Saga - 2022, Side 69
þykkja valið og Páll tilkynnti Haukdælum að hann myndi sam -
þykkja Guðmund.62
Eins og fram er komið hafa ýmsir fræðimenn talið að Guð -
mundur hafi ráðstafað fé á Hólum án þess að virða hag stólsins.
Hann hafi gefið í burtu allt matarkyns sem fátækir óskuðu eftir.63
Eitt er að Guðmundur var lítt reyndur í fjármálum 1201 en annað að
hann hafi verið hömlulaus. Við getum spurt: Hvaðan er komin hug-
myndin um að Guðmundur hafi hugsað sér að gefa þurfandi fólki
mat úr búrum á Hólum á meðan birgðir entust? Höfundar hafa
slegið því föstu að fjöldi fátæklinga hafi sótt til Guðmundar og von-
ast eftir mat og hann ekki getað neitað. Vitneskja sem kemur fram í
sögum um Guðmund bendir þó ekki til að hann hafi hugsað sér að
gefa glórulaust á meðan birgðir entust á staðnum. Þegar Kolbeinn
Tumason stjórnaði á Hólum 1201‒1202 taldi hann nóg að gefa fátæk-
um einmælt, eina máltíð daglega, en Guðmundur vildi gefa tvær.64
Kolbeinn hlaut að ráða að sinni. Eftir jól sagði bryti að nægur matur
væri afgangs þótt veitt hefði verið jafnmikið af mat og venjulega um
jólin og aldrei verið mannfleira. Þetta ber víst að skilja svo að matur
hafi verið mun drýgri en Kolbeinn ætlaði og óhætt hefði verið að
fara að ráði Guðmundar um matveitingu til fátækra. Þá sagði nauta -
maður að fóður fyrir fé hefði aldrei verið jafndrjúgt.65
Frá þessu segir í Prestssögunni sem er vissulega vilhöll Guð -
mundi. En þetta minnir á að Guðmundur gat alltaf leitað álits hjá
mönnum sem höfðu yfirsýn, til dæmis bryta og nautamanni. Eins
má segja að Kolbeinn hafi varla þurft að stjórna öllu sjálfur heima á
Hólum, hann gat komið í kurteisisheimsókn til Hóla við og við og
haft eftirlit, til dæmis með því að ræða við bryta, nautamann og
guðmundur góði, vondur biskup? 67
62 Sjá Prestssöguna, en texti bréfanna sem eru nefnd finnst þar, Sturlunga saga I
(1946), 152, 156‒157.
63 Sjá einkum: Orri Vésteinsson, The Christianization of Iceland, 174‒178.
64 Sturlunga saga I (1946), 154 (Prestssagan). Í A gerð Guðmundarsögu (GA)
stendur „í þrjú mál“ en mun missögn. Sturlunga og B gerð og C gerð Guð -
mundarsögu segja tvö, sbr. Guðmundar sögur biskups I, 132. Í Guðmundarsögu
Arngríms Brandssonar, þ.e. D gerð, er talað um „tvímæling“, Byskupa sögur III
(1953), 220. Sjá og: Helgi Þorláksson, „Guðmundur góði og klaustrið í Saurbæ.
Kirkjuvaldsstefnan, ágústínar og málefni fátækra,“ Nýtt Helgakver. Rit til heiðurs
Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum 1. febrúar 2019, ritstj. Guðmundur Jónsson o.
fl. (Reykjavík: Sögufélag, 2019), 29‒41, einkum 31‒32.
65 Sturlunga saga I (1946), 154 (Prestssagan).