Saga - 2022, Page 54
dóma, svo sem bein dýrlinga, og hvatti fólk til að kyssa á þá. Hitt
voru vígslur hans og yfirsöngvar; nánar til tekið vígði hann björg og
brunna, fjallvegi og lindir. Hann rak brott illar og hættulegar vættir
af fjallvegum og úr björgum, eða þar sem þær var að finna, og vatn
þótti heilnæmara eftir vígslur hans, taldist kraftmikið og læknaði
fólk. Þannig er þessu einkum lýst í Prestssögu Guðmundar sem er
honum vilhöll.2 Í sögunni segir að fólk hafi kallað Guðmund helgan
mann í lifanda lífi og jafnvel heitið á hann og þakkað honum jar -
teinir (kraftaverk). Þetta stríddi gegn kenningum kirkjunnar, þar
sem dauðlegir, syndugir menn gátu ekki talist heilagir, aðeins
verðugt fólk sem var látið og komið til Guðs.3 Að sögn lagði Guð -
mundur áherslu á helga dóma af því að hann treysti frekar á heilag-
leik þeirra en á eigin verðleik.4 Með helgum dómum vildi hann
kannski líka auka trúarhita.
Guðmundur var af þekktri goðaætt í Eyjafirði og föðurbróðir
hans og afi voru kunnir goðorðsmenn. Sem prestur naut Guðmundur
virðingar, var skriftafaðir Brands Hólabiskups og prestur á heimili
voldugasta goðorðsmanns á Norðurlandi, Kolbeins Tumasonar á
Víðimýri. Samkvæmt Prestssögunni var talað um „Guðmund góða“
þegar hann var um 25 ára gamall prestur og það er venjulega skýrt
á okkar tíð með góðmennsku hans gagnvart minnimáttar, einkum
fátækum. Þess verður þó að geta að orðið „góði“ mátti nota um þá
sem töldust haga sér eins og helgir menn í lifanda lífi, að því er
virðist. Í Prestssögunni kemur fram um Guðmund að Guði „líkaði
aðferð hans“ og alþýða þóttist skilja hvað klukkan sló og gaf Guð -
mundi því kenningarnafnið.5 Árni Jónsson segir í Guðmundardrápu
helgi þorláksson52
2 Prestssagan er að hluta í Sturlungu en mun vera heil í gerð Guðmundarsögu
sem Stefán Karlsson nefndi GA, sbr. Stefán Karlsson, „Guðmundar sögur bisk-
ups,“ 153, 156‒157, 158.
3 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi II,
ritstj. Hjalti Hugason (Reykjavík: Alþingi, 2000), 295‒296.
4 Skýringin er í Guðmundar sögu A (GA), sbr. Guðmundar sögur biskups I, útg.
Stefán Karlsson, Editiones arnamagnæanæ B,6 (C.A. Reitzels forlag: Kaup -
manna höfn, 1983), 75. Líka í Guðmundarsögu Arngríms Brandssonar, sbr.
Byskupa sögur I–III, útg. Guðni Jónsson ([Reykjavík]: Íslendingasagnaútgáfan,
Haukadalsútgáfan, 1953), sjá Byskupa sögur III, 172. Hér er jafnan vísað í GA og
GB í Editiones arnamagnæanæ þegar tekið er upp orðrétt eða orðalag skiptir
máli en í útgáfuna Byskupa sögur (1953) um almenn atriði.
5 Sturlunga saga I‒II, útg. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason, Kristján Eldjárn
(Reykjavík: Sturlunguútgáfan, 1946); I, 135. Guðmundarsaga A (GA), 62. Sjá og
Byskupa sögur II, 203.