Saga - 2022, Page 38
auður magnúsdóttir
Skýrsla frá hringborðsumræðum
um norræn sagnfræðitímarit
30. norræna sagnfræðingaþingið var haldið í Gautaborg dagana 8.–
11. ágúst síðastliðinn, einu ári seinna en ætlað var, en fresta varð
þinginu vegna Covid-faraldursins. Mikið fjölmenni var á ráðstefn-
unni og voru gestir um 530 talsins. Höfuðþema ráðstefnunnar var
„Globalt och lokalt“, „Hnattrænt og staðbundið“, og auk tveggja
hátíðarfyrirlestra var alls boðið upp á 144 málstofur eða hring-
borðsumræður sem á ólíkan máta tengdust þemanu.
Þemað skírskotar til þróunar fagsins og vitnar um þá áherslu
sem í sífellt meira mæli er lögð á samanburðarrannsóknir. En til
sagnfræðinga — og annarra fræðimanna — eru einnig gerðar æ
meiri kröfur um að koma rannsóknarniðurstöðum sínum á framfæri
á alþjóðlegum vettvangi, sem í víðu samhengi verður að teljast vera
af hinu góða. Þar sem birtingar í erlendum tímaritum eru farnar að
teljast forsenda framgangs í faginu hefur þróunin hins vegar skapað
samkeppni innlendra eða staðbundinna tímarita við hin erlendu.
Hvaða áhrif hefur „hnattvæðing“ fagsins á tilvist og framtíð inn-
lendra sagnfræðirita og hvernig er hægt að bregðast við þessum
breyttu aðstæðum? Til þess að ræða þessar spurningar — og fleiri
— var efnt til hringborðsumræðna á Norræna sagnfræðinga þing -
inu.
Hvatamenn og þátttakendur voru ritstjórar eða fulltrúar rit-
stjórna sjö norrænna sagnfræðitímarita, danska Historisk tidsskrift,
norska Historisk tidsskrift, sænska Historisk tidskrift, finnska Historial -
linen Aikakauskirja og Historisk tidskrift för Finland, ásamt hinu sænska
Scandia og hinu danska Temp — tidsskrift om historie.1 Málstofan var
álitamál36
Auður Magnúsdóttir, audur.magnusdottir@history.gu.se
1 Eftirfarandi ritstjórar tóku þátt í umræðum: Frá Svíþjóð Susanna Erlandsson,
Historisk tidskrift, Wiebke Kolbe, Scandia, og Björn Lundberg, Scandia, frá
Finnlandi Johanna Wassholm, Historisk tidskrift för Finland, og Anu Lahtinen,
Historiallinen Aikakauskirja, frá Danmörku Poul Duedahl, Historisk tidsskrift, og
Niels Wium Olesen, Temp — tidsskrift for historie, og frá Noregi Dunja Blazevic,
Historisk tidsskrift.