Saga - 2022, Page 24
fullu þá aðgreiningu á milli atvinnu- og áhugamanna sem Claus
Møller Jørgensen taldi einkenna evrópsk sagnfræðitímarit. Þessi
stefna Sögu mótast ekki síst af rekstrarumhverfi tímaritsins, því að
það er fjármagnað að öllu leyti með áskriftargjöldum. „Sögu félag
var á sínum tíma stofnað sem sameiginlegur vettvangur áhuga -
manna um söguleg efni og ‚atvinnumanna‘ í fræðunum“, skrifuðu
ritstjórar Sögu árið 1997 um þann vanda sem þá blasti við í rekstrin-
um. Áskrifendum fór fækkandi, í og með vegna þess „að endur -
nýjun hefur verið of lítil í hópi ‚áhugamannanna‘ — og mættu
‚atvinnumennirnir‘ ef til vill líta í eigin barm til að leita skýringa á
því — en ekki síður af því, að einungis hluti þess stóra hóps, sem
lokið hefur námi í sagnfræði á undanförnum árum, hefur talið það
sjálfsagt mál og forgangsatriði að vera félagsmaður í Sögufélagi og
þar með áskrifandi að tímaritum íslenskra sagnfræðinga.“10 Þessi
vandi hefur fylgt starfsemi Sögufélags frá upphafi, því að alla tíð
hefur reynst erfitt að reka tímaritið fyrir áskriftargjöld eingöngu.
Ekki bætir úr skák að öll hefðbundin útgáfa fræðirita á pappír á nú
við vaxandi fjárhagsvanda að stríða. Ein ástæða er sú að útgáfa fag-
tímarita flyst í síauknum mæli af prentuðu formi yfir á rafrænt.
Þessu fylgja ýmis þægindi fyrir lesendur því að hægt er að nálgast
rafræn tímarit hvar sem aðgangur fæst að netinu. Rafræna bóka-
safnið fylgir því lesandanum hvert sem hann fer. Rafræn útgáfa
býður líka upp á ýmsa áhugaverða kosti í framsetningu, ekki síst
þegar kemur að myndefni. Vandinn er aftur á móti sá að það hefur
reynst erfitt að selja rafræn rit í áskrift til einstaklinga. Þetta hefur
ýtt undir sífellt meiri fákeppni í útgáfu alþjóðlegra fræðitímarita, því
að stórfyrir tæki geta bæði boðið upp á fjölbreyttari áskriftir til bóka-
safna og betri þjónustu fyrir höfunda en smærri útgefendur.11
Annar vandi sem blasir við útgefendum sem treysta á tekjur af
áskriftum er aukinn áhugi fræðimanna á að gefa niðurstöður sínar
út á vettvangi sem lesendur geta nálgast sér að kostnaðarlausu.12
Stjórnvöld víða um heim hafa ýtt undir þessa þróun með beinum og
óbeinum hætti. Hér á landi var til að mynda bætt við ákvæði í lög
álitamál22
10 „Formáli,“ Saga 35 (1997): 5–7, hér 7.
11 Vincent Larivière, Stephanie Haustein og Philippe Mongeon, „The Oligopoly
of Academic Publishers in the Digital Era,“ PLoS ONE 10, nr. 6 (2015).
12 Sjá ágætt yfirlit um þessa þróun í hugvísindum: Martin Paul Eve, Open Access
and the Humanities. Contexts, Controversies and the Future (Cambridge: Cam -
bridge University Press, 2014).