Saga - 2022, Síða 60
anum“ og Sigurður Nordal taldi að Guðmund hefði skort skynsemd
og skorður í baráttu sinni.27 Ólafur Lárusson talaði um „víkingseðli“
Guðmundar, hann hefði orðið „heiftúðugur og þykkjuþungur í garð
óvina sinna“.28 Jón Jóhannesson sagði það ekki að ófyrirsynju að
Guðmundur hefði verið kallaður „einn hinn óþarfasti maður í sögu
vorri“.29 Magnús Stefánsson lagði líka mat á persónu Guðmundar
og ritaði meðal annars: „Hann var þrákelkinn, ofsafenginn, óbil -
gjarn og tillitslaus gagnvart andstæðingum sínum“ og enn fremur
„hann gat hvorki haft stjórn á sjálfum sér né öðrum“. Magnús
virðist taka stöðu með andstæðingum Guðmundar og segir: „ …
ógæfan var hversu óvægilega hann beitti biskupsvaldi sínu … því
reyndist hann höfðingjum svo þungur í skauti“ og líka: „[s]tefna
Guðmundar leiddi auk þess til ófriðar“. Ágreiningur magnaðist
sakir ofsa Guðmundar, að mati Magnúsar, og Guðmundi var „ósýnt
um fjárstjórn“ og „hið taumlausa örlæti“ hans olli vanda, en hann
hafi neitað „að slaka á örlæti við fátæka menn“.30 Í texta Þorsteins
Jósepssonar og Steindórs Steindórssonar frá 1981 virðast enduróma
orð Magnúsar Stefánssonar og fleiri um biskup, en þeir rita að hann
hafi haldið fram réttindum kirkjunnar á „ofsafenginn og óbilgjarnan
hátt“ og segja enn um Guðmund: „höfðingjar þoldu ekki að hann
eyddi eignum stólsins til að fæða lausingjalýð“.31 Jón Kr. Margeirs -
son tekur undir þetta árið 1985 og kallar biskupsdóm Guðmundar
„slys“ og má bera það saman við fyrri ummæli um kjör hans og
feril, „óheillakosning“, „óhamingja“, „ógæfa“ og „glapræði“.32
Í ummælum á þessari öld kveður við líkan tón. Guðrún Nordal
lýsir sjálfsagt hinni almennu eða ríkjandi skoðun þegar hún skrifar
helgi þorláksson58
27 Einar Ól. Sveinsson, Sturlungaöld, 122‒123; Sigurður Nordal, Íslenzk menning,
319‒320.
28 Ólafur Lárusson, „Guðmundur góði í þjóðtrú Íslendinga,“ 278.
29 Jón Jóhannesson, Íslendinga saga I, 250. Ekki kemur fram hvert Jón sótti þessi
ummæli en ýmsir munu hafa getað tekið undir; Brynleifur Tobiasson mun árið
1917 hafa kallað Guðmund „einn mesta óhappamanninn íslenskan á biskups-
stóli“, sbr. Viðar Hreinsson, Andvökuskáld. Ævisaga Stephans G. Stephanssonar II
(Reykjavík: Bjartur, 2003), 246. Brynleifur var hins vegar mjög sáttur við „hinn
þjóðlega“ Jón Ögmundsson Hólabiskup.
30 Magnús Stefánsson, Kirkjuvald eflist, 135‒136, 134, 135, 122, 123, 131, 136.
31 Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson, Landið þitt Ísland, 2. bindi, H–K
(Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1981), 106‒107.
32 Jón Margeirsson, „Ágreiningsefni Kolbeins Tumasonar og Guðmundar Ara -
sonar,“ Skagfirðingabók 14 (1985): 121‒144, sjá 143.