Saga - 2022, Síða 64
fallist á það 1207 að deilum við Guðmund um dómsvald yrði vísað til
erkibiskups. Enginn hefði efast um að erkibiskup væri yfir maður
íslenskra biskupa í umboði páfa.43 Undir þetta tók Gunnar F. Guð -
mundsson árið 2000, sagði að úrskurðar vald erkibisk ups hefði verið
ótvírætt og aldrei efast um það hérlendis, allt frá kristnitöku.44
Magnús og Gunnar leitast þannig ekki við að sýna að hlýðni
Guðmundar við erkibiskup hafi opnað erlendum höfðingjum, erki-
biskupi og konungi, leið til afskipta af málefnum Íslands og valdið
endalokum þjóðveldis enda er erfitt að fallast á það. Flestir munu
hafa horfið frá þessari skoðun en hennar gætti þó lengi.45 Íslenska
kirkjan hafði verið formlega undir páfavaldi frá elleftu öld og
enginn amast við því. Má minna á að Össur erkibiskup í Lundi í
Danmörku (núna Svíþjóð) setti hin fyrstu kristnu lög fyrir Ísland um
1125, með forgöngu biskupa og ráðum Sæmundar fróða. Bein
afskipti erkibiskups af þessu tagi munu hafa þótt eðlileg en munu
ekki hafa verið tíð og mikil fyrr en frá um 1180.46
Um afstöðu landsmanna til kaþólsku eftir 1550 er kannski helst
að nefna að umburðarlyndi í garð hennar var allmikið á Íslandi á
sautjándu öld og eru biskupar eins og Brynjólfur Sveinsson og Gísli
og Þórður Þorlákssynir til vitnis um það. Á átjándu öld fór að bera
á gagnrýni á kaþólska siði, þegar ýmsir upplýsingarmenn gagn -
rýndu það sem þeir kölluðu hindurvitni og hégilju. Er eins og slík
gagnrýni hafi magnast með hinni þjóðernislegu söguskoðun en þó
var talið að hin „þjóðlega kirkja“ fyrir 1200 hefði einkennst af raun -
sæi og skynsemi. Biskuparnir Þorlákur Þórhallsson og einkum
Guðmundur Arason hefðu hins vegar greitt götu fyrir trú á dýrlinga
og helga dóma og þótti það miður. Guðmundi var ekki síst kennt
helgi þorláksson62
43 Magnús Stefánsson, Kirkjuvald eflist, 129.
44 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, 51‒52.
45 Jón Þ. Þór heldur sig við þessa gömlu skoðun, sbr. Saga biskupsstóls á Hólum í
Hjaltadal, 299‒300. Regis Boyer nefnir að Guðmundur hafi verið „one of the
chief responsible people for his country’s decadence and final fall“, sbr.
„Bishop Guðmundr, once more!,“ Scandinavia and Christian Europe in the Middle
Ages, útg. Rudolf Simek og Judith Meurer, The 12th International Saga
Conference (Bonn: Hausdruck der Universität Bonn, 2003), 40–44, sjá 40. Í
Íslandssögu sinni á ensku segir Jón R. Hjálmarsson að Guðmundur hafi verið
„a troublesome bishop“ og „arbitrary“ og „far from cooperative“ og hafi greitt
götu erkibiskups og konungs til áhrifa á Íslandi, sbr. History of Iceland
(Reykjavík: Forlagið, 2014), 48‒49.
46 Til vitnis um þáttaskil um 1180 er framganga Þorláks biskups Þórhallssonar og
nokkur bréf erkibiskupa til Íslendinga (birt í Íslenzku fornbréfasafni I).