Saga - 2022, Síða 11
bundna fréttaefni, frá þeim sem stóðu á sviði og að áhorfendum,
hvort sem það voru fundargestir á landsfundi, söfnuður í kirkju eða
eftirvæntingarfull börn á Austurvelli að bíða eftir að ljósin á Óslóar -
trénu yrðu tendruð.
Þessi kona á fremsta bekk sker sig úr fjöldanum vegna kyns,
klæðaburðar og líkamsstöðu og fékk greinarhöfund til að staldra við
og vilja vita meira. Hver er hún? Hvað er í gangi? Og hvað er hún
að gera þarna? Það tók ekki langan tíma að átta sig á því hver konan
fremst á myndinni er. Þetta er Engeyjarsystirin Guðrún Pétursdóttir.
Við hlið hennar situr eiginmaður hennar, Benedikt Sveinsson, þá
fyrrverandi alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Guðrún var
sjálf virk í starfi Sjálfstæðisflokksins og þau hjónin voru foreldrar
Bjarna Benediktssonar sem varð formaður Sjálfstæðisflokksins og
forsætisráðherra en var, þegar myndin var tekin, utanríkis- og dóms -
málaráðherra. Það verður að teljast ólíklegt að Guðrún haldi fyrir
andlitið til að þekkjast ekki því hún var þjóðþekkt á þessum tíma.
Hún var alltaf í hefðbundnum íslenskum búningi sem var einkenn-
andi fyrir hana og hún þótti bera einstaklega vel; „hún var sem
drottning, hvar sem hún fór.“1
Án þess að þekkja við fyrstu sýn persónur og leikendur er ljós-
myndin sterk og dregur upp ákveðna mynd af stöðu kynjanna og
pólitísku starfi um miðja síðustu öld þar sem karlar voru í algjörum
meirihluta. Þjóðlegur klæðnaður Guðrúnar gerir hana í ofanálag að
eins konar táknmynd fyrir hefðbundnar hugmyndir um konur og
hlutverk þeirra á þessum tíma sem mæður og verðir þjóðlegra
hefða.2 Það er því áhugavert að komast að því að Guðrún var virkur
þátttakandi í að móta einmitt þá orðræðu. Hún og systir hennar,
Ragnhildur Pétursdóttir, voru virkar í kvenréttindahreyfingunni og
teljast báðar til íhaldssamari arms hennar þótt þær deildu ekki alltaf
sömu skoðun á því hvort konur gætu sameinað hlutverk sitt sem
mæður og húsmæður við störf utan heimilisins.3 Guðrún lagði alltaf
mikla áherslu á að mikilvægasta hlutverk hverrar konu væri að vera
móðir og húsmóðir og sinna börnum og heimili en taldi það ekki
hinn ágæti fulltrúi íslenskrar kvenþjóðar 9
1 „Guðrún Pétursdóttir,“ Morgunblaðið, 28. nóvember 1963, 14.
2 Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi
1900–1930 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003), 361.
3 Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjáns -
dóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, Konur sem kjósa. Aldarsaga (Reykjavík:
Sögufélag, 2020), 134; Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur, 255 og 345.