Saga - 2022, Page 57
ins strax 1201‒1202 en Kolbeinn bannaði það.15 Er sýnt að það mun
hafa verið notað gegn Guðmundi að hann myndi hafa ómaga á
föstu framfæri stólsins, kannski sjö eða fleiri, jafnframt því að vera
óspar á mat við aðvífandi fátæklinga. Hins vegar kemur fram að
Kolbeinn settist að á staðnum við sjöunda mann og mun hafa fram-
fleytt þeim af staðarfé.16
Aðalatriði málsins er að biskupar skyldu stýra fjármálum stól-
anna og má til dæmis ráða það af því að Magnúsi Gissurarsyni var
talið til ágætis, af þeim sem buðu hann fram til biskupsefnis nyrðra
1201, að hann væri reyndari í fjárvarðveislu en Guðmundur. Þegar
Guðmundur kom út vígður biskup 1203 fylgdi hann hinni nýju
kirkjuvaldsstefnu um frelsi eða sjálfstæði kirkjunnar gagnvart ver-
aldarvaldi, sem nánar verður fjallað um hér á eftir. Ekki samræmdist
vel þessari stefnu um sjálfstæði að veraldarhöfðingjar gætu ráðið
fjármálum kirkjunnar, til dæmis hvort biskup hefði nokkra fátæka
frændur sína á framfæri stólsins.17
Viðfangsefni þessarar greinar er að rýna í seinni tíma sögu -
skoðun um Guðmund góða sem biskup og feril hans, setja hana í
samhengi við þróun íslenskrar söguskoðunar almennt og gera til-
raun til að endurskoða frásagnir af honum sem biskupi og meta þá
afstöðu sem enn er ríkjandi til hans. Spurt er: Var fjármálastjórn
Guðmundar biskups glórulaus, matgjafir hans sóun, og afskipti
Ásbirninga og nóta þeirra því nauðsynleg? Eða var biskupsstjórn
Guðmundar með felldu en afskipti Ásbirninga og annarra höfðingja
nyrðra mörkuð af viðleitni þeirra til að auka völd sín og tekjur?
Ólíkar skoðanir fræðimanna á Guðmundi góða:
Skeinuhættur þjóðveldinu? Vanhæfur biskup?
Reynsluleysi í fjármálastjórn og örlæti við fátæka voru ekki einu
ávirðingar Guðmundar í augum sumra samtímamanna hans. Sú
skoðun kom fram að biskup hefði með kröfu sinni um dómsvald
yfir klerkum ekki virt landslögin og ofnotað bannfæringu, hefði
forboðað eða bannsett alla sem dirfðust að mæla gegn vilja hans.
guðmundur góði, vondur biskup? 55
15 Byskupa sögur II (1953), 264‒265; Sturlunga saga I (1946), 153‒154.
16 Sturlunga saga I (1946), 154 (Prestssagan); Guðmundar sögur biskups I, 132 (GA).
17 Hér eru goðar nefndir „veraldarhöfðingjar“ þótt sumir þeirra hafi verið vígðir.
Orðið „leikmenn“ er líka notað hér um goða; þetta er ekki nákvæmt um vígða
menn en gert til þæginda.