegt, fyrst mér hefur
tekist svona vel að þræða borgaralega
meðalveginn öll þessi ár. Svo vel
að Þorvaldur okkar Kristinsson sá
ástæðu til að minna mig á að maður
yrði að næra öfuguggann í sér. Ég
skildi alveg hvað hann átti við, kveikti
vandræðalega snöggt á því og vissi upp
á mig skömmina. Ég var bara þreytt
og skildi ekki af hverju þetta væri enn
svona. Gat ég virkilega ekki komist
undan þessu öráreiti öllu með því að lifa
hamingjusamlega það sem eftir væri
með konunni minni og dætrum okkar?
Var ekki allt eins og það átti að vera?
Við með áfallastreituna erum ekki flink
að tala um þetta og átta okkur á hvað
vantar, hverju er ofaukið, hvað við sitjum
uppi með. En ég hef spurt þau mörg,
jafnaldra mína, hvort þau upplifi það
sama og ég: Að vera hvergi 100% örugg
og óhrædd að vera við sjálf nema í hópi
annars hinsegin fólks. Og þau taka öll
undir að þannig sé það. Það er alveg
sama hversu dásamlega foreldra, systkini,
tengdafólk, vini, samstarfsfólk þú átt.
Þú ert hvergi 100% óhult nema í hópi
annars hinsegin fólks. Í hvert sinn sem
ég hitti dásamlegu hinsegin vinina mína
þá léttir af mér fargi sem ég hafði ekki
áttað mig á að lægi á mér. Ég get andað
dýpra en áður, það er bjartara, hlýrra.
Það skiptir auðvitað engu hvort þar eru
jafnaldrar mínir á ferð eða yngra hinsegin
fólk, sá hópur hefur ekkert komist undan
áreitinu frekar en við sem eldri erum.
Mig grunar reyndar að allt þetta rifjist
upp núna vegna þess að stundum líður
mér eins og mér hafi verið kippt 40 ár
aftur í tímann. Hatrið sem núna beinist
að trans fólki lýtur öllum sömu lögmálum
og hatrið sem áður beindist að okkur.
Það eru öll sömu rökin. Nei, öll sama
rökleysan. Allt sama fólkið sem talar og
talar og talar um tilfinningar annars fólks.
Hvernig því getur hreinlega ekki liðið
svona, hvernig því hlýtur að líða eða ætti
a.m.k. að líða, hvernig heimsmyndin öll
er undir því komin að þetta fólk sé ekki
það sjálft. Að það sé kannski pínulítið
öðruvísi, það má sko alveg, en bara upp
að þeim mörkum að allt eðlilega fólkið
með normal skoðanirnar geti sætt sig
við það. Ekki fara út fyrir þann ramma,
þá má tala um þig eins og hver önnur
óhreinindi sem þarf að afmá.
Troddu þessu helvítis umburðarlyndi
Verst hefur það alltaf lagst í mig þegar
fólk hreykir sér af eigin „umburðarlyndi“.
Það er auðvitað ekkert upp á
umburðarlyndi sem slíkt að klaga. Við
ættum öll að umgangast hvert annað af
virðingu, kærleik og umburðarlyndi. Mér
er hins vegar gjörsamlega ómögulegt
að færa merkingu umburðarlyndis í
samskiptum yfir á það að einhver verði
að þola tilvist mína. Þola að ég lifi lífi
mínu eins og ég kýs. „Þú getur troðið
þessu helvítis umburðarlyndi þínu!“ hef
ég öskrað. Margoft. En oftast í hljóði.
Ég hef líka dregið andann djúpt og
reynt að ræða málin, útskýra að ég skilji
og viti að viðkomandi sé svo ósköp
fordómalaus og sjái ekkert að mér og
takk kærlega fyrir það sko (því ég veit
að það er betra að fara ofur varlega
að þessum meirihluta, hann er svo
undarlega styggur þegar efast er um
ágæti hans), en mér sé svo meinilla
við þetta orð í þessu samhengi. Af því
að mér þyki alltaf, samkvæmt orðsins
hljóðan, að þar með hafi fólk tekið
meðvitaða ákvörðun um að umbera mig.
Núna veit ég að allar tilraunir til að ræða
þetta eru dæmdar til að mistakast. Streit
fólkinu sárnar alveg svakalega, ég á
sko alveg að vita hvað þau eru góðar
manneskjur og það er ótrúlega grimmt
af mér að ætla þeim eitthvað illt og
hvaðan kemur mér eiginlega rétturinn til
að gefa í skyn að hugsanlega sé grynnra
á fordómunum hjá þeim en þau vilja
vera láta?
Já, hvaðan ætli mér komi sá réttur?
Ég er öll svona öfugsnúin og vanþakklát
og samt þreytist fólk ekki á að segja
manni að það sé svo fordómalaust að því
sé andskotans sama þótt ég sé hinsegin.
Það er bara ekkert sem þarf að ræða í
því samhengi. Umburðarlyndið, sjáðu til.
Sem þýðir auðvitað þegar að er gætt að
hinn öruggi meirihluti nennir bara ekki
að leggja á sig að hugsa hálfa hugsun
um hinseginleikann, býður ekkert upp á
raunverulegan skilning og setur mig þar
með óhjákvæmilega á minn sérstaka bás.
Svona örlítið til hliðar við hina.
Ég er samt í allra skástu stöðunni af
okkur öllum. Komin yfir miðjan aldur,
allir voða sáttir við borgaralegu lesbíuna
sína og hennar fjölskyldu, ekkert nema
umburðarlyndið á alla kanta. Þetta er
bara komið hjá mér, frágengið. Full
mannréttindi í höfn. Ekki málið. Ég trúði
þessu meira að segja sjálf um tíma, á þeim
árum sem ég var í minnstu sambandi við
hinsegin samfélagið og þar með sjálfa
mig.
En það vantar alltaf herslumuninn hjá
þeim langflestum. Mannréttindi okkar
eru bara þunn skán. Eða öllu heldur litrík
40