Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Side 77
Ég hafði ekki hugmynd um við hverju ég
mætti búast þegar ég ákvað að opinbera
tvíkynhneigð mína fyrir fjórum árum
síðan. Ég lifði ekki í neinni blekkingu um
sjálfan mig, ég er í forréttindastöðu,
hvítur miðaldra sís-karlmaður í góðu
starfi og orðinn óþarflega þekktur í
þjóðfélaginu. En þótt sú staða gerði það
að einhverju leyti ólíklegra að ég yrði
fyrir aðkasti vegna kynhneigðar minnar
bauð það samt upp á nýtt og safaríkt
fóður í skítkastið sem allir sem taka þátt í
opinberri umræðu þurfa að þola
núorðið. Og sumir neyttu færis, ég hef
sjaldan séð ömurlegri umræðu um mig í
kommentakerfinu. Takk internet!
Það hefur tekið mig langan tíma að átta
mig á sjálfum mér. Hvað er tvíkynhneigð,
hvað þýðir þetta allt og hvernig passar
það við mínar tilfinningar? Ég er enn að
uppgötva og læra. Það hjálpar að vera
giftur konu sem er líka tvíkynhneigð og
skilur því að mörgu leyti hvað er að
brölta um innra með mér. Við höfum því
stuðning hvort af öðru, í þessu eins og
lífinu öllu.
Slátrum staðalmyndunum
Sökum þess hversu seint ég kom út og
hafði verið lengi með konunni minni
voru mýturnar sem ég þurfti aðallega að
eiga við litaðar af því, t.d. um að
tvíkynhneigðir geti ekki verið trúir
mökum sínum og að tvíkynhneigðir
karlmenn séu í raun hommar haldnir
sjálfsblekkingu. Sumir vinir og
kunningjar héldu að ég væri hættur með
konunni minni og orðinn hommi. Jafnvel
var fullyrt við fjölskyldumeðlim nýlega
að ég væri skilinn og farinn að búa með
manni (sem uppskar töluverða kátínu hjá
tengdamóður minni sem hlakkar mikið
til að hitta þennan auka tengdason).
Mýtur um tvíkynhneigð eru furðu
margar en afgreiðum nokkrar í hvelli: já,
ég er tvíkynhneigður, það er ekki bara
millibilsástand þar til ég verð hommi; já,
ég er tvíkynhneigður þótt ég sé búinn að
vera ástfanginn af konunni minni í rúm
30 ár; nei, ég þarf ekki fjölda elskhuga til
að uppfylla kynferðislega græðgi; nei, ég
þarf ekki að fíla kynin alveg og alltaf
jafnt; og síðast en ekki síst: já,
tvíkynhneigðir karlmenn eru til og ég er
einn þeirra. Þessi staðalímyndakafli er að
vísu skrifaður á meðan ég geri mad
finger guns í uppábrotnum gallabuxum
sitjandi á hlið með annan fótinn yfir
stólbakið, en við tölum ekki um það.
Margir tvíkynhneigðir þekkja líka að
þurfa hálfpartinn að koma út aftur og
aftur, eins og það gleymist milli atriða.
Sérstaklega ef þau eru í sambandi, þá
ræðst ætluð kynhneigð iðulega af því
hvort makinn er samkynja eða gagnkynja.
Ítrekuð svona móment geta orðið pínu
vandró.
Mér þykir samt alveg rosalega vænt um
allar kveðjurnar og samtölin sem hvert
út-úr-skápnum tilefni hefur vakið upp hjá
fjölskyldu, vinum og vinnufélögum. Þau
sýna mér hvað ég er umkringdur
yndislegu fólki og mun heppnari en svo
alltof margir sem mæta miklu mótlæti,
jafnvel algjörri höfnun.
Er þá líf mitt að fela mig og vera
feiminn?
Ein lífseig staðalímynd um tvíkynhneigð
er að tvíkynhneigðir hafi það betra en
aðrir í hinsegin samfélaginu því þau geti
falið sig í hinu heteronormatífa samfélagi.
Og hey, þú þarna Jóhannes, varst þú ekki
akkúrat þessi staðalímynd?
En lykilorðin í þessari setningu eru „falið
sig“. Allir hópar hinsegin samfélagsins
hafa þurft að fela sig í hinu
heteronormatífa samfélagi og við erum
væntanlega öll sammála um að það er
ekkert jákvætt við það. Þetta lífseiga
viðhorf hefur, ásamt öðru, jaðarsett
tvíkynhneigt fólk, bæði í samfélaginu
almennt en líka innan hinsegin
samfélagsins – einmitt þar sem
tvíkynhneigðir þurfa að geta leitað
viðurkenningar og stuðnings.
Það getur verið gerlegt að fela sig en
gerlegt þýðir ekki það sama og auðvelt
eða heilbrigt. Utan frá séð féll ég áður
vissulega inn í heterosamfélagið en það
þýðir ekki að það hafi verið eitthvað
frábært og næs eða uppfyllt allt sem ég
þurfti sem einstaklingur. Þvert á móti finn
ég alveg ótrúlega sterkt, miklu sterkar en
ég átti von á, hvað það skiptir mig öllu
máli að vera úti, opinn og sýnilegur sem
tvíkynhneigður maður. Það er eins og það
hafi fyllt upp í holu í sálinni sem ég vissi
ekki að var til staðar.
Það eru nefnilega svo ótrúlega margir litlir
hlutir sem maður felur, sleppir, segir ekki,
gerir ekki eða gerir öðruvísi til að falla inn
í heteronormið. Segi ég á kaffistofunni að
mér finnist kvikmyndaleikarinn sem er til
umræðu líka rosa hot, eða bít ég í
tunguna á mér á meðan konurnar tala um
hann? Pósta ég á samfélagsmiðla hvað
mér finnst og hvernig mér líður í raun, eða
hætti ég við því einhvern gæti farið að
gruna? Allir sem eru eða hafa verið inni í
skápnum þekkja þúsund svona lítil
móment, sem virðast kannski lítið
merkileg hvert fyrir sig en mynda samt
mikilvægan hluta af því hver maður er.
Og þegar ég hætti að leika þennan
meðvitaða og ómeðvitaða feluleik fann
ég frelsi sem líkist engu sem ég gat
ímyndað mér fyrirfram. Þegar ég, eftir
gleðigönguna fyrir fjórum árum talaði við
fjölskyldu mína og birti á
samfélagsmiðlum að ég væri
tvíkynhneigður hélt ég að ég væri bara
að smella út einhverju sem væri ekkert
stórmál og væri bara gott að klára. Ég
skildi ekki fyrr en eftir á að ég hafði í raun
gefið sjálfum mér sjálfan mig.
Þess vegna tók ég þá ákvörðun á síðasta
ári að segja já þegar einhver vildi ræða
kynhneigðina við mig opinberlega og
nota þannig tækifærið til að reyna að
auka sýnileikann. Ef ég sem opinber
persóna er ekki til í það, hvernig get ég
þá kvartað yfir því að sýnileiki
tvíkynhneigðra sé lítill?
Hvað er svona merkilegt við það?
Því miður virðast fáar nýlegar íslenskar
rannsóknir til um stöðu tvíkynhneigðra á
Íslandi en rannsóknir frá Bandaríkjunum
sýna að tvíkynhneigðir eru rúmlega
helmingur allra í hinsegin samfélaginu.
Sýnileikinn er hins vegar afar lítill og
afmáun tvíkynhneigðar (bi erasure) – það
að líta framhjá, fjarlægja, falsa eða
útskýra burt merki um tvíkynhneigð úr
samfélagslegri umræðu, sögunni,
fjölmiðlum, menningarefni, akademísku
efni o.s.frv. – er raunverulegt vandamál
sem vinnur sterkt á móti sýnileikanum.
Lítið en lífseigt íslenskt dæmi um slíka
afmáun er þrálát notkun fjölmiðla á
orðasambandinu „hjónabönd
samkynhneigðra“ um samkynja
hjónabönd.
Það er líka sár staðreynd að ungt (og
eldra) tvíkynhneigt fólk sem er að fóta sig
í kynhneigð sinni geti helst leitað
fyrirmynda í vísindaskáldsögum og
fantasíuefni vegna þess hversu fáar
tvíkynhneigðar persónur er að finna í
menningarefni sem byggir á
raunveröldinni. Þetta vandamál er
auðvitað ekki bundið við tvíkynhneigða,
en það gerir þetta bara verra.
Svo eru viðhorfin ennþá svo spes.
Rannsóknirnar sýna til dæmis að oftar en
ekki telur samfélagið tvíkynhneigðar
konur aðeins vera að taka hliðarspor til
að þóknast eða heilla karlmenn á meðan
tvíkynhneigðir karlar séu það aðeins þar
til þeir viðurkenna fyrir sjálfum sér að þeir
séu hommar. Sem sagt: Allir
tvíkynhneigðir laðast í alvörunni að
karlmönnum. Jáseisei. Feðraveldið er
víða, og sjálfsánægt.
Upplifun þeirra out tvíkynhneigðu
karlmanna sem ég hef rætt við er að
síshet samfélagið virðist tilbúnara til að
umbera tvíkynhneigð kvenna en karla.
77